08.12.1986
Efri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

192. mál, grunnskóli

Flm. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Ég hef á þskj. 203 leyft mér ásamt þeim hv. þm. Þórði Skúlasyni og Sveini Jónssyni að flytja frv. til breytingar á grunnskólalögum. Breytingin er við 18. gr. laganna og hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„1. gr. Upphaf 18. gr. laganna orðist svo:

Skólanefndir skulu skipaðar sem hér segir:

a. Í kaupstöðum og kauptúnahreppum fimm mönnum, enda standi þeir einir að skólarekstrinum.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Kosningu nýrrar skólanefndar, sem leiðir af samþykkt laga þessara, skal lokið fyrir upphaf næsta skólaárs, 1987-1988.“

Í lögum um grunnskóla nr. 63 frá 1974 er ákvæði um það í 18. gr. að ef íbúatala kauptúnahreppa nær ekki tölunni 900 skuli skólanefndin aðeins skipuð þrem mönnum, en ef íbúatalan er yfir 900 skuli skólanefndirnar skipaðar fimm mönnum.

Ég leitaði í frv. sem lagt var fram þegar þessi lög voru samþykkt og sá ekki neina umfjöllun um það af hverju fækkað hafði verið í skólanefndunum frá því sem áður var, en í eldri grunnskólalögum var talan fimm um fjölda í skólanefndum.

Það verður ekki séð á hverju þessi tala byggist og ekki heldur á hverju þessi fjöldi íbúa byggist, á hverju það byggist að endilega er miðað við 900. Það eru ekki heldur nein ákvæði í grunnskólalögum um hvað skuli gert í þeim sveitarfélögum sem íbúar fækka í á kjörtímabilinu eða ef það gerðist að íbúum mundi fjölga.

Það er kunnugt að í flestum nefndum sveitarfélaga er stefnt að því að hafa nefndarmannafjöldann svipaðan og hreppsnefndarmannafjöldinn er, þ.e. fimm eða sjö. Mér er meira að segja kunnugt um að svo langt hefur verið gengið í þessu að menn hafa ýtt við lögum. Ég veit um sveitarfélag sem hefur kosið sjö manna hafnarnefnd þó að í hafnarlögum sé ætlast til þess að þar séu fimm til þrír. Ástæðan fyrir þessu, að það sé reynt að hafa töluna nálægt því sem hreppsnefndarfulltrúarnir eru margir, er að tryggja að allir hreppsnefndarmenn hafi rétt til að velja menn í viðkomandi nefndir og þau sjónarmið sem urðu þess valdandi að hver og einn var kjörinn í hreppsnefndina fái að njóta sín í viðkomandi nefndum.

Okkur flm. var kunnugt um að í nokkrum þéttbýlishreppum með íbúatöluna innan við 300 hafa komið upp vandamál í sambandi við kjör í skólanefnd.

Sums staðar hefur meiri hluti hreppsnefndar kosið alla þrjá fulltrúana úr sínum hópi og útilokað þar með áhrif og sjónarmið minni hlutans úr skólanefnd. Varla er trúlegt að það sé tilgangur laganna. Á öðrum stöðum hefur verið leitað samkomulags um val skólanefndarmanna eða samþykktir áheyrnarfulltrúar frá minni hluta eða minni hlutum. Slík vandræðaákvæði sem eru jafnframt ólýðræðisleg er vitaskuld óþarft að hafa í lögum. Þess vegna er þessi brtt. flutt.

Í gildistökuákvæðinu er gert ráð fyrir því að breyting sem frv. felur í sér komi til framkvæmda við upphaf næsta skólaárs. Þá þyrftu þeir kauptúnahreppar sem hafa færri en 900 íbúa og þrjá menn í skólanefnd að hafa lokið kosningu nýrrar skólanefndar.

Að lokinni umræðu um frv. legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.