10.12.1986
Neðri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1488 í B-deild Alþingistíðinda. (1318)

212. mál, virðisaukaskattur

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram af gefnu tilefni að drög að þessu frv. voru afhent fulltrúum stjórnarflokkanna áður en það var lagt fram á Alþingi. Það hefur nú legið frammi á þinginu í nokkurn tíma þannig að gefist hefur nægur tími til að skoða frv. og fulltrúar stjórnarandstöðunnar fengu það áður en það var lagt fyrir þingið og það var þar skýrt út og rætt.

Ég man ekki betur en Alþfl. hafi á þinginu í fyrra lagt fram till. um breytingar á söluskattinum sem gerðu ráð fyrir tæplega þriggja milljarða króna aukningu á tekjum til ríkisins með breytingu á söluskattskerfinu. Hvernig í ósköpunum kemur það svo heim og saman að formaður Alþfl. kemur á þetta þing og segir: Nú þarf að stórlækka tekjur ríkisins af söluskatti eða virðisaukaskatti? Þessu þarf að svara.

Hv. þm. þarf líka að gera grein fyrir því ef hann vill virðisaukaskatt en segir: Ég get ekki samþykkt þetta frv. - Hvernig á frv. að vera að hans mati? Ef skatturinn á að vera lægri þarf hann að gera grein fyrir því hvernig á að gera það. Það er auðvelt að segja: Við skulum fara með skattinn niður í 21% og hafa engar hliðarráðstafanir. Þá þarf hv. þm. að gera fólkinu í landinu grein fyrir því, heimilunum í landinu grein fyrir því að hann vilji ekki gera neinar hliðarráðstafanir til að jafna upp þá röskun sem verður af innleiðingu á nýju kerfi. Þá kemur það glöggt fram. Ef hv. þm. vill svo ganga lengra, þrátt fyrir tillögur sínar á þinginu í fyrra um að stórauka tekjur ríkisins af óbeinu skattheimtunni, og lækka þær núna, þá þarf hv. þm. líka að gera grein fyrir því hvernig á að fara með útgjöld ríkisins því það hlýtur að tengjast hugmyndum um lækkun útgjalda. Þá er rétt að það komi fram á hvaða sviðum það er.