04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

Stjórn eggjaframleiðslu

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. var hér örstutta stund í salnum áðan en hefur nú vikið af vettvangi. Ég hefði gjarnan viljað beina nokkrum spurningum til hans út af þessu máli, en hann virðist hafa horfið af vettvangi. Í rauninni er þetta mál afskaplega einfalt. Mér sýnist að hér sé bara á ferðinni enn eitt framsóknarhneykslið í þessum efnum þar sem á að nota fjármuni frá almenningi. opinbert fjármagn til þess að hjálpa ákveðnum aðilum til að skapa sér einokunarstöðu á sviði eggjasölu. Það er auðvitað meiri háttar hneyksli og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Mér þykir ánægjulegt að hv. þm. Friðrik Sophusson, varaformaður Sjálfstfl., skyldi hafa tekið jafneindregið undir með málshefjanda, hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, í þessu efni og beint raunar einnig mjög ákveðnum spurningum til hæstv. landbrh. Hér er sem sagt enn eitt hneykslið á ferðinni, sýnist mér, og ber að gera ráðstafanir til að stöðva það. Ég hygg að það muni enn þá vera hægt. Hér er ekki verið að hugsa um hagsmuni neytenda, hér er verið að hugsa um einhverja allt aðra hagsmuni en neytenda. Það er verið að hjálpa einhverjum ákveðnum mönnum til að gera út á neytendur og nota til þess opinbera peninga.

Ég skil satt að segja ekki þá röksemdafærslu hæstv. landbrh. þegar hann talar annars vegar um kvótakerfið í sjávarútvegi, og hvað það hafi nú sparað óskaplega mikið, og hvað það hljóti þá að vera einstaklega gott að koma upp kvótakerfi að því er hænsnabúskap varðar. Ég fæ ekki tengt þetta saman með þeim hætti sem hann gerði.

Mér heyrist afstaða meiri hluta þeirra þm., sem hafa tjáð sig hér um þetta mál, vera alveg skýr. Þetta mál ber að stöðva. Hér er verið að vega að hagsmunum almennings. Ég vona að við, sem gagnrýnum þetta, fáum þá stuðning úr stærri ríkisstjórnarflokknum eins og mér heyrðist á varaformanni Sjálfstfl. að muni ekki standa á. Ég harma bara að formaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., skuli ekki vera hérna í salnum. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hann um eitt og annað og fá hans afstöðu skýrt fram en varaformaðurinn talar væntanlega fyrir hans hönd. Ég a.m.k. treysti því. Þetta er mál sem ber að stöðva og því fyrr því betra vegna þess að hér er beinlínis verið að vega að hagsmunum almennings og neytenda.