08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

223. mál, lögreglumenn

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 239 er frv. til laga um breytingu á lögum um lögreglumenn nr. 56/1972. Það er flutt í tengslum við frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og frv. til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um frv. þessi öll hefur náðst samstaða milli samtaka starfsmanna og ríkisstjórnarinnar.

Í frv. því sem hér liggur fyrir er lagt til að lögreglumenn ríkisins megi hvorki gera verkföll né taka þátt í verkfallsboðun. Til lögreglumanna ríkisins teljast auk lögreglumanna tollverðir og áhafnir varðskipanna. Í lögum um Landhelgisgæsluna eru ákvæði sem undanþiggja starfsmenn hennar verkfallsþátttöku og verkfallsboðun þannig að ekki er um að ræða breytingu á réttarstöðu þeirra. Samkomulag er milli stjórnvalda og Landssambands lögreglumanna og Tollvarðafélags Íslands um að hinn mikilsverði og viðkvæmi starfsvettvangur þeirra verði ekki gerður að ágreiningsefni eða dreginn inn í verkfallsátök heldur aðrar leiðir farnar til úrlausnar á hugsanlegum kjaradeilum þeirra og stjórnvalda. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til athugasemda við lagafrv. um aðdraganda þess og undirbúning.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. Með tilliti til þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram vildi ég vísa til forseta úrskurði um nefnd, en ég teldi eðlilegt að það fylgdi hinum frv. þar sem er um fylgifrv. að ræða. (Forseti: Forseti hefði kosið að það kæmi fram ákveðin tillaga um þetta.) Já, ég legg þetta til.