04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

Stjórn eggjaframleiðslu

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég fagna því að hv. 6. landsk. þm. vekur máls á þessu efni hér. Það virðist gerast svo margt sem maður hefur ekki tíma til að fylgjast með og á honum var að heyra að komið væri að lokaákvörðun. Ég fagna því einnig að hann virðist vera svo góður talsmaður frjálshyggjunnar sem fram kom í ræðu hans.

Mér líst afar illa á að þvinga þetta mál fram með þeim hætti sem frummælandi gaf í skyn að hér væri að gerast. Ég gat heldur ekki skilið hæstv. ráðh. öðruvísi en verið væri að bjarga einhverjum frá gjaldþroti. Væri í sjálfu sér fróðlegt að fá að vita hvort það er tilfellið. Varðandi þau orð hæstv. ráðh. sem féllu varðandi kvótakerfi og sparnað í því sambandi, þá er kvótakerfi alltaf neyðarúrræði og það er einmitt neyðarúrræði í landbúnaði núna vegna þess að við erum komnir þar í ógöngur. Ekki að það sé einhver óskastaða sem menn eigi að byrja nýjar atvinnugreinar á.

Ég endurtek það að ég er á móti þessum þvingunum sem hér virðast eiga að nást fram. Og ég vil vara menn við því hvar það endar ef við höldum slíkum leik áfram.