10.12.1986
Neðri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

212. mál, virðisaukaskattur

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um virðisaukaskatt á þskj. 227.

Á haustmánuðum 1983 lagði þáv. fjmrh. fram til kynningar frv. til laga um virðisaukaskatt. Vinna við frv. hófst að tilstuðlan fjmrh. fyrri ríkisstjórnar, enda var á stefnuskrá þeirrar stjórnar að leggja niður söluskattinn og taka upp virðisaukaskatt í hans stað.

Haustið 1984 var frv. lagt fram á ný í nær óbreyttri mynd og mælt fyrir því í Ed. 30. janúar 1985. Í framsöguræðu þáv. fjmrh. var gerð mjög ítarleg grein fyrir tilurð núverandi söluskattskerfis, ágöllum þess og frá eiginleikum virðisaukaskattkerfis. Ég vil því til að stytta mál mitt nokkuð vísa til þeirrar framsöguræðu um almenna kynningu á ýmsum slíkum þáttum að því er málið varðar.

Mál þetta er af þessum sökum þm. allvel kunnugt, sem og ýmsum samtökum í atvinnulífi og á vinnumarkaði, enda hefur verið víða leitað umsagna um málið á fyrri stigum og samstarf hefur verið haft við ýmsa aðila við frekari undirbúning þess. Einnig hafa stjórnmálaflokkarnir flestir fjallað um þetta mál innan sinna vébanda þannig að nú standa sakir svo að a.m.k. þrír stjórnmálaflokkar hafa tekið afstöðu með kerfisbreytingu af þessu tagi þó að ágreiningur sé um hliðarráðstafanir og einstök framkvæmdaatriði.

Frv. hlaut ekki afgreiðslu á þingi 1985 og var því vísað til ríkisstjórnarinnar. Meginástæður þess voru taldar þær að ekki væri í frv. gerð grein fyrir sérstökum hliðarráðstöfunum til að vernda hag þeirra sem ætla mætti að virðisaukaskattur bitnaði harðar á en núverandi söluskattur. Fyrir rúmu ári fól ég starfshópi þeim sem samið hafði fyrri frv. að endurskoða þau í ljósi þeirra athugasemda sem fram höfðu komið og gera tillögur um nauðsynlegar hliðarráðstafanir. Frv. sem hér er mælt fyrir er afrakstur þeirrar vinnu.

Í grg. frv. er gerð allítarleg grein fyrir ýmsum aðgerðum sem til greina koma til að milda breytinguna úr gamla söluskattskerfinu yfir í virðisaukaskattskerfið. Þær ráðstafanir sem þar er sérstaklega gerð grein fyrir eru að sjálfsögðu ekki þær einu sem til greina gætu komið í þessu efni, en þær tryggja að það markmið næst að framfærslukostnaður hjóna með tvö börn eða fleiri hækkar ekki við breytinguna né heldur framfærslukostnaður elli- og örorkulífeyrisþega og ýmissa fleiri hópa.

Ríkisstjórnin er tilbúin að ræða aðrar leiðir að þessu marki en þær sem fram koma í athugasemdum með frv. Þær eru auðvitað ekki aðalatriði þessa máls eða þessa frv. Aðalatriðið er auðvitað að leggja niður úrelt skattkerfi og taka upp réttlátt og hlutlaust skattkerfi þess í stað. Menn verða að gera upp við sig afstöðuna til virðisaukaskattsins sem slíks á þeim forsendum en ekki á grundvelli viðhorfa til ráðstafana sem eru til hliðar við kjarna málsins. Dæmið um hliðarráðstafanirnar, sem sýnt er í grg. frv., sýnir hins vegar að það er hægt að ráðast í þessa mikilvægu breytingu án þess að það komi illa við hag almennings.

Þegar frv. var lagt fram án hliðarráðstafana náði það ekki fram af þeim sökum. Það kæmi því á óvart að nú, þegar slíkar ráðstafanir eru kynntar og boðið upp á viðræður um útfærslu þeirra, ef einhverjir ætla að leggjast gegn málinu vegna þessara ráðstafana. Slíkt væri auðvitað tvískinnungsháttur.

