11.12.1986
Neðri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

233. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Í sambandi við fsp. hv. 3. þm. Reykv. vil ég segja um fyrra atriðið að þetta frv. var lagt fram á nákvæmlega sömu forsendum og frv. um breytingu á tekju- og eignarskatti og auðvitað mun sú breyting sem núna hefur verið tilkynnt í fjh.- og viðskn. í sambandi við það mál ganga jafnt yfir þetta mál. Ég hef þegar rætt við formann félmn. og hann mun að sjálfsögðu breyta tölum í samræmi við það. Þetta eru samhljóða tillögur sem þurftu að fylgja þeirri ákvörðun að hafa ekki skattvísitöluna í fjárlagafrv. og þar af leiðandi kemur af sjálfu sér að leiðréttingar verða gerðar á báðum þessum málum í samræmi við ákvörðun um tekjuviðmiðunina.

Í sambandi við hitt atriðið, tekjustofna sveitarfélaga, er ljóst og hefur verið upplýst áður að frv. hefur legið fyrir, endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga hefur legið fyrir. Vegna viðræðna sem hafa verið í gangi í sambandi við hugsanlega verkefnaskiptingu og áhrif á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hefur orðið nokkur frestun á að leggja það fram. En frv. mun verða lagt fyrir ríkisstjórnina eftir helgina og stefnt er að því að það verði lagt fram fyrir jól ef samstaða næst um það, en að öðrum kosti strax eftir þinghlé. Hvort það verður afgreitt á þessu þingi skal ég ekki segja, en það verður til meðferðar á þinginu.