20.10.1986
Neðri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

27. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Auðvitað er þetta gott mál eitt og sér og væri afskaplega auðvelt og þægilegt að segja já og amen við því og ekki hef ég á móti því sem slíku, en mér finnst þetta vera þröngsýnismál, eitt af mörgum þröngsýnismálum sem hv. Kvennalistakonur eru með. Ég dreg mjög í efa að nokkur úr hinum svokölluðu karlaflokkum sem þær kalla mundi flytja svona einhæft mál í þessum efnum. Af hverju eiga ekki húsfeður að vera með í þessu dæmi alveg eins og húsmæður? Það er fullt af slíkum mönnum til í þjóðfélaginu og af hverju eiga þeir að vera út undan? Það þýðir ekki að benda á greinargerð. Greinargerð er engin lög. Lagagreinin er um húsmæður, ekki húsfeður. Það er ekkert vitnað í greinargerð í þessum efnum. Það er verið að tala um löggjöfina. Og það er það sem máli skiptir.

Kannske þykir mönnum ég taka stórt upp í mig í þessum efnum, en eigi að síður er þetta satt. Svona mál eiga að ná til beggja kynja. Þar á ekki að gera greinarmun á. Í öllum slíkum málum og auðvitað miklu fleiri á hið sama að gilda um bæði kyn. Þess vegna þykir mér miður hjá hinum ágætu Kvennalistakonum að þær skuli vera svona einhæfar. Þær eiga að vera fjölhæfari en þetta frv. sýnir og það á að ná til fleiri.

Nóg um þetta. Ég tek undir það sem hæstv. félmrh. sagði áðan varðandi lífeyrisréttindamálin. Ég tala um lífeyrisréttindamál. Ég tala ekki um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Það nægir mér ekki. Það eru lífeyrisréttindin sem eiga að vera hin sömu hjá öllum. Þá á ég við að menn eiga ekki að binda einn lífeyrissjóð hér í Reykjavík sem deilir út til hinna og þessara byggðarlaga eða landshluta frá Reykjavíkursvæðinu. Það eiga að vera deildaskiptir sjóðir þar sem fjármagnið er ávaxtað á þeim stöðum þar sem það fellur til.

Ég vænti þess að sú nefnd sem fær þetta mál hugi a.m.k. að því að breyta 1. gr. í að þar eigi bæði hlut að máli húsmæður og húsfeður, en ekki sé gerður greinarmunur þar á.

Hitt er svo stóra spurningin og því held ég að menn þurfi að velta fyrir sér án þess að ég sé á nokkurn hátt að gagnrýna það. Hér segir að ríkissjóður greiði 6% og viðkomandi sveitarsjóður 4%. Nú þykist ég vita, eins og mál standa í dag, að það sé mjög aðþrengt hjá sveitarsjóðum í fjármagni og spurning hvort svona löggjöf mundi ekki kalla á, ef engin önnur breyting yrði gerð, að annars konar félagsleg atriði yrðu dregin saman hjá sveitarfélögum almennt, hvort annars konar félagsleg aðstoð yrði ekki dregin saman að því marki sem hér er gert ráð fyrir að sveitarfélögin borguðu 4% af þessu. Auðvitað þarf að sjá sveitarfélögum fyrir tekjustofnum til þessa og raunar til fleiri hluta en þessara því að þau hafa dregist aftur úr að því er varðar tekjustofna og geta þar af leiðandi ekki sinnt æðimörgum félagslegum þáttum sem þau þurfa að sinna og þeim ber í raun og veru að sinna. Ég held að menn þyrftu í fullkominni alvöru að skoða frekar þann hluta af þessu máli. Ég geri ráð fyrir að maður megi vænta þess, eftir því sem hv. stjórnarliðar töluðu áðan, bæði hæstv. félmrh. og hv. 5. þm. Vestf. sem gengur nú úr salnum, að þessir menn mundu styðja þetta mál. Kannske er von til þess að það nái fram að ganga í breyttu formi ef eitthvað er að marka þann stuðning sem hefur komið fram hjá hv. stjórnarliðum ýmsum. Þá ættu menn að skoða frekar þann þáttinn sem lýtur að því að afla tekna til þessara hluta.

Ég veit ekki hvort maður á að eyða orðum að því, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði áðan, að einhver einn ákveðinn kvenmaður réði því hver mannfjölgunin yrði, kvenfólk réði því hver mannfjölgunin yrði. (Gripið fram í.) Segir hv. 5. þm. Vestf., já. Rétt hjá þér, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir. Nú veit ég ekkert hvað hann meinar eiginlega með þessu. Ég kannast ekki við þetta sjálfur. Ég held að það þurfi alltaf tvo til að slíkt gerist. (ÓÞÞ: Ert þú ekki í kirkjunni í Bolungarvík?)