Hitt er ljóst að hliðarráðstafanir kosta peninga og þeirra verður ekki aflað nema með skattinum sjálfum. Því er gert ráð fyrir í þessu frv. að skatthlutfallið verði hærra en ella eða 24% í stað 21% í fyrri frv. Söluskattur í dag er 25% og því er ljóst að mjög margar vörur og ýmis þjónusta, sem í dag er söluskattsskyld, mundi lækka í verði við breytinguna, bæði vegna lægra skatthlutfalls og vegna þess að uppsöfnunaráhrif söluskattsins hverfa nær alveg í virðisaukaskattskerfinu.

Frv., sem hér er mælt fyrir, felur ekki í sér veigamiklar efnisbreytingar frá fyrri frv. um sama efni sem lögð hafa verið fram á Alþingi. Hins vegar hefur orðalagi og efnisskipan verið nokkuð hnikað til og breytt í einstökum atriðum. Einkum á þetta við um fyrstu kafla frv. þar sem fjallað er um skattskyldusvið, skattverð, skattskylda veltu og uppgjör skattsins. Hefur mjög verið tekið mið af reynslu Dana í þessu efni, enda gert ráð fyrir svipuðum reglum. Danir geta státað af því að virðisaukaskattskerfi þeirra er talið til sérstakrar fyrirmyndar bæði á vettvangi Evrópubandalagsins og Norðurlanda, en þar er nú mjög rætt um samræmingu óbeinu skattkerfanna á grundvelli hins danska.

Það er auðvitað ekki tilviljun að í allflestum löndum Vestur-Evrópu skuli þjóðirnar hafa horfið frá söluskatti yfir í virðisaukaskatt. Alls staðar þar sem áhersla er lögð á að reka samkeppnishæfa atvinnuvegi er reynt að tryggja að skattkerfið hamli ekki gegn framförum og möguleikum atvinnufyrirtækja til að selja á erlendum mörkuðum og keppa við innfluttar vörur. Hér á landi gilda að sjálfsögðu ekki önnur lögmál en annars staðar að þessu leyti. Við höfum ekki efni á því að refsa útflutningsgreinum okkar og samkeppnisiðnaði með því að gera þeim að búa við skattkerfi sem gerir framleiðsluvörur þeirra verr samkeppnisfærar við vörur annarra landa sem búa við hlutlaus skattkerfi. Við höfum heldur ekki efni á að búa við skattkerfi sem hamlar gegn eðlilegri verkaskiptingu milli fyrirtækja og atvinnugreina og vinnur gegn vélvæðingu og eðlilegri framþróun. Allt þetta gerir söluskattskerfið vegna þeirrar uppsöfnunar sem í því felst. Það er ekki bara fræðilega verra en virðisaukaskattskerfið heldur er það orðið þannig hér á Íslandi að það er að verða óframkvæmanlegt bæði fyrir skattyfirvöld og innheimtuaðila, fyrirtækin sem verða að innheimta skattinn. Um þetta mætti nefna ótal dæmi. Allir þekkja fullyrðingar manna, t.d. hér á Alþingi, um hvernig innheimtu þessa skatts sé komið og hve auðvelt er að draga þar undan. Virðisaukaskatturinn er líka betri að því leyti þótt erfitt sé að áætta þar um með mikilli nákvæmni. En þegar öllu er á botninn hvolft snýst málið um að gera starfsskilyrði atvinnuveganna hér á landi þannig að þeir geti betur keppt við framleiðslu annarra landa og þar með greitt fólkinu hér á landi hærri laun og þannig stuðlað að betri lífskjörum. Þetta og ekkert annað er þungamiðja þessa máls og undan þessu verður ekki vikist á tímum sívaxandi milliríkjaviðskipta og vaxandi samskipta af öllu tagi milli landa.

Ég trúi ekki öðru en um þessi atriði hljóti menn að vera sammála hvað sem líður daglegum pólitískum ágreiningi. Það getur enginn verið fylgjandi því að búa við ósanngjarnt skattkerfi sem mismunar atvinnugreinum og hvetur til ranglátrar innheimtu.

Söluskatturinn hér á landi aflar 40% af tekjum ríkisins. Menn hljóta að geta verið sammála um að svo mikilvægur tekjustofn uppfylli lágmarksskilyrði. Að sjálfsögðu er eðlilegt að deilt sé um hæð skatthlutfallsins, um ráðstöfun þess fjár sem aflað er og um ýmis önnur atriði sem þessari breytingu hljóta að vera samfara, en um það grundvallaratriði að svo mikilvægur tekjustofn sé réttlátur og sanngjarn ætla ég að menn hljóti að vera sammála þvert á þær pólitísku línur sem að öðru jöfnu skipta mönnum í ólíka flokka.

