11.12.1986
Sameinað þing: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1325)

222. mál, kaup ríkisins á Borgarspítalanum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Vegna orða hæstv. ráðh. áðan tel ég nauðsynlegt að fram komi hér örstutt ályktun, gerð af Læknafélagi Austurlands 2. október s.l., sem tengist þessu máli. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Læknafélags Austurlands, haldinn í Neskaupstað 2. okt. 1986, varar við þeirri breytingu sem í vændum er á rekstrargrunni sjúkrahúsa á landsbyggðinni. Fundurinn bendir á að ekki hefur verið bent á neinn sparnað með þessari breytingu. Endanleg útkoma geti jafnvel orðið aukin heildarútgjöld til heilbrigðismála með auknum flutningum á sjúklingum til Reykjavíkursvæðisins og þar með kröfum um þjónustuaukningu þar á kostnað landsbyggðarinnar. Fundurinn telur rétt að fresta öllum breytingum á rekstrargrunni sjúkrahúsa á landsbyggðinni þar til endanleg könnun hefur verið gerð á kostum og göllum kerfisbreytinganna.“

Þetta var ályktun Læknafélags Austurlands. Það er ekki hægt, herra forseti, að greina þessi mál í sundur, sölu á Borgarspítalanum til ríkisins og kerfisbreytingu varðandi sjúkrahúsin á landsbyggðinni. Það vil ég alveg sérstaklega undirstrika. Slíkt væri hrein óhæfa að ætla að fara að greina þar á milli. Ég tek undir þær kröfur sem komu fram hjá fyrirspyrjanda um frestun á þessu máli og nánari skilmerkilega athugun. Við höfum heyrt það hér og séð hversu fimur hæstv. heilbrmrh. er í þessu efni og að borgarstjórinn í Reykjavík hefur eignast búktalara á Alþingi.