10.12.1986
Neðri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

212. mál, virðisaukaskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst byrja á að svara því sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að hann væri eiginlega kominn með þetta frv. í þingið af því að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens stóð „athuga skal hvort tekinn verður upp skattur með virðisaukasniði í stað söluskatts innan tveggja ára.“ Í rauninni var ekki hægt að skilja fjmrh. öðruvísi en þannig að hann hafi eiginlega ekki mátt við bindast, hann hafi neyðst til að hlíta þessu kalli örlaganna sem fólst í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens. Ég veit að vísu að formaður Sjálfstfl. metur þá ríkisstjórn mikils og þá sem sátu þar fyrir hönd Sjálfstfl., en staðreyndin er sú að það hefur legið fyrir mjög lengi að það hefur verið áhugi á því, t.d. í iðnaðinum svo að ég nefni dæmi, að tekinn yrði upp virðisaukaskattur. Það er óhjákvæmilegt fyrir mér liggur við að segja hvaða ríkisstjórn sem er og hvaða fjmrh. sem er að skoða mjög rækilega hvort það er vit í því að taka upp virðisaukaskatt. Þegar menn ákveða slíkt þarf það hins vegar ekki að þýða að menn komist endilega að þeirri niðurstöðu að það eigi að leggja á virðisaukaskatt. Það er útúrsnúningur. Niðurstaða okkar varð sú að það væri ekki rétt að leggja á virðisaukaskatt miðað við þá athugun sem við höfðum gert.

Ég endurtek hins vegar, ef það gæti orðið til þess að greiða fyrir umræðunni, að þetta mál á að skoða mjög rækilega. En ég ætlast ekki til þess að hæstv. fjmrh. né samstarfsmenn hans noti þessa setningu mína til útúrsnúnings með þeim hætti sem hæstv. fjmrh. hefur hér gert og er raunar býsna algengt að hann geri í sínum málflutningi, rétt eins og hann sé á kappræðufundi í hinum gamla stíl sem við þekkjum báðir frá hinum fyrri árum. Málið er ekki svo. Auðvitað hlutum við á sínum tíma að athuga þetta mál. Niðurstaða okkar varð sú að það ætti að láta þetta liggja. Við fluttum aldrei frv. um að taka upp virðisaukaskatt. En strax og ný ríkisstjórn kom vorið 1983 féllst Framsfl. á það ásamt Sjálfstfl. að það yrði lagt fram frv. til sýnis um virðisaukaskatt. Það var hér til meðferðar, en var síðan sent til ríkisstjórnarinnar aftur. Ég er þeirrar skoðunar að miðað við þær forsendur sem ég hef hér rakið í dag og annað sem fram hefur komið hér, m.a. í fróðlegri ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem leggst gegn frv. í núverandi mynd, væri eðlilegt að vísa þessu máli enn þá einu sinni til ríkisstjórnarinnar og að ríkisstjórnin, hver sem hún er, fái þetta mál til meðferðar sem hluta af heildarskattamálum ríkisins, heildartekjuöflunarkerfi ríkisins eins og ég ræddi um áðan.

Hæstv. fjmrh. segist vera sammála því að það eigi að hafa sem víðtækasta samstöðu, breiða samstöðu. Ég tek ekkert mark á orðum hans í þessum efnum vegna þess að athafnirnar sýna allt annað. Hann hefur engan áhuga á samstöðu um hlutina. Hann hefur aldrei sýnt í starfi sínu sem fjmrh. að hann hafi minnsta áhuga á samstöðu með stjórnarandstöðunni um eitt eða neitt. Þó að það hafi legið fyrir að stjórnarandstaðan væri tilbúin til að taka þátt í athugun mála hefur hæstv. núv. fjmrh. skellt skollaeyrum við því ævinlega. Það er ekki hægt að tala um slíkt samstarf eftir að frv. er komið inn í þingið. Þá fer það sína leið inn í fjh.- og viðskn. og fær þar venjulega þinglega athugun. Þar er í raun og veru ekki um neitt annað að ræða en að stjórnarandstöðuflokkunum er stillt upp við vegg. Þeir hafa engin tök á að hafa áhrif á málið. Þess vegna er alveg ljóst að yfirlýsingar fjmrh. um vilja til breiðrar samstöðu eru hrein markleysa.

Ég benti á í ræðu minni fyrr í dag að nú lægju fyrir ítarlegar hugmyndir um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, bæði útsvar, fasteignagjöld og aðstöðugjöld. Það lægju fyrir hugmyndir frá aðilum vinnumarkaðarins um gerbreytingu á skattakerfinu. Það lægju fyrir í fjmrn. tillögur um breytingu á tollakerfinu. Hér lægju fyrir tillögur um virðisaukaskatt. Ég tel að það væri eðlilegt að allar þessar hugmyndir væru skoðaðar í samhengi. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. 5. þm. Reykv. að það er ekki mögulegt fyrir núverandi ríkisstjórn, sem er svo að segja dauð, að taka á þessum málum. Hún hefur engan möguleika til þess. Hún er svo að segja farin frá, svo er stjórnarskránni fyrir að þakka, þannig að hún er svo fullkomlega óburðug í þessum efnum sem frekast getur verið. Hins vegar endurtek ég það, sem ég sagði hér í dag, að ég væri tilbúinn til þess alla vega fyrir hönd míns flokks að taka þátt í því að hér yrði til einhvers konar nefnd á Alþingi með fulltrúum frá öllum flokkum til að fara yfir þessi mál núna og undirbúa að það fari fram allsherjarendurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkisins því að hver sú stjórn sem mynduð verður að afloknum kosningum verður að halda allt öðruvísi á þessum málum en núverandi stjórn. Hún verður að reyna að stuðla að sem víðtækustu samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu um tekjuöflunarkerfi ríkisins. Tekjuöflunarkerfi ríkisins er hornsteinn félagslegrar þjónustu og samneyslu í landinu og það á að vera starfsskylda hvers einasta fjmrh. að halda þannig á málum að sem víðtækust samstaða geti náðst.

Hæstv. fjmrh. talaði um að það væri nauðsynlegt að flýta afgreiðslu á þessu máli og það yrði endilega að verða að lögum á þessu þingi. Ja, mikil lifandis ósköp liggur þessum mönnum allt í einu á, 10. des. 1986, talandi fyrir ríkisstjórn sem var mynduð hérna vorið 1983! Allt í einu vakna þeir upp við vondan draum rétt fyrir kosningar og finna út að þeir verði endilega að breyta þessu kerfi, þeir verði að taka á þessum málum vegna þess að þeir hafa ekkert gert, ekkert aðhafst þennan tíma, hafa ekki sýnt nokkurn minnsta lit á því að Sjálfstfl. vildi breyta því gallaða skattakerfi sem við búum við. Þess vegna eru kröfur fjmrh. um að stjórnarandstaðan afgreiði á handahlaupum þessi mál næstu daga eða vikur, með leyfi hæstv. forseta, það sem heitir á íslensku frekja. Það er ekki hægt að setja mál fram með þessum hætti. Það skulu, herra forseti, vera mín lokaorð í þessari umræðu að sinni.