En hvaða skilyrði þarf almennur neysluskattur að uppfylla? Slíkur skattur þarf að vera hlutlaus gagnvart framleiðslu, dreifingu og neyslu. Hann má því ekki mismuna einstökum framleiðsluaðferðum, viðskiptaháttum eða atvinnugreinum og ætti að hafa sem minnst áhrif á almennar neysluvenjur. Einnig skiptir miklu máli að ákvörðun skatts og innheimta séu eins einföld í framkvæmd og kostur er, jafnt fyrir atvinnulífið og ríkissjóð, og í því sambandi þarf skattstofninn að vera glöggt afmarkaður og ótvíræður. Til þess að skatturinn geti talist hlutlaus gagnvart atvinnulífinu eða dreifingu framleiðsluafla á hinar ýmsu framleiðslugreinar verður skattkerfið að hafa þá eiginleika að skattfjárhæð sé óháð fjölda viðskiptastiga, þ.e. óháð því hve vara fer um mörg viðskiptastig áður en endanlegum neytanda er náð. Hundraðshluti skattfjárhæðar af vöruverði verður að vera sá sami hvar sem endanlegur kaupandi festir kaup á vörunni. Framleiðsluaðferð, svo sem hvort vara er handunnin eða verksmiðjuframleidd, á ekki að skipta máli. Skattkerfið ætti þannig ekki að hafa nein áhrif á við hvaða dreifingaraðila kaupandi kýs að hafa viðskipti og kerfið verður einnig að vera þannig úr garði gert að það hindri ekki eðlilega hagræðingu við framleiðslu eða dreifingu.

Grundvallarreglur virðisaukaskattskerfisins gera ráð fyrir fullri undanþágu á sölu úr landi, en einnig er hugsanlegt að undanþiggja sölu á skýrt afmörkuðum vörum eða þjónustu sem ekki hefur í för með sér mismunun á samkeppnisaðstöðu eða erfiðleika í framkvæmd.

Undanþágur frá virðisaukaskatti eru í grundvallaratriðum tvenns konar. Annars vegar er ákveðnum þjónustusviðum haldið algerlega utan kerfisins. Þessi þjónustusvið eru upp talin í 3. málsgr. 2. gr. frv. Meðal þeirra má nefna þjónustu sjúkrahúsa og hliðstæðra stofnana, félagslega þjónustu ýmiss konar, þjónustu lækna og tannlækna, þjónustu banka, fólksflutninga og vátryggingastarfsemi. Þessir aðilar verða að greiða innskatt af aðföngum og fá hann ekki frádreginn þar sem þeir innheimta ekki útskatt af þjónustu sinni. Þeir eru þannig ekki undanþegnir skattskyldunni þar sem þeir bera innskattinn, en undanþágan frá skráningarskyldunni mun í þessum tilvikum einfalda framkvæmd kerfisins án þess að fórnað sé öðrum umtalsverðum hagsmunum. Hliðstæðar reglur eru settar um smáfyrirtæki, þ.e. ef velta þeirra er innan við 100 þús. kr. á ári.

Hinn meginflokkur undanþága felst í því að endurgjald fyrir tiltekna vöru eða þjónustu er við ákveðnar kringumstæður heimilt að draga frá heildarveltu við uppgjör skattsins. Þessar undanþágur eru taldar upp í 12. gr. frv. Meðal þeirra má nefna vörur og þjónustu sem seld er úr landi, sölu skipa og loftfara og flutninga milli landa. Áhrif þessarar tegundar undanþágu eru mun víðtækari en hinna fyrr nefndu þar sem þeir aðilar er hér um ræðir hafa í flestum tilvikum heimild til frádráttar á innskatti þannig að engin uppsöfnun skatts á sér stað í verði hinnar undanþegnu vöru og þjónustu.

Almenna reglan er sú að virðisaukaskattur er greiddur af allri sölu á vörum og þjónustu án tillits til þess hver kaupandinn er. Sala úr landi er þó undantekning frá þessari meginreglu. Hliðstætt því sem nú gildir um söluskattinn eru skráð fyrirtæki í raun undanþegin virðisaukaskatti af sölu úr landi. Þau fá einnig að draga innskatt af aðföngum frá innheimtum útskatti af sölu á innanlandsmarkaði eða fá hann endurgreiddan að svo miklu leyti sem hann er hærri en útskatturinn.

