11.12.1986
Neðri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

204. mál, viðskiptabankar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er að vonum að þetta frv. til l. sé hér endurflutt miðað við það sem yfir okkur hefur gengið í bankamálum að undanförnu. Á ég þar vitaskuld við það sem hefur verið að gerast í Útvegsbankanum, en ekki bara fall bankans sjálfs heldur fall margra aðila í þjóðfélaginu um leið. Sannleikurinn er vitaskuld sá að þegar Hafskipsmálið er skoðað og Útvegsbankamálið í framhaldi af því kemur í ljós að það voru margir sem brugðust. Bankastjórn Útvegsbankans brást, bankaráð Útvegsbankans brást, ráðherra hefur brugðist í þessu máli og Alþingi hefur brugðist í þessu máli.

Ábyrgð bankastjórnar og bankaráðs liggur nokkuð ljóst fyrir, en ég bendi á að skv. gildandi lögum hefur ráðherra ákveðnar skyldur að því er varðar meðferð mála. Í lögum sem tóku gildi 1. jan. 1986 er þess getið að komi fram að eigið fé banka hafi farið niður fyrir tiltekin mörk skuli bankaeftirlitið grípa til aðgerða, þ.e. afhenda ráðherra reikningsuppgjör og greinargerðir bankaráðs, sem aflað hafi verið, en ráðherra skuli síðan leggja fyrir Alþingi tillögur um ráðstafanir er grípa skuli til af þessu tilefni. Hann getur að vísu veitt allt að sex mánaða frest til að auka eigið fé bankans. Það á kannske ekki sérstaklega við í þessu tilviki, en ráðherra hefur brugðist þeirri skyldu sinni að leggja fram tillögur um hvernig við skuli bregðast og málið hefur verið að velkjast í kerfinu fram og aftur eins og kunnugt er. Ég tel að Alþingi hafi líka brugðist með því að endurkjósa á sínum tíma að því er aðra flokka varðar en Alþfl. sömu bankaráðsmennina öðru sinni eftir að ljóst var hvað hafði komið fyrir í Útvegsbankanum.

Auðvitað má velta vöngum yfir því til hvaða ráðstafana sé eðlilegt og rétt að grípa. Það hefði verið hugsanlegt og hefðu verið hreinleg skipti á sínum tíma að leita tilboða í Útvegsbankann, þ.e. leita tilboða með þeim hætti að ganga úr skugga um hver vildi taka við Útvegsbankanum með minnstri meðgjöf. En sá tími er væntanlega fyrir bí að það hefði verið mögulegt vegna þess að verðmæti Útvegsbankans og staða hafa rýrnað dag frá degi, allt vegna þess að ráðherra og ríkisstjórn hafa ekki gripið til neinna aðgerða. En ólíkt skemmtilegra hefði verið að leita tilboða af þessu tagi en fara þá furðulegu leið, sem Seðlabankinn hefur bent á, að binda sig við einn ákveðinn aðila og segja við hann: Nú átt þú að kaupa þetta - og sitja síðan í samningaþófi við þennan sama aðila vikum og mánuðum saman.

Nú er vitaskuld orðið mjög brýnt að eyða þeirri óvissu sem gildir um framtíð Útvegsbankans og sú skylda hvílir á ríkinu, ekki einungis skv. lögum um viðskiptabanka, sem ég hef þegar vitnað til, og lögum um Seðlabanka Íslands að grípa í taumana heldur hvílir skyldan jafnframt á ríkisstjórn sem handhafa framkvæmdarvaldsins og eiganda í þessu tilviki. Tillögur Alþfl. í þessum efnum hafa þegar verið birtar þar sem við teljum nauðsynlegt að ríkið skoði heildareign sína í bönkunum í einu samhengi og líti til þess að mynda úr þeim öllum þremur tvo viðskiptabanka, en síðan kæmi til álita að gera annan hvorn þeirra að hlutafélagi og selja hluti í honum. Ég skal ekki fjölyrða frekar um það, en hitt er ljóst að það hvílir þung ábyrgð á ráðherra bankamála og reyndar ríkisstjórninni allri að hafa látið þetta mál dragast með þeim hætti sem raun ber vitni og geta ekki komið sér niður á skynsamlega ráðstöfun.

till. sem hér er flutt fjallar sérstaklega um að heildarskuldbindingar eins aðila við viðskiptabanka skuli ekki nema nema tilteknu hlutfalli af eigin fé bankans. Hún hefur komið áður til umræðu í þinginu, eins og hv. 1. flm. gat um, og hefur reyndar verið til umræðu og var til umræðu þegar samið var frv. til l. um viðskiptabanka af bankamálanefnd á sínum tíma. Það verður að segjast eins og er að bankamálanefndin guggnaði á þessu verkefni og þá m.a. í ljósi þess að erfitt mundi vera að setja algildan mælikvarða í þessum efnum. En það sem upp á hefur borið síðan í málefnum Útvegsbankans sýnir gleggra en nokkuð annað nauðsyn þess að hér séu æði fastmótaðar reglur. Auðvitað má gera það með ýmsum hætti, en sú málsgr. sem hér um vélar í 21. gr. er vafalítið allt of rúm og máttlaus. Hún hljóðar á þessa leið:

