08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

228. mál, Kjaradómur

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Verði sú regla almennt upp tekin að ráðherrar kjósi sér nefndir án tillits til hefða eða venja í þinginu spyr maður hvort fráleitar hugmyndir, sem hér hafa komið fram, um að vísa málum til iðnn. sem heyra undir landbúnað og til sjútvn. sem heyra undir eitthvað allt annað séu í reynd að verða jafnforkostulegar. Hér tekur hæstv. fjmrh. sig til og vísar í fyrsta lagi máli til fjh.- og viðskn. sem hefur heyrt undir allshn. og heldur svo áfram með sömu syrpu.

Ég lýsi því yfir að mér finnast þetta forkostuleg vinnubrögð. Mér er ekki ljóst hvað formaður allshn., hv. 2. þm. Reykn., hefur af sér brotið í störfum í þinginu eða hjá sínum flokki ef hann nýtur ekki þess trausts að málum sé til hans vísað í samræmi við hefðir þingsins, nema þetta sé framhald af deilum vegna þess hvernig skipa beri lögum um skatta í landinu.