08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1417 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

228. mál, Kjaradómur

Forseti (Ingvar Gíslason):

Forseti vill af þessu tilefni taka fram að það er margt rétt í því sem hv. síðasti ræðumaður segir um þetta. Hins vegar verður það að segjast eins og er að skv. 15. gr. þingskapa er að vísu gert ráð fyrir því að níu fastanefndir starfi í hvorri þingdeild, en það er ekki augljóst mál af orðalagi þingskapa hvaða málum skuli vísa til hverrar nefndar heldur verður eðli máls að ráða, eins og venjan er hér og yfirleitt ekki mikill ágreiningur um slíkt, þó að slíkt geti komið upp vegna þess að auðvitað eru alltaf einhver takmarkatilfelli sem verður að kanna þegar málum er vísað til nefndar. Vissulega hefur það verið svo, og það hafa allir forsetar frá upphafi reynt að haga málum svo og allir sem ráða í þinginu, að það myndist tilteknar hefðir um hvert málum sé vísað. Þeim hefðum verður auðvitað haldið í heiðri. Hins vegar tel ég að það sé ekki ástæða til að vera svo bókstafstrúar að hvergi og aldrei sé hægt að víkja neitt út af um hvert málum sé vísað. Það er upplýst nú að um Kjaradóm hefur verið fjallað í fjh.- og viðskn. Ekki aðeins kom það fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. e., heldur hef ég um það skýrslu frá skrifstofu Alþingis, sem var lögð fyrir mig nú. Þannig tel ég það engan veginn fráleitt þó að hæstv. ráðh. hafi gert tillögu um fjh.- og viðskn. í þessu efni. En ég tek fram að eins og oftar, þegar ágreiningur hefur orðið um nefndir, er það deildin sjálf sem sker úr og ef ekki eru tillögur, sem ég finn ekki að séu, um aðra nefnd er augljóst að forseti mun bera upp tillögu hæstv. fjmrh. um að vísa málinu til fjh.- og viðskn. Reyndar mun forseti bera þá tillögu fyrr upp, komi önnur tillaga fram, samkvæmt hefð sem hér ríkir um það efni.