20.10.1986
Neðri deild: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

28. mál, umboðsmaður Alþingis

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. þm. Vesturl. fyrir þau orð sem hann lét hér falla úr þessum ræðustól áðan til stuðnings við þetta frv. um umboðsmann Alþingis sem hér er til umræðu. Hann vék að nokkrum atriðum varðandi frv. og framsöguræðu sem ég flutti fyrir því. Ég vildi aðeins vegna þeirra athugasemda, sem margar voru á rökum reistar, samt vekja athygli á því að það mikilvægasta sem hér er um að ræða er í sjálfu sér kannske ekki upplýsingaskylda eða upplýsingahlutverk þessa embættismanns. Hann á ekki að gegna því upplýsingahlutverki sem á þeim tíma sem hv. þm. einmitt gegndi embætti dómsmrh. var gegnt af sérstökum upplýsingafulltrúa í dómsmrn. sem fræddi almenning og svaraði fsp. um það hver væri réttur manna í tilteknu falli. Það embætti hefur síðan verið lagt niður og er ekki fyrir hendi í dag. Upplýsingar eru vitanlega veittar af ráðuneytum, af opinberum sýslunarmönnum og af sýslumönnum og bæjarfógetum um land allt, ef þeir eru spurðir.

En meginatriði þessa máls er raunverulega það að umboðsmaður Alþingis tekur við kvörtunum og kærum vegna athafna eða athafnaleysis, vegna framkvæmda og gerða opinberra sýslunarmanna, þ.e. embættismanna ríkisins, sem menn telja að séu ekki á rökum reistar og brjóti á einhvern hátt gegn rétti þeirra. Það fjallar um heimildir manna til að leita leiðréttingar á því ranglæti sem þeir telja að opinberir embættismenn, bæði sveitarstjórnar og ríkis, hafi haft í frammi gagnvart þeim. Það geta verið bæði athafnir og athafnaleysi. Erindum manna er ekki svarað. Þeir eru hundsaðir. Bréfum er ekki svarað og menn bíða og ná ekki rétti sínum. Þetta er vitanlega meginhlutverk þessa starfs auk þess að veita almennar upplýsingar sem margir aðrir aðilar í þjóðfélaginu auðvitað gera.

Það er alveg rétt hjá hv. ræðumanni að vitanlega fylgir þessu nokkur kostnaður. Ég hygg hins vegar að Alþingi hafi ekki verið stórtækt í því að auka útgjöld ríkisins vegna sjálfs sín eða kostnaðar við alþingishaldið. Og sem ég segi þessi orð, þá gengur hér í salinn forseti Sþ. og ég veit að honum er vel kunnugt um að svo hefur ekki verið gert. Þó svo að nýtt hús fyrir Alþingi, gífurlega stórt og mikið, sé nú til á teikniborðinu, þá hefur Alþingi á hinn bóginn einmitt skorið við nögl allar fjárveitingar til sjálfs sín, ef svo mætti segja. Ég minni í því sambandi á þær umræður sem urðu hér á Alþingi í fyrra um það sem einn hv. þm., sem því miður er ekki viðstaddur á þessum fundi, nefndi hin hraksmánarlegu laun þingmanna, sem hlutaðeigandi hv. þm. kvaðst raunar ekki geta lifað af.

Ég hygg að Alþingi hafi hingað til ekki gerst stórtækt í fjárveitingum til sjálfs sín eða starfsemi sinnar en hér sé hins vegar á ferðinni þess háttar mál, að þótt kostnaður verði einhver við embætti umboðsmannsins og eins eða tveggja fulltrúa hans, þá sé þetta starf svo mikilvægt til þess að treysta réttaröryggi borgaranna í landinu að í það megi ekki horfa.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.