Vinna skattyfirvalda og framteljanda vex í samræmi við fjölda uppgjörstímabila. Að þessu leyti er því hagkvæmara að uppgjörstímabilin séu lengri og færri. Hins vegar hafa lengri uppgjörstímabil í för með sér lengri gjaldfrest á skattgreiðslum til handa fyrirtækjum og þar með minnkandi raungildi skatttekna ríkissjóðs. Auk þess verða skattfjárhæðir, sem fyrirtækin verða að greiða hverju sinni, hærri. Af því leiðir einnig að meiri sveiflur geta orðið á innstreymi skattsins í ríkissjóð og á greiðslugetu fyrirtækjanna.

Á það ber hins vegar að líta að við upptöku virðisaukaskatts í stað söluskatts lækkar sú skattfjárhæð sem hverju fyrirtæki ber að skila í ríkissjóð. Með hliðsjón af þessum atriðum er lagt til í frv. að árlegum uppgjörstímabilum verði fækkað úr tólf í sex. Þetta hefur aftur á móti í för með sér að virðisaukaskattsskýrslur innheimtuaðila til skattyfirvalda verða ekki að marki fleiri en söluskattsskýrslur í dag þrátt fyrir verulega fjölgun innheimtuaðila, auk þess sem virðisaukaskattsskýrslur verða til muna einfaldari. Of mikið hefur því verið gert úr aukinni pappírsvinnu og skjalagerð í hinni almennu umræðu um þetta nýja skattheimtukerfi.

Gert er ráð fyrir því að eindagi skattsins sé fimmti dagur annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Lenging uppgjörstímabilsins með þessum hætti leiðir að sjálfsögðu til að tekjur ríkissjóðs minnka á því ári sem breytingin gengur yfir og benda lauslegar áætlanir til þess að tekjuhliðrun af þessum sökum gæti orðið um 8-9% á fyrsta ári.

Landbúnaður hefur um margt sérstöðu sem leiðir til þess að eðlilegt virðist að lögleiða sérstakar reglur um virðisaukaskattsmeðferð hans. Eins og kunnugt er er landbúnaður utan núverandi söluskattskerfis. Stór hluti þeirrar fjölgunar gjaldenda sem verður við upptöku virðisaukaskattskerfis kemur úr landbúnaði eða um 5000 gjaldendur. Ríður því á miklu að finna leiðir sem einfaldað gætu virðisaukaskattsuppgjör bænda. Í X. kafla frv. er að finna tillögur í því efni.

Skv. gildandi söluskattsákvæðum er sala bygginga og hvers konar fasteigna undanþegin söluskatti. Vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð svo og vinna við endurbætur og viðhald þeirra er einnig undanþegin söluskatti. Undanþágan á þó ekki við um vinnu við framleiðslu byggingarvara eða byggingarhluta sem fram fer í verksmiðju eða á verkstæði heldur tekur hún einungis til þeirrar vinnu sem unnin er á byggingarstað. Söluskattsskyldan við húsagerð og aðra mannvirkjagerð nær því einungis til efniskostnaðar við mannvirkjagerðina og þar með til þeirra hluta sem framleiddir eru í verksmiðjum eða unnið er að á verkstæðum. Sömu reglur gilda um viðhald mannvirkja.

Undanþága á sölu byggingarfyrirtækja frá virðisaukaskatti á hliðstæðan hátt og nú á sér stað í söluskattskerfinu hefði margvíslega ókosti í för með sér. Með því yrði vikið frá grundvallarreglum kerfisins með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Vandamálin við núverandi framkvæmd söluskattsins í byggingariðnaði yrðu þau sömu og að svo miklu leyti sem hægt væri að leysa þau yrði að gera það með sama hætti.

Undanþágan hefur þann kost helstan að gjaldendur yrðu færri í kerfinu. Því er gert ráð fyrir í frv. að full skattskylda yrði jafnt á vinnu við húsbyggingar og mannvirkjagerð sem í efniskostnaði. Án hliðarráðstafana mundi full skattskylda hafa í för með sér umtalsverða hækkun á byggingarkostnaði einkaaðila, ríkis og sveitarfélaga. Skráð fyrirtæki fengju hins vegar að draga innskattinn frá útskatti.

Ljóst er samkvæmt framansögðu að skattkerfisbreyting af þessu tagi mun hafa í för með sér hækkun byggingarkostnaðar íbúðarhúsnæðis ef ekki verður gripið til sérstakra ráðstafana til að vega þar á móti. Í athugasemdum með frv. er að finna tillögur að slíkum ráðstöfunum sem ég mun fjalla nánar um síðar í máli mínu þegar vikið verður að sérstökum hliðarráðstöfunum vegna upptöku virðisaukaskatts.

