04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

170. mál, fjármögnunarfyrirtæki

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þetta hafa verið fróðlegar umræður og gagnlegar. Hér er um að ræða mál sem brýnt er að taka afstöðu til.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að varpa fram nokkrum áleitnum spurningum í tengslum við annað mál sem nú er brýnt að Alþingi láti til sín taka en það er endurskipulagning bankakerfisins.

Sem kunnugt er hefur okkar þjóðfélag þá sérstöðu í samanburði við ríki grannlanda okkar að við höfum um langt skeið búið við fyrirferðarmikið pólitískt ríkisbankakerfi og pólitískt forsjárkerfi í fjárfestingarsjóðum og fjárfestingarmálum. Yfirstjórn fjármagnsins hefur verið að verulegu leyti í höndum pólitískra aðila. Það mun vera nokkurt ágreiningsmál milli stjórnarflokkanna hvernig bregðast skuli við því áfalli sem þetta kerfi hefur orðið fyrir og er þá átt við Útvegsbankann og örlög hans.

Sjálfstæðismenn hafa lýst því yfir að þeir vilji nota þetta tækifæri til þess að endurskipuleggja bankakerfið með því að ná því markmiði að hér komist á laggirnar einkabanki eða hlutafjárbanki og hann fullnægi þeim skilyrðum að vera nægilega öflugur til þess að geta veitt fjárhagslega þjónustu sæmilega öflugum fyrirtækjum. Við Alþýðuflokksmenn höfum lýst því yfir að við erum sammála þessum markmiðum, við teljum þetta mjög æskilegt. Við teljum mjög æskilegt að hér rísi öflugur hlutafjárbanki sem geti veitt ríkisbönkum samkeppni og um leið orðið til þess að draga úr óhæfilega mikilli pólitískri stýringu fjármagnsins.

Ég nefni þetta hér vegna þess að um leið og þetta hefur verið rætt segja menn sem svo: Við búum í litlu þjóðfélagi og ef við erum að tala um öflugan banka sem ekki á að njóta ríkisábyrgðar og ríkið á ekki að standa á bak við allar hans skuldbindingar segja margir sem svo: Slíkur banki verður ekki tekinn alvarlega í erlendum viðskiptum. Erlendir viðskiptaaðilar okkar eru vanir að ganga að því sem gefnu að ríkið sjálft standi á bak við allar slíkar skuldbindingar. Þess vegna er óséð að hlutafjárbanki, þótt hann væri sæmilega öflugur á okkar mælikvarða, stæði sig að því er varðaði erlend viðskipti. Og nú kemur spurningin: Ef við ætlum í áföngum að fikra okkur út úr þessu pólitískt stýrða ríkisbankakerfi, hvað getum við þá gert til þess að tryggja að slíkur hlutafjárbanki geti þótt gjaldgengur í erlendum viðskiptum? (Forseti: Vakin er athygli hv. ræðumanns á því að á dagskrá eru fjármögnunarfyrirtæki, þáltill., 170. mál Sþ.) Herra forseti, ég þakka ábendinguna en vek um leið athygli hans á því að ég er að ræða um mál sem varðar dagskrármálið, þ.e. þátttöku erlends áhættufjármagns í íslensku efnahagslífi og hugsanlega þær reglur sem þessi þáltill. fjallar um að við ættum að setja til þess að stýra því. Og kjarni málsins í því sem ég er að segja er þessi: Ef slíkur hlutafjárbanki ætti að vera gjaldgengur gæti það verið nauðsynlegt skilyrði að hann yrði að hluta til í eigu erlendra aðila sem ættu hlut í honum. Þar með tengist það mjög náið þessu máli þó að hér sé aðeins fjallað um fjármögnunarfyrirtæki. Hvað er banki? Hann er fjármögnunarfyrirtæki.

Ég tek undir það með hv. frsm. og flm. að það er tímabært að setja um þetta almennar reglur. En ég held að menn ættu að nálgast viðfangsefnið ekki út frá hugmyndafræði, ekki út frá því að draga sér upp grýlumyndir fyrir fram af böli erlends fjármagns, sér í lagi með hliðsjón af því að það er staðreynd að ríkisbankakerfið íslenska, það fé sem það lánar, er 40% erlent fé að uppruna, erlent lánsfé. Hér er fyrst og fremst spurning um þetta: Viljum við heldur að erlent fjármagn komi hingað inn í landið í gegnum hið pólitískt stýrða banka- og fjárfestingarlánakerfi og verði allt á ábyrgð ríkisvaldsins sem slíks eða viljum við setja almennar reglur sem heimila þátttöku erlends áhættufjármagns við uppbyggingu í íslensku atvinnulífi? Og er ekki rétt, herra forseti og hv. flm., að reyna að taka í því efni nokkurt mið af reynslu allra annarra þjóða í kringum okkur? Þess munu nefnilega vera fá dæmi að tekist hafi að byggja upp þróttmikið og háþróað efnahagslíf án þátttöku erlends áhættufjármagns í mismunandi miklum mæli en á vissum þýðingarmiklum skeiðum þeirrar uppbyggingar.