20.10.1986
Neðri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

27. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er hreyft við merku máli í frumvarpsformi, en það hefur komið fram í máli manna að þetta mál er ekki nýtt í sölum þingsins. Ég reyndi að þrýsta á framgang máls af þessum toga, flm. var þá Páll Pétursson, en það hefur löngum orðið svo að sitt sýnist hverjum hvernig að þessu eigi að standa. Ég tel að þeirri deilu verði að linna og menn verði að una því að samþykkja lög um lífeyrisréttindi húsmæðra þó að hver og einn hafi þar kannske ekki allt eftir sínu höfði.

Ég hnýt um það helst í þessari uppsetningu að talað er um að það eigi að greiða fyrir þær sem eru í hálfu starfi utan heimilis, minna en hálfu starfi. Ég hefði talið eðlilegra ef þetta er gert að það yrði greitt það sem vantar upp á að þær séu í fullu starfi og þá að fullu ef konan er ekki útivinnandi, enda er viðmiðunartalan í launum ekki það há að það fái staðist að rökrétt sé að fara neðar ef þetta er gert.

Varðandi það að þetta sé eina sviðið þar sem konum hafi verið treyst til að stjórna verð ég að segja að þar er um mikinn misskilning að ræða, í það minnsta ef mínar heimabyggðir eru teknar, Vestfirðir. Þar voru sjóslys algeng og e.t.v. kannske þess vegna ekki óalgengt að konur stjórnuðu búum. Og þó að atvinnurekendavald hafi verið sterkt á seinni tímum hefur enginn atvinnurekandi á Vestfjörðum haft öflugra ríki en Guðrún í Bæ þá daga sem hún rak útgerð í Barðastrandarsýslu.

En svo við sleppum öllu slíku vil ég lýsa því yfir að ég mun styðja þetta frv., leita samkomulags um þá breytingu sem ég gaf um í mínu máli, og ég vil undirstrika að alvara þessa máls fer vaxandi með hverju árinu sem líður. Það er fyrirsjáanlegt að Íslendingum, að óbreyttri stefnu gagnvart heimavinnandi konum, mun fækka áður en langt um líður. Og sú deila, sem hefur ríkt í höfuðborg Íslands um hver væri eðlileg þátttaka samfélagsins í uppeldi barna, hefur skilað því einu að Reykjavíkurborg elur ekki upp þau börn sem þarf til að viðhalda því fólki sem hér er. Það má vel vera að valdið til að stöðva þjónustuna sé í höndum hinna kjörnu borgarfulltrúa, en það blasir við að valdið til að ráða mannfjölguninni er hjá konum og þær hafa einfaldlega tekið sig til og séð til þess að Reykjavíkurborg... (Gripið fram í.) Hv. þm. þyrfti e.t.v. að fá sér afruglara. Það er ekkert við því að gera. En hann er vinsamlega beðinn að fylgjast með.

Þetta vandamál er þannig í kóngsins Kaupmannahöfn að þar fæðist eitt barn á hverja konu og mannfækkun blasir við. Danir sitja uppi með af þessari ástæðu gífurlegan straum innflytjenda og vita ekki í dag hvaða afleiðingar það mun hafa á danskt þjóðlíf. Ég tel að við Íslendingar þurfum að átta okkur í tíma á þessu máli og við þurfum að meta uppeldishlutverk kvenna það mikils að það verði eftirsóknarverðara hlutverk en margt af því sem nú er þess valdandi að það stefnir í að íslensku þjóðinni muni fækka innan skamms og fyrirsjáanlegt að á aðalþéttbýlissvæði landsins fæðast ekki nægilega mörg börn til að viðhalda þeim mannfjölda sem þar er. Þeir verða að fá fólk utan af landi ef þeir eiga að viðhalda mannfjöldanum.