Í athugasemdum með frv. er rækilega gerð grein fyrir því hvernig skatthlutfall er áætlað og læt ég nægja að vísa um það efni til þess er þar stendur, en vil þó leggja áherslu á að veigamiklir þættir þeirrar áætlunar hljóta að vera nokkurri óvissu háðir.

Í frv. er einnig gengið út frá því að hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga af söluskattstekjum verði óbreytt frá því sem verið hefur. Gert er ráð fyrir að 5,4% af innheimtum virðisaukaskatti hverju sinni jafngildi þeim tekjum sem Jöfnunarsjóður hefur nú af söluskatti. Í frv. er ekki kveðið á um mörkun þessa tekjustofns heldur er gert ráð fyrir því að um þetta atriði verði kveðið sérstaklega á í lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem ákvæði af þessu tagi á samkvæmt efni sínu betur heima. Nú er kveðið á um hlutdeild Jöfnunarsjóðs í söluskatti bæði í lögum um söluskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Þar sem virðisaukaskatturinn er fjölstigaskattur og frv. gerir ráð fyrir sárafáum undanþágum frá skattskyldu er ljóst að veruleg fjölgun verður á innheimtuaðilum við upptöku kerfisins. Er áætlað að fjöldi framteljenda til virðisaukaskatts verði að hámarki 22 500 í stað 10 000 í söluskattskerfinu eins og það er í dag og er þá um ríflega tvöföldun að ræða. Tæpur helmingur þeirra sem framtalsskyldir yrðu við upptöku virðisaukaskatts fellur þó undir einfalda uppgjörsmeðferð varðandi landbúnað. Er þar með dregið mjög úr þeirri aukningu á kostnaði og fyrirhöfn sem af fjölguninni mundi ella leiða.

Nú vinna aðeins 35 starfsmenn hjá skattyfirvöldum störf er snerta eingöngu söluskattinn. Fjölga verður starfsmönnum við upptöku virðisaukaskatts, en samanburður á kostnaðarauka verður ekki raunhæfur vegna þess að auka þyrfti verulega aðhald og starfsmannahald með núgildandi söluskattskerfi ef það ætti að halda áfram. Lauslega áætlað má reikna með að við upptöku virðisaukaskatts þurfi að tvöfalda fjölda starfsmanna frá því sem nú er í söluskattinum. Á hitt er einnig að líta að með einföldun tollskrár, sem nú er í undirbúningi, og einföldun tekjuskattskerfisins má gera ráð fyrir minni mannaflaþörf í þessari starfsemi. Því má reikna með einhverjum tilflutningi starfskrafta innan hins opinbera tekjuöflunarkerfis samfara þeim breytingum.

Skattkerfisbreytingunni sjálfri fylgir nokkur kostnaður. Þar yrði fyrst og fremst um að ræða kostnað við margs konar undirbúning að breytingunni. Áður hefur þess verið getið að gjaldendum fjölgar og verða fyrirtæki að skila uppgjöri og greiða virðisaukaskatt sem nú greiða ekki söluskatt. Auk þess má búast við því að uppgjör á skatti verði yfirleitt nokkru viðameira fyrir fyrirtækin en uppgjör á söluskatti. Þessu veldur frádráttur innskatts og sérstök færsla hans í bókhaldi. Þetta ætti þó ekki að breyta miklu fyrir þau fyrirtæki sem nú selja bæði söluskattsskyldar og söluskattsfrjálsar vörur til neytenda og verða af þeim sökum að færa innkaup eða sölu þessara vara aðgreint í bókhaldi. Þegar á heildina er litið verður að telja að virðisaukaskattskerfið hafi í för með sér kostnaðarauka bæði fyrir skattyfirvöld og gjaldendur.

Hér að framan hef ég í grófum dráttum rakið helstu meginatriði frv. Í þeim efnum hef ég orðið að stikla á stóru, enda málið umfangsmikið. En áður en ég vík að hliðarráðstöfunum þykir mér til hlýða að gera nokkra grein fyrir helstu breytingum sem þetta frv. felur í sér frá fyrri frv. um sama efni.

