08.12.1986
Efri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Vegna fsp. 8. þm. Reykv. er rétt að ítreka að það hefur verið unnið að athugunum á grundvallarbreytingum á tekjuskattskerfinu á vegum fjmrn. og að því hefur verið miðað að breyta kerfinu á þann veg að fækka frádráttarliðum og einfalda þannig tekjuskattskerfið, m.a. í því skyni að auðveldara verði að taka upp staðgreiðslukerfi skatta. Þetta hefur að sjálfsögðu áður komið fram opinberlega og í umræðum á hinu háa Alþingi.

Aðilar vinnumarkaðarins settu fram svipuð sjónarmið í tengslum við gerð kjarasamninga og ríkisstjórnin hefur talið rétt og eðlilegt að sú nefnd sem fjallað hefur um þessi mál á vegum fjmrn. taki þær tillögur til skoðunar og meðferðar og hafi samráð um áframhald þeirrar vinnu sem unnið hefur verið að að undanförnu.

Aðilar vinnumarkaðarins voru fyrst og fremst að ræða um tekjuskatt einstaklinga. Sú nefnd sem hefur verið að vinna að þessu á vegum fjmrn. hefur á hinn bóginn víðtækari fyrirmæli. Mín skoðun er sú að þegar gerð verður grundvallarbreyting á tekjuskattslöggjöfinni að þessu leyti verði hún einnig að taka til fyrirtækjanna og væri eðlilegt að huga að því í þessu sambandi að fækka frádráttarliðum fyrirtækjanna og ná þannig fram lægra skatthlutfalli og reyna þannig að ná fram þessum meginsjónarmiðum bæði að því er varðar einstaklinga og fyrirtæki. Engar tillögur liggja endanlega fyrir um þetta efni, en þetta meginsjónarmið hlýtur að verða tekið til skoðunar bæði að því er varðar einstaklinga og fyrirtæki.