04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

178. mál, könnun á tannlæknaþjónustu

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fyrst vegna þeirra umræðna sem hér hafa orðið um viðmiðunarreglur sjálfstæðra atvinnurekenda og fsp. minnar til hv. 2. landsk. þm. um það hvort Alþfl. væri tilbúinn að falla frá kröfu, sem hann setti fram í skeyti í sumar, um endurgreiðslu á hluta af auknum tekjum umfram það sem fjárlög höfðu áætlað vegna tekjuskattsálagningar sem stafar af því að viðmiðunarreglur sjálfstæðra atvinnurekenda voru hækkaðar. Ég lít svo á að hv. 2. landsk. þm., varaformaður Alþfl., hafi með orðum sínum hér í raun og veru staðfest að það hafi ekki verið réttmætt að krefjast þessarar endurgreiðslu. (JS: Þetta er rangt.) Þá verð ég að halda því fram að það sé ekki mikið að marka ummæli hv. þm. um að það þurfi að huga sérstaklega að viðmiðunarreglunum. Þegar þær eru hækkaðar í framkvæmd á sjálfstæðum atvinnurekendum og það skilar auknum tekjum í ríkissjóð krefst Alþfl. þess að þetta sé endurgreitt. Þegar verið er að tala um þessi mál í öðru samhengi, almennt um að það eigi að vinna gegn skattsvikum, vill Alþfl. að þessar viðmiðunartölur séu hækkaðar og ríkið nái inn meiri tekjum. Þegar verið er að ræða um þetta almennt, um skattsvik og aðgerðir til að stemma stigu við þeim, kemur þessi krafa fram. Þegar þetta er gert í framkvæmd krefst Alþfl. þess með skeyti og yfirlýsingum að þetta verði allt saman endurgreitt. Ég verð að segja að þetta er í fullu samræmi við ýmislegt annað sem kemur fram í málflutningi Alþfl. Þar rekur sig hvað á annars horn. Það er sagt eitt í dag og annað á morgun og þar stendur ekki steinn yfir steini.

Því atriði að fjmrh. eigi að fyrirskipa skattrannsóknarstjóra að hefja rannsókn á tilteknum einstaklingum eða tilteknum hópi einstaklinga mótmæli ég algerlega. Ég hef lýst því hér yfir áður að ég tel eðlilegt að skattrannsóknarstjóri noti sitt vald til að athuga sérhvert það mál og sérhverja þá starfsgrein sem hann telur nauðsynlegt eftir almennum reglum í því skyni að skapa aukið aðhald og koma í veg fyrir skattsvik, en ég teldi það afar afar misráðið ef fjármálaráðherrar á hverjum tíma, hverjir sem því embætti gegna, tækju upp þann sið að gefa fyrirmæli um að nú skyldi rannsaka þennan einstakling eða þennan hóp einstaklinga. Þá væri skammt yfir í það að fjármálaráðherrar gætu tekið sér það vald að fyrirskipa að nú skyldi ekki framkvæmd rannsókn hjá þessum einstaklingi eða hinum eða þessum starfshópi eða hinum. Þetta grundvallaratriði verða menn að hafa í huga. Ég lýsi yfir fyllsta trausti á þeim manni sem nú gegnir starfi skattrannsóknarstjóra og þeim sem gegnt hafa því á undan honum og tel að þeir hafi sinnt sínum störfum af kostgæfni og ég veit að þeir munu gera það áfram og hefja hverjar þær rannsóknir sem tilefni er til að gera af þeirra hálfu.

Fleira ætlaði ég ekki að taka fram vegna ræðu hv. 2. landsk. þm.