Eins og áður greinir er efnisskipan breytt nokkuð til samræmis við dönsku löggjöfina um virðisaukaskatt. Ekki þarf að fjölyrða um það hagræði sem því fylgir að miða framsetningu og texta að svo miklu leyti sem um er að ræða sömu efnisákvæði við löggjöf sem góð reynsla er komin á. Auk þeirrar samræmingar sem getið er að framan er ljóst að með þessum hætti má spara bæði verulegan kostnað og fyrirhöfn við ýmsan undirbúning og framkvæmd þessarar skattheimtu. Má í þessu sambandi nefna gerð handbóka og annarra upplýsingarita sem nauðsynleg eru við þjálfun og fræðslu starfsmanna skattkerfisins svo og gjaldenda. Úrlausn ýmissa vandamála og vafaatriða, sem upp kunna að koma í framkvæmd, ætti jafnframt að verða mun auðveldari og fljótlegri þar sem hægt er að styðjast við reynslu annarra í þessum efnum.

Þá hefur orðalagi víða verið breytt og reynt að gera það skýrara. Efnisbreytingar eru þær helstar að fólksflutningar innanlands ásamt ferðaskrifstofuþjónustu verða skv. þessu frv. undanþegin skattskyldu andstætt því sem fyrri frv. gerðu ráð fyrir. Þá er nú gert ráð fyrir þeim möguleika að fyrirtæki sem selja skattfrjálsa þjónustu geti fengið svokallaða frjálsa skráningu. Heimild þessi getur haft þýðingu fyrir fyrirtæki sem leggja þurfa í verulega fjárfestingu vegna viðskipta við skráða aðila. Í þessu efni vísast að öðru leyti til 6. gr. frv. Þá er lagt til að sala dagblaða og sambærilegra frétta- og landsmálablaða verði undanþegin skattskyldri veltu skv. 12. gr. Virðisaukaskattur vegna dvalar á hótelum verður ekki frádráttarbær sem innskattur skv. 16. gr. Uppgjörstímabilið er lengt um tíu daga frá því sem áður var gert ráð fyrir, sbr. 23. gr. frv. Þá er gert ráð fyrir að heimila megi skemmri uppgjörstímabil en tvo mánuði hjá þeim aðilum sem að jafnaði eru með lægri útskatt en innskatt. Er þessu ákvæði fyrst og fremst ætlað að mæta þörfum útflutningsfyrirtækja. Skemmst getur uppgjörstímabilið orðið ein vika.

Þá er ákvæðum um álag vegna vangoldins skatts breytt til samræmis við verðlagsþróun síðustu ára, þ.e. þau eru lækkuð úr 2% á dag í 1%. Ákvæðum um kærur á stjórnsýslustigi er breytt verulega í því skyni að tryggja skjóta úrlausn deilna um skattákvörðun og skattskyldu. Er í þessu sambandi m.a. kveðið á um skipan sérstakrar nefndar sem í skulu sitja fulltrúar stjórnvalda og atvinnulífs. Nefndin skal m.a. hafa endanlegt stjórnsýslulegt úrskurðarvald um skattskyldusviðið, skattverð, umfang undanþága o.fl. Heimilt verður í tilteknum tilvikum að leita til nefndarinnar fyrir fram um úrskurð varðandi álitaefni. Hér er um nýmæli að ræða og vísast til 9. og 42. gr. frv. varðandi þau atriði.

Loks er vert að minnast á að ekki er lagt til að sérreglur gildi um uppgjör virðisaukaskatts hjá útgerðaraðilum eins og fyrri frumvörp gerðu ráð fyrir. Fyrri tillögur í þessum efnum voru sambærilegar þeim reglum sem gert er ráð fyrir að gildi um landbúnað í þessu frv.

Til þess að vega á móti fjárbindingarvandamálum fiskvinnslunnar sem af þessari breytingu kynni að leiða er kveðið á um heimild til mun skemmra uppgjörstímabils eins og þegar hefur verið rakið.

Mun ég nú víkja að hugmyndum þeim sem nefndar eru í athugasemdum með frv. um hliðarráðstafanir í kjölfar skattkerfisbreytingarinnar svo og áhrifum þeirra á verðlag. Frá upphafi hefur verið ljóst að ef halda á undanþágum í virðisaukaskattskerfinu í lágmarki þurfa að koma til ýmsar hliðarráðstafanir til að mæta þeirri auknu framfærslubyrði sem ella hlytist af. Í því sambandi koma nokkrar leiðir til greina og er engin þeirra einhlít.

