04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

Stjórn eggjaframleiðslu

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Á fundum verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda þessa daga og nætur hefur verið fjallað um gerð nýs kjarasamnings. Þar er um það rætt að verðlagi og verðbólgu verði haldið í skefjum. Þar er og rætt hvernig lækka megi verðlag svo launþegar og neytendur um leið megi búa við traustari lífskjör. Þar og í Alþfl. hefur mönnum mjög brugðið í brún vegna þeirra frétta sem berast nú um hugsanlega upptöku kvóta í eggja- og kjúklingaframleiðslu. Ýmislegt bendir til að þessar ráðagerðir séu komnar á lokastig.

Samband eggjaframleiðenda, eða einstaklingar innan þess, hafa sótt um 50 millj. kr. lánsábyrgð til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til að gera Íseggi, þ.e. eggjadreifingarstöð Sambandsins, kleift að kaupa Holtabúið á Rangárvöllum. Samkvæmt fréttum og fyrri reynslu af Sambandi eggjaframleiðenda er fyllsta ástæða til að ætla að tilgangurinn sé fyrst og fremst sá að ná meiri hluta eggjaframleiðslunnar undir sig. Að því loknu skal þvinguð fram framleiðslustjórnun og sölueinokun á eggjum og reynsla slíkrar einokunar sýnir að í kjölfarið muni verðið stórhækka og í framhaldi af því auka útgjöld ríkisins. Stjórn Framleiðnisjóðs fundaði um þetta mál s.l. föstudag og vísaði beiðninni frá um stundarsakir eða þangað til ákveðnum skilyrðum hefði verið fullnægt:

1. Fyrir liggi óskir meiri hluta eggja- og kjúklingaframleiðenda fyrir stjórnun í þessum greinum.

2. Framleiðnisjóði verði tryggður tekjustofn af kjarnfóðurgjaldi sem innheimt er af alifuglafóðri og heimilt verði að ráðstafa þeim fjármunum sem lánum eða framlögum í samráði við framleiðendur í hverri grein.

3. Stofnað verði hlutafélag um kaupin og verði hlutafé eigi minna en 25% af stofnkostnaði við búkaupin. Félagið sé opið öllum félögum í samtökum eggjaframleiðenda.

Á fundi með sauðfjárbændum þann 2. des. fullyrti aðstoðarmaður landbrh. að þessum skilyrðum yrði að líkindum fullnægt þegar í gær og mætti búast við því að beiðnin yrði afgreidd innan skamms í stjórn Framleiðnisjóðs. Ég hef frétt að ekki sé ákveðið hvenær fundurinn verður haldinn - kannske var hann haldinn í dag, ég hef ekki frétt af því, - en þar verður fjallað um þessa beiðni ef að líkum lætur, reyndar hef ég frétt að svo yrði.

Það bendir sem sagt allt til þess að nú eigi að taka upp kvótakerfi í þessari búgrein sem svo mörgum öðrum. Það yrði þá gert þrátt fyrir mikla andstöðu fjölmargra eggja- og kjúklingabænda sem telja þetta leið til að koma þeim fyrir kattarnef.

Því spyr ég landbrh.: Hafa ráðuneytinu borist tillögur um slíka framleiðslustjórnun? Er það vilji hans að framleiðslustjórnun verði tekin upp? Er slík stjórnun fyrirhuguð? Er samstaða í ríkisstjórninni um slíkt kvótakerfi í eggja- og kjúklingaframleiðslu?

Ég vænti þess að fá skýr svör um þessi efni og bendi jafnframt á að neytendur, launþegar í landinu, eiga rétt á slíkum svörum. Það get ég fullyrt og geri það fyrir hönd verkalýðssamtakanna að slík aðför að neytendum mun hafa skaðvænleg áhrif á þær samningaviðræður sem nú standa yfir. Ég vænti þess að fá skýr svör við þessu efni.