11.12.1986
Sameinað þing: 28. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1500 í B-deild Alþingistíðinda. (1333)

222. mál, kaup ríkisins á Borgarspítalanum

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg rétt hjá hæstv. heilbrmrh. að það er mjög skynsamlegt í svona málum að kynna sér þau rækilega og fara yfir málin og ég held að það hafi kannske ekki verið nægilega vel gert, að menn hafi ekki kynnt sér málið nægilega vel. Það hafa engar röksemdir verið fluttar hérna um að heilbrigðisþjónustan batni. Það hafa engar röksemdir verið fluttar um að hagkvæmnin verði meiri. Er þá ekki málið tæmt? Nei, það er ekki tæmt vegna þess að borgarstjórinn í Reykjavík, hans hátign, hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að selja Borgarspítalann. Það er í raun og veru sá veruleiki sem hæstv. heilbrmrh. virðist ætla að taka tillit til. En þá er þess að geta að borgarstjórinn í Reykjavík hafði ekkert umboð til að selja Borgarspítalann og hefur það ekki enn þá. Borgin hefur ekki samþykkt það, borgarstjórn hefur ekki samþykkt það, borgarráð ekki, stjórn sjúkrastofnana ekki, heilbrigðismálaráð borgarinnar ekki. Borgarstjórinn í Reykjavík hefur ekkert umboð til að ganga frá þessu máli og það er meira að segja ástæða til að ætla að það sé ekki öruggur meiri hluti í borgarstjórn Reykjavíkur vegna þess að einstakir borgarfulltrúar Sjálfstfl. í stjórn sjúkrastofnana og heilbrigðisráðs Reykjavíkur hafa lýst efasemdum og andstöðu við þessar hugmyndir. (GHelg: Og fulltrúaráð Sjálfstfl.) Fyrir nú utan þá mektugu stofnun, fulltrúaráð Sjálfstfl. Maður skyldi nú ætla að einhvern tíma væri hlustað á þá sjoppu á þessum bæ.

Síðan vil ég benda á það, af því að hæstv. heilbrmrh. var að vitna í Landakot og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, að það er rétt að ég átti hlut að því að þau voru flutt á bein fjárlög á sínum tíma. Það gekk mjög vel. Það var gerður samningur við stjórnir þessara stofnana og þær samþykktu þetta á sínum tíma og hafa verið ánægðar með fyrirkomulagið æ síðan. Hæstv. heilbrmrh. segir aftur á móti nú að þessi flutningur hafi verið vel undirbúinn. Það er misskilningur. Það hefur greinilega ekki verið vel undirbúið vegna þess að Davíð Oddsson hefur komist að þeirri niðurstöðu að ef þetta gerist verði hann að bjóða Borgarspítalann til sölu. Vitnið um að þetta sé illa undirbúið af hæstv. núv. heilbrmrh. heitir Davíð Oddsson. Þannig standa þau mál, herra forseti.