Í fyrsta lagi kemur til álita að lækka beina skatta og auka útgreiðslur úr skattkerfinu, t.d. í formi barnabóta sem og greiðslur almannatrygginga. Í öðru lagi er hugsanlegt að lækka eða fella niður álögur, svo sem tolla og vörugjald, á ýmsum vörum sem vega þungt í neyslu almennings og mundu að öðru kosti hækka sem næmi virðisaukaskattshlutfallinu. Loks má hugsa sér hefðbundna niðurgreiðsluaðferð til að halda niðri verðlagi ákveðinna vara á meðan aðlögun að hinu nýja skattkerfi á sér stað. Koma þar fyrst og fremst til álita þær landbúnaðarvörur sem þegar eru niðurgreiddar.

Við undirbúning þessa frv. var lögð mikil vinna í að kanna hvaða möguleikar á þessu sviði séu raunhæfir. Ljóst er að enginn einn kostur er fullnægjandi og er því að hluta farið inn á allar þær leiðir sem ég hef nefnt og dæmi um þau atriði tekin fram í athugasemdum með frv. Samtals er áætlað að þessar ráðstafanir megi kosta 2650 millj. kr., en hluti af þeirri fjárhæð kemur fram sem tekjutap en ekki hrein útgjöld. Vegna þess hve ráðstafanir þessar eru kostnaðarsamar er óhjákvæmilegt að hlutfall virðisaukaskattsins verði hærra en ella. Í frv. er gert ráð fyrir að skatthlutfallið verði 24% eða 1% lægra en núgildandi söluskattskerfi. Er þá jafnframt gert ráð fyrir nokkuð bættri innheimtu í hinu nýja skattkerfi miðað við söluskattskerfið.

Niðurstaðan af þeim ráðstöfunum sem hér hafa verið kynntar er sú að niðurgreiddar búvörur hækka ekki í verði, önnur matvæli munu hækka að meðaltali um 14% þrátt fyrir að á þau komi 24% virðisaukaskattur, en matvæli alls að meðtöldum búvörunum munu hækka um 10,5% að meðaltali. Þar sem verðlag á annarri einkaneyslu lækkar lítillega og þar sem hún vegur þyngra í heildarneyslu almennings mun álagning virðisaukaskatts því aðeins hafa í för með sér 1,2% hækkun á verðlagi einkaneyslu, þ.e. framfærsluvísitölu. Þær breytingar, sem gert er ráð fyrir í álagningu tekjuskatts með hækkun barnabóta, munu hins vegar hafa í för með sér að heildarframfærslubyrði hækkar um 0,5% að meðaltali hjá fjölskyldum í landinu, en lækkar ef eitthvað er hjá þorra hjóna með tvö börn eða fleiri. Niðurstaðan er sem sagt sú að fjögurra manna fjölskylda ætti því að verða heldur betur sett eftir breytinguna en fyrir.

Ráðstafanir til að mæta hækkuðum framfærslukostnaði þurfa ekki að koma til framkvæmda fyrr en frá og með þeim tíma er lög um virðisaukaskatt taka gildi, en í frv. þessu er gert ráð fyrir að það verði 1. janúar 1988. Þar sem hér er um að ræða mjög víðtækar aðgerðir, sem snerta hag margra, er ekki óeðlilegt að sá tími sem líður frá samþykkt frv. uns lögin taka gildi verði notaður til að kanna enn frekar þær leiðir sem til greina koma í þessu efni og freista þess að ná um þær víðtæku samkomulagi. Það er jafnframt ljóst að endurmeta þarf þessar ráðstafanir eða aðrar sem gætu komið í þeirra stað í ljósi þeirra skattkerfisbreytinga sem ætlunin er að ráðast í á næsta ári og tengjast nýgerðu samkomulagi ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin er fús til að stofna til viðræðna um þessi efni við aðila vinnumarkaðarins og önnur hagsmunasamtök.

Þar sem gert er ráð fyrir að virðisaukaskattur leggist á vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað, sem nú er undanþegin söluskatti, hefur verið gert ráð fyrir sérstökum aðgerðum til að vega upp á móti þeirri hækkun byggingarkostnaðar sem ella hlytist af þessari ráðstöfun. Þessi hækkun hefur verið áætluð 5-7% byggingarkostnaðar íbúðarhúsnæðis. Í frv. er gert ráð fyrir að allur sá tekjuauki sem af þessu verður renni óskiptur til baka til íbúðabyggjenda.

