08.12.1986
Neðri deild: 17. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1272)

159. mál, afborgunarkaup

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns greina frá því að ég mun leggja til að þessu máli verði vísað til fjh.- og viðskn. þannig að þeir sem vilja mótmæla því geti þá undirbúið ræður sínar meðan ég tala.

Þetta er frv. til l. um afborgunarkaup sem flutt er af mér og hv. þm. Jóni Magnússyni. Þetta frv. er endurflutt frá stjfrv. sem lá hér fyrir þinginu 1978-1979. Tilgangur okkar með flutningi frv. er sá að koma þessum málum hér á dagskrá, en afborgunarkaup hafa tíðkast í fjárhagslegum viðskiptum fólks um margra áratuga skeið og auðvitað ekki vansalaust að ekki skuli vera til nein heildarlöggjöf um þau málefni, en hin gömlu lög um lausafjárkaup frá 1922 veita litla stoð í þessum efnum.

Í grg. með frv. segja flm. svo:

„Veturinn 1978-1979 var til meðferðar á Alþingi stjfrv. um afborgunarkaup. Frv. kom til 2. umr. og afgreiðslu : Nd. 15. maí 1979. Þar var birt umsögn Neytendasamtakanna sem var eindregið jákvæð og lauk með þessum orðum:

„Með hliðsjón af framansögðu mæla Neytendasamtökin með samþykkt frv. þessa um afborgunarkaup og leggja jafnframt áherslu á að mál þetta verði afgreitt á þingi því er nú situr.“

Verslunarráð Íslands taldi í umsögn sinni að frv. mundi hafa það í för með sér að afborgunarkaup legðust niður þar sem seljendur kysu heldur að taka við víxlum en að taka fyrirvara um eignarrétt í söluvörunni. Þrátt fyrir þetta var frv. samþykkt samhljóða í Nd. og afgreitt þannig til Ed. Þar stöðvaðist málið vegna tímaskorts við lok þingsins.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens var gert ráð fyrir því að setja reglur um afborgunarkaup. Viðskrh. Tómas Árnason lét fara yfir frv. í ráðuneyti sínu, en lagði endurskoðaða útgáfu þess aldrei fyrir ríkisstjórn né Alþingi. Þess vegna er Ísland eina landið í Vestur-Evrópu sem ekki hefur enn neinar lagareglur um afborgunarviðskipti þótt allir játi nauðsyn þess að settar verði slíkar reglur hér á landi.

Flm. telja óhjákvæmilegt að hreyfa þessu máli nú á þinginu. Er frv. hér lagt fram óbreytt frá því sem það var eftir afgreiðslu Nd. Alþingis vorið 1979. Verður það vonandi grundvöllur til þess að Alþingi reki af sér slyðruorðið þegar á þessu þingi með því að samþykkja frv. eins og það er eða með þeim breytingum sem samstaða kann að nást um.

Flm. eru þeirrar skoðunar að neytendastarf eigi að byggjast á samtökum neytenda. Samstarf við verkalýðssamtökin á þessu ári hefur skilað miklum árangri. Í grannlöndum okkar eins og Svíþjóð hafa neytendastofnanir ríkisins sinnt þessum málum aðallega. Hér á landi hefur hins vegar orðið til neytendahreyfing. Eðlilegt er og sjálfsagt að ríkið styðji verulega við bakið á neytendahreyfingunni, en hlutverk ríkisvaldsins á síðan að vera að efla almenna neytendavernd á vegum Verðlagsstofnunar og að setja almennar lagareglur.

Neytendamál koma sjaldan til meðferðar á Alþingi sem er sérkennilegt þar sem neytendur og hagsmunir þeirra ráða úrslitum um marga veigamestu þætti efnahagsmála. Flm. telja að með frv. þessu komist neytendamál á dagskrá Alþingis með afgerandi hætti, enda er ætlast til þess að þingið sinni málinu alvarlega og afgreiði rammalöggjöf um þann þátt neytendaverndar sem frv. fjallar um, afborgunarkaup.

Þegar frv. var lagt fram á Alþingi veturinn 1978-1979 fylgdi því ítarleg grg. og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa inngangskafla hennar:

„Hér á landi, sem og víðast annars staðar, er alltítt að lausafjárkaup fari fram með þeim hætti að seljandi lánar kaupanda kaupverðið eða hluta þess um vissan tíma, t.d. þannig að kaupandi greiðir hluta kaupverðsins þegar í stað en greiðir síðan eftirstöðvarnar með tilteknum afborgunum á ákveðnum gjalddögum. Algengt er að seljandi leitist við að tryggja skilvísa greiðslu eftirstöðva kaupverðsins með því að halda eignarrétti sínum yfir söluhlut þar til kaupverðið er að fullu greitt, enda þótt kaupandi fái afnot söluhlutar þegar við kaupin. Þegar svo háttar reynir að sjálfsögðu á margvísleg lögfræðileg vandamál sem ekki koma til varðandi kaup þar sem kaupverðið er greitt út í hönd.

Víða um lönd hefur verið sett löggjöf um afborgunarkaup og mótast sú löggjöf yfirleitt af vilja löggjafans til að vernda hagsmuni kaupenda og neytenda í þess háttar kaupum. Í upphafi þessarar aldar höfðu Danir, Norðmenn og Svíar með sér samvinnu um samningu laga um þetta efni. Árangur þess samstarfs kom fram í því að í þessum löndum voru sett lög um afborgunarkaup sem voru að verulegu leyti efnislega samhljóða.

Á fundi dómsmálaráðherra Norðurlanda í nóvember 1946 var ákveðið að tekin skyldi upp endurskoðun á hinum norrænu lögum um afborgunarkaup þar sem m.a. yrði tekið enn meira tillit til sjónarmiða neytenda en áður hafði verið. Frá því um 1950 hafa síðan verið gerðar ýmsar lagabreytingar í þessa átt á Norðurlöndum.

Hérlendis hefur engin löggjöf verið sett um afborgunarkaup með eignarréttarfyrirvara. Ákvæði laga nr. 39/1922, um lausafjárkaup, veita enga stoð um úrlausn margvíslegra og mikilvægra atriða sem á reynir í kaupum af þessu tagi og vafasamt er að hve miklu leyti fastar viðskiptavenjur hafa myndast á þessu sviði. Með frv. þessu er stefnt að því að ráða hér bót á. Er leitast við að skýra sem best réttarstöðu og úrræði kaupanda og seljanda við afborgunarkaup og er um margt höfð hliðsjón af norrænum lögum um þetta efni. Að nokkru leyti beinast ákvæði frumvarpsins að því að vernda kaupanda gegn ósanngjörnum kröfum eða harkalegu framferði seljanda, einkum við endurheimtu söluhlutar, en jafnframt er lagt til að seljanda verði tryggð fullnægjandi úrræði vegna vanefnda kaupanda.“

Þessu fylgja í frv. ítarlegar athugasemdir við hverja grein frv. og tel ég ekki ástæðu til að fara yfir þær frekar í framsöguræðu minni.

Ég vek athygli, herra forseti, á því að frv. fylgir fskj. sem er yfirlit um könnun á afborgunarkaupum sem fram fór á vegum Neytendafélags Reykjavíkur og nágrennis í maí 1985. Þar er ítarlega greint frá því hversu mikið er um afborgunarkaup hér á landi og þau eru mjög veruleg. Það kemur fram að langt yfir þriðjungur þeirra sem kaupa hluti til heimilisnota notar sér afborgunarmöguleika þegar þeir eru í boði. Þegar um er að ræða húsgögn er þetta um 36%, önnur heimilistæki 28%, sjónvörp, hljómtæki, myndbönd 25%. Hér er langoftast um að ræða hluti sem kosta á verðbilinu 11-40 þús. kr. Algengasta greiðsluformið í þessu efni eru skuldabréf með eignarréttarfyrirvara. Einnig er talsvert mikið um að ræða víxla sem eru einnig með eignarréttarfyrirvara og algengasti tíminn eru fjórir mánuðir og sex mánuðir. Að mati kaupenda munaði yfirleitt talsverðu á afborgunarverði og staðgreiðsluverði og töldu 37% aðspurðra að verulegur munur hefði verið á afborgunarverði og staðgreiðsluverði, en 37% að munurinn hefði ekki verið verulegur.

Það kemur fram að 42% þeirra sem kaupa með afborgunarkaupum segjast ekki hafa kynnt sér þá samninga sem gerðir voru um afborgunarhlutinn þegar frá samningum var gengið. Það kom einnig fram í þessari könnun að nær helmingur aðspurðra notaði greiðslukort í afborgunarviðskiptum.

Í fskj. II er birt samþykkt aðalfundar Neytendafélags Reykjavíkur og nágrennis frá 5. júní 1985 þar sem segir:

„Hér landi eru engin lög um afborgunarviðskipti. Flestir samningar um afborgunarkaup eru seljanda í hag, en réttur kaupandans er yfirleitt fyrir borð borinn. Aðalfundurinn hvetur til þess að sett verði hið fyrsta lög um afborgunarkaup.“

Þessi hvatningarorð aðalfundar Neytendafélags Reykjavíkur geri ég að mínum lokaorðum og legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.