20.10.1986
Neðri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

27. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Flm. (Málmfríður Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka þann stuðning og þau hlýju orð sem hafa verið látin falla um frv. Þetta mál er ekki nýtt eins og margsinnis hefur verið bent á, en hér er tekið á því á dálítið annan hátt en áður hefur verið gert og ég vona að það verði því til framgangs.

Það hafa komið fram spurningar varðandi þetta. Ég bendi á að í grg. er talað um að vitaskuld sé heimavinnandi körlum við heimilisstörf ætlaður þessi réttur ekkert síður en konum og mér er fyllilega ljóst að það eru fleiri en heimavinnandi húsmæður sem ekki njóta lífeyrisréttinda og hafa engu minni rétt til þeirra. En yrði þetta frv. að lögum yrði kannske í framhaldi af því auðveldara að koma lífeyrismálum þess hóps í betra horf.

Ég veit ekki um hve margt fólk er að ræða. Ég veit ekki hve margar heimavinnandi húsmæður eru taldar vera í landinu. En við vitum öll að þær eru nokkuð margar. Og ég veit ekki heldur hvað þetta frv. kynni að kosta ríkissjóð. Mér finnst það ekki málið í ljósi þess hvílíkar upphæðir þessar konur spara þjóðfélaginu og ég var ekki að kynna mér það endilega vegna þess. Og ég spyr bara: Hvað eru þessar konur annað en ríkisstarfsmenn og ber ekki samfélaginu að umbuna þeim fyrir sín störf?