Nokkrar leiðir er unnt að fara til að koma þeim peningum til skila og er engin þeirra gallalaus.

Sú leið sem hér er bent á er að endurgreiða húsbyggjendum virðisaukaskatt miðað við hvern fermetra í hinu byggða húsnæði, þó að vissu hámarki. Hér er um verulegar fjárhæðir að tefla. Miðað við byggingarkostnað vísitöluhússins gæti endurgreiðsla á hvern fermetra numið 1500 kr. Með þessu móti ætti að vera tryggt að íbúðarhúsabyggjendur skaðist ekki af álagningu virðisaukaskattsins. Þess má geta að byggjendur atvinnuhúsnæðis munu fá virðisaukaskatt sinn dreginn frá þeim skatti sem þeir innheimta af viðskiptavinum sínum. Setja þarf sérstakar reglur um endurgreiðslur þessar, en um það gildir hið sama og ráðstafanir til að mæta hækkuðum framfærslukostnaði að þær koma ekki til framkvæmda fyrr en virðisaukaskattskerfið sjálft kemst í framkvæmd. Gefst því góður tími til að grandskoða þessa leið sem og aðrar hugsanlegar leiðir að sama marki áður en lögin taka gildi.

Ég hef nú gert grein fyrir aðdraganda þess að fyrir Alþingi er á ný lagt frv. um virðisaukaskatt. Þá hafa í grófum dráttum verið rakin nokkur meginatriði frv. Í þeim efnum hefur þó orðið að stikla á stóru, enda málið umfangsmikið og það ítarlega skýrt út í athugasemdum með frv. Á sama hátt hefur verið gerð grein fyrir þeim hliðarráðstöfunum sem tillögur eru gerðar um. Frv. gerir ráð fyrir að virðisaukaskattur verði innheimtur frá og með 1. jan. 1988. Ljóst er að verulegan tíma þarf til undirbúnings og er oft talað um a.m.k. eitt ár frá samþykkt frv. í því sambandi.

Það liggur í augum uppi að svo flókið mál sem þetta krefst rækilegrar skoðunar á Alþingi. Engu að síður er ljóst að ef innleiða á kerfið um áramótin 1987-1988 þarfnast málið rösklegrar meðferðar á Alþingi. Ég tel að ef vel er á málum haldið nægi minnst 9-10 mánaða undirbúningur áður en kerfinu er hrint í framkvæmd. Að öðrum kosti þýðir ekki að ræða um gildistöku frv. fyrr en í ársbyrjun 1989.

Nú hefur umræða um virðisaukaskatt verið uppi í næstum tvo áratugi. Að mínu mati hefur virðisaukaskattskerfið yfirburði sem skattkerfi miðað við hið stórgallaða söluskattskerfi. Virðisaukaskattur stórbætir samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega, jafnt á heimamarkaði sem við útflutning. Virðisaukaskatturinn er algerlega hlutlaus gagnvart framleiðsluaðferðum, viðskiptaferlum og neysluvali. Í þessu felast meginkostir hans.

Sumir hafa að undanförnu bent á það sem valkost að endurbæta söluskattinn, t.d. með afnámi undanþága í stórum stíl sem jafnframt gæti leitt til lækkunar skatthlutfalls og mjög bættrar framkvæmdar. Í þessu efni gleyma menn því að uppsöfnunaráhrif skattsins ykjust væntanlega verulega við þetta. Flestar dýrustu undanþágurnar í söluskatti eiga beinlínis rætur að rekja til þeirrar viðleitni stjórnvalda að draga úr þessum áhrifum og jafna þannig starfsskilyrði. Væri þessi kostur valinn yrði ekki komist hjá því að auka endurgreiðslur vegna uppsafnaðs söluskatts svo um munar. Það mundi stórauka millifærslur og tilfærslur í kerfinu. Viðamikið og flókið endurgreiðslukerfi af þessu tagi er í eðli sínu ónákvæmt vegna þess að það byggir á misnákvæmum áætlunum og meðaltölum um uppsöfnun skattsins í heilum atvinnugreinum og gæti af þeim sökum skapað fleiri vandamál en það leysti, bæði varðandi réttláta niðurstöðu svo og framkvæmdina alla.

Að mínu mati kemur þessi leið því ekki til greina. Langtum eðlilegra er að taka upp virðisaukaskatt sem sjálfkrafa leysir úr þessum vandamálum á mun einfaldari og tryggari hátt.

Herra forseti. Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.