04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

208. mál, rannsóknir á jarðskjálftasvæði Suðurlands

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég flyt þáltill. um að ráða myndlistarmanninn Erró til að vinna myndlistarverkefni fyrir Íslendinga. Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að taka upp viðræður við myndlistarmanninn Erró, Guðmund Guðmundsson, í því skyni að hann taki að sér myndlistatverkefni fyrir Íslendinga, tengd menningu, sögu, atvinnulífi og náttúru landsins og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.“

Í grg. með till. er lögð áhersla á að þarna sé um að ræða verkefni sem séu spennandi fyrir menningu Íslands og markaðssókn. Erró er sá Íslendingur í málaralist sem er hvað þekktastur á alþjóðavettvangi og vekja verk hans sífellt meiri athygli. Stíll Errós höfðar til alls þorra fólks óháð landamærum og hann hefur tekið að sér ákveðin verkefni fyrir stjórnvöld erlendis og stórfyrirtæki, bæði einkafyrirtæki og opinberar stofnanir. Það er því hugmyndin á bak við þessa till. að fá þennan kunna og hæfa listamann til að sinna verkefni sem í senn væri menningarauki og möguleiki á markaðssókn, t.d. í sambandi við kynningu á okkar afurðum, sjávarafla, landbúnaðarafurðum, iðnaðarvörum og öðru. Þetta er nýstárleg aðferð, má segja, en er í takt við nútíma áróður og tækni til að afla markaða á hinum breiða grunni erlendis. Það má segja að sá sé megintilgangur málsins að opna það á þann hátt að menntmrh. kanni þá möguleika sem unnt er í þessu sambandi.

Það er einnig þáttur í þessari hugmynd að rækta meira samband við listamanninn Erró af hálfu Íslendinga. Hann er t.d. ekki á listamannalaunum þótt hann sé einn kunnasti íslenskur málari í heimi í dag og er ástæða til að rækta betur samband við hann og list hans.

Að lokinni umræðu legg ég til að þessu máli verði vísað til félmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.