04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

Stjórn eggjaframleiðslu

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi umræða á sér stað hér í dag. Hún orðin tímabær. Ég tel þetta vera alvarleg tíðindi. Mig langar til þess að leggja fyrir hæstv. ráðh. örfáar spurningar í þeirri von að hann svari þeim skýrt og skorinort:

1. Er eðlilegt að nota opinberan sjóð eins og Framleiðnisjóð til þess að ná meiri hluta í einni grein landbúnaðar sem nú er utan við svokallaða stjórnun?

2. Ef í kaupsamningi aðila sem um er að ræða eru ákvæði um það að nýir eigendur skuldbindi sig fram í tímann um margra ára skeið að kaupa af einu fyrirtæki aðföngin, telur hæstv. ráðh. það vera siðlegt að opinber sjóður liðki fyrir slíkum kaupum?

3. Hver er fjárhagsleg staða Íseggs hf.? Hvernig stendur á því að þau skilyrði eru sett fram að nýir eigendur þess hluta Holtabúsins sem snýr að eggjaframleiðslunni þurfi að lofa 20 millj. kr. hlutafé? Hver er fjárhagsvandi Íseggs og hvers vegna? Getur það verið að óhagræðið af þessari afurðastöð eigi einhvern þátt í því?

4. Þessi spurning snýr að kjúklingunum sem reyndar er annar þáttur þessa sama máls. Er það rétt að það eigi að greiða útflutningsbætur á kjúklinga?

5. Er það rétt að sett hafi verið það skilyrði að ef úr kaupum yrði þá skuli öll egg seld í gegn um afurðastöð?

6. Hefur hæstv. landbrh. persónulega haft afskipti af þessu máli í þá átt að hvetja til þess að Framleiðnisjóður veiti ábyrgð eða láni til þessara kaupa?

Ég vísa á bug rökstuðningi hæstv. ráðh. um kvótakerfið sem er vandamál bæði í sjávarútvegi og í landbúnaði, sem við þurfum að vinna okkur út úr en ekki að kafna í til frambúðar eða láta fleiri atvinnugreinar lenda í þeirri sjálfheldu sem kvótakerfi er og hlýtur að vera. Ég lýsi yfir eindreginni andstöðu við þetta mál eins og það hefur verið skýrt hér og treysti því að hæstv. ráðh. leggi þetta fyrir ríkisstjórn því að ég tel að þar muni það gerast að þetta mál verði þurrkað út af borðum hæstv. ríkisstjórnar.