„Bankaráð setur að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar bankans sem sendar skulu bankaeftirlitinu.“

Hugmynd flm. að þessu frv. er að hér komi til ákveðnar hundraðstölur. Vitaskuld kemur það til álita, en ég bendi á að ef mönnum þykir of strangt að kveðið í till. flm. eru tvær leiðir til, annaðhvort að slaka nokkuð á klónni að því er prósentutölurnar varðar eða þá að fara nokkuð aðra leið, nefnilega þá að hámark lánveitinga til eins aðila skuli ákveðið árlega og skuli vera opinberlega ljóst og kynnt bankaeftirlitinu. Þær reglur sem menn setji sér séu þannig ævinlega ljósar og þær taki einmitt til þess sem hér er verið að nefna og séu þannig mótaðar og endurskoðaðar frá ári til árs. Einnig kemur vitaskuld til álita að hafa einhvern aðlögunartíma.

Það sem hefur verið fært fram sem rök gegn því að binda sig við ákveðnar hundraðstölur af því tagi sem hér eru nefndar er einkum tvennt, eða kannske er það fyrst og fremst eitt, en orsakirnar eru tvennar. Það er að eins og hlutum sé háttað í íslenska bankakerfinu séu svo og svo mörg fyrirtæki sem séu ofan við þessi mörk. Það kom m.a. fram í svari við fsp. frá hv. 1. flm. þessa frv. fyrir ári að mig minnir. En hvers vegna eru menn þá ofan við þessi mörk? Orsökin er m.a. sú að bankarnir eru litlir og vanburða. Nú hafa verið sett ákvæði í lög um að þeir þurfi að tryggja sér ákveðna eiginfjárstöðu og jafnframt gefst nú tækifæri til að styrkja bankaheildirnar og stækka á Íslandi í samræmi við þær tillögur sem ég nefndi áðan um að ríkissjóður liti a.m.k. á eign sína í bankakerfinu í einni heild og myndaði úr því tvær sterkari einingar.

Í annan stað hafa menn bundið sig við það, og þar kemur hin orsökin, að fyrirtæki ættu að vera með öll lánsviðskipti sín í einum banka. Ég held að þetta sé bábilja. Fyrirtæki þurfa þess alls ekki og eru reyndar alls ekki með öll viðskipti sín í einum banka í öllum tilvikum. Það má vera að stærstu fyrirtækin séu það. En ég er sannfærður um að mörg erlend fyrirtæki eru með viðskipti í mörgum bönkum og það er ekkert sem hamlar því að fyrirtæki á Íslandi af stærra taginu geti verið með viðskipti í fleiri en einum banka. Menn segja að yfirlit glatist þá, yfirsýn glatist. Það er rangt. Bankaeftirlitið hefur möguleika til þess að fylgjast með viðskiptum einstakra fyrirtækja við alla banka og það er möguleiki til að miðla þeim upplýsingum.

En það er kannske fleira sem væri ástæða til að benda á og rétt væri að huga að að kæmi inn í lögin um viðskiptabankana úr því að hér er flutt tillaga um breytingu á þeim. Það hefur farið fram mat á útlánum Útvegsbankans að því er manni skilst. En það skyldi þó ekki vera svo að það væri ástæða til að meta raunvirði útlána hjá öðrum viðskiptabönkum í landinu. Ég tel að það sé fyllsta ástæða til þess og að það eigi að vera skýlaust hlutverk bankaeftirlitsins að meta raunvirði útlána hjá viðskiptabönkunum. Og auðvitað er þetta sérstakt áhugamál ríkisins sem eiganda stærstu viðskiptabankanna. Vitaskuld er alveg sérstakt tilefni til þess núna þegar bankamálin eru í uppnámi, einn ríkisbankinn á hausnum, og ástæða til þess af ríkisins hálfu að endurskipuleggja bankakerfið í heild sinni og þá sérstaklega hlutdeild sína í því.

Enn er það svo að það hefur komið fram í umræðum um Útvegsbankann að þar væru duldar skuldbindingar sem ekki verða fundnar á bókum með bærilegum hætti þar sem eru lífeyrisskuldbindingar bankans. Ég held að það sé fyllsta ástæða til þess að lífeyrisskuldbindingar allra banka á Íslandi væru teknar til skoðunar og tryggingafræðilegs mats. Auðvitað ætti það að vera sérstakt áhugamál ríkisins að vita hvernig staðan er hjá þeim bönkum sem hann er eigandi að og það mundi koma inn í þá heildarmynd í endurskipulagningu bankakerfisins sem hlýtur að verða og er í raun á dagskrá hér. En það er líka nauðsynlegt að það komi skýrt fram í lögum um bankaeftirlit og í lögum um reikningsskil bankanna að hér er um skuldbindingar að ræða sem færast skuli á bækur og metnar verði með raunhæfum hætti.

Enn vil ég geta þess að uppákoman í Útvegsbankanum gefur vitaskuld tilefni til