08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

227. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Frv. þau sem hér liggja fyrir eru flutt í tengslum við frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem þegar hefur verið lagt fram og rætt á Alþingi og fjallar um samningsrétt og verkfallsrétt. Hér eru gerðar þær breytingar á gildandi lögum að bætt er við tilteknum starfshópum sem ekki er heimilt að gera verkfall og tilsvarandi breytingar gerðar á lögum um Kjaradóm, auk þess sem kannske er rétt að ræða í tengslum við þetta frv. til laga um breytingu á lögum um lögreglumenn. Það er fljótsagt að ég hygg að þessar breytingar séu til bóta þó að við í þingflokki Alþfl. höfum ekki tekið formlega afstöðu til þess.

Í tilefni af athugasemdum síðasta ræðumanns um verkfallsrétt lögreglumanna er það dálítið nýstárleg hugmynd að því er varðar vinnumarkaðsmál í vestrænum löndum ef hér væri innlendur her hvort sá her skyldi hafa verkfallsrétt. Um lögreglumenn gegnir að nokkru leyti sama máli og sé ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá skipan mála að löggæslumenn hafi ekki verkfallsrétt.