09.12.1986
Sameinað þing: 26. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

Fjarvera ráðherra

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að koma upp og ítreka þá beiðni sem hér hefur verið flutt. Efni fsp., sem ekki fæst rædd í dag vegna fjarvistar hæstv. heilbrmrh., varðar stefnubreytingu í heilbrigðismálum. Hún kemur mjög á óvart vegna þess að allir hafa verið leiddir til að trúa því að það væri stefna heilbrmrh. og flokks hennar að selja ríkisfyrirtæki en ekki að auka bákn ríkisins til rekstrar. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að þingið fái að ræða þessi mál þegar um er að ræða svo stórar fjárhæðir og þegar um er að ræða líka slík vinnubrögð og hafa verið höfð í frammi við fyrirhugaða sölu þessa spítala.

Ég vil ítreka beiðnina, sem kom hér fram áðan, að þessi mál fáist rædd helst fyrir næsta þriðjudag ef einhver leið er til þess eftir þingsköpum.