04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

Vísun mála til nefnda

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir það sjónarmið sem fram kom hjá hv. 5. þm. Vestf. Ég er flm. þess máls varðandi átak í umhverfismálum og náttúruvernd sem vísað var fyrir nokkru til allshn. Það er 90. mál þingsins að ég hygg. Sú tillaga sem í dag gekk til atkvæða og vísað var til félmn. er um sama málefni, stjórn umhverfismála, sem hin tillagan tekur einnig til. Mér finnst alveg nauðsynlegt að sama þingnefndin fjalli um þessi mál. Ég veitti því hins vegar ekki athygli hvert tillaga gekk um málið sem vísað var til félmn. í dag. Ég vænti þess að það verði séð til þess að þetta verði leiðrétt. Allshn. hefur fjallað á fyrri þingum um þá tillögu sem ég er 1. flm. að og þar liggja fyrir umsagnir frá ýmsum aðilum einnig um stjórn umhverfismála þannig að það er ábending mín að ég tel eðlilegt að allshn. haldi um þetta mál áfram. Ég held að það greiði fyrir þinglegri meðferð beggja málanna.