04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

Stjórn eggjaframleiðslu

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég vil mótmæla þeim orðum hv. 6. landsk. þm. að hér sé verið að rétta verkalýðshreyfingunni kinnhest. Eins og ég sagði er tilgangurinn vitanlega sá að skapa hagkvæmni og hagræðingu í rekstrinum, e.ða þannig skil ég þessa lagasetningu Alþingis sem mér er falið að framkvæma. Ég vil ítreka að ég hef ávallt svarað því að ég ætla ekki að fara að gefa framleiðendum einhver fyrirmæli í þessu skyni, en hins vegar eiga þeir samkvæmt lögunum þennan möguleika ef þeir vilja og ég mun ekki gera neitt í andstöðu við fjölmarga kjúklingaframleiðendur eins og einhver sagði hér áðan.

Hv. 2. þm. Reykv. bar fram nokkrar spurningar. Ég veit ekki hvort ég hef náð þeim öllum en ég held að sú fyrsta hafi verið hvort ég teldi eðlilegt að nota fjármagn Framleiðnisjóðs í því skyni sem hann ræddi um. Það kom fram í máll frummælanda að eitt af þeim skilyrðum sem sjóðsstjórn hafði sett var sú að fjármagni Framleiðnisjóðs yrði ekki hætt. Það hygg ég að sé alveg ótvírætt í því sem hann las.

Um fjárhagsvanda Íseggs veit ég ekki. Það sem um hefur verið rætt er að stofna þarna hlutafélag sem væri öllum opið, sjálfstætt hlutafélag. Ég hef ekki séð enn þá þá félagsstofnun eða þann samning sem þar er um að ræða. Ég sagði að gögn væru að berast í ráðuneytið. Ég veit ekki hvernig þau líta út þegar allt kemur til alls og málið hefur verið skoðað þannig að ég get á þessari stundu ekki svarað því.

Vegna orða sem hér féllu - ég hygg að það hafi verið hv. 8. þm. Reykv. - um að örbirgð bænda stafaði af stjórnun, þá er rétt hjá honum að það er þungt fyrir fæti hjá mörgum bændum vegna mikilla fjárfestinga sem þeir hafa lagt í á síðustu árum, meiri en markaðsaðstæður gera kleift að nýta til fullrar framleiðslu. Það er þetta sem fyrst og fremst skapar þá erfiðleika sem eru í landbúnaði. Vissulega verður framleiðslan dýrari ef lagt er í meiri fjárfestingu en þörf er á. Það ættu allir að skilja. Og það er dýrt bæði fyrir þessa einstaklinga og þjóðfélagið í heild ef síðan á að stjórna því með því að menn verði gjaldþrota.

Um stöðu einstakra eggjaframleiðenda hef ég ekki hugmynd, ég þekki ekki þeirra rekstur, en ítreka það aðeins að það eru þeirra samtök sem þarna eiga að bera ábyrgðina skv. lögunum. Að öðru leyti er tímans vegna ekki hægt að fara langt út í að ræða þessi mál frekar en ég mun að sjálfsögðu ræða þetta mál við samstarfsflokkinn áður en frá því verður gengið. Ég skal lofa hv. 2. þm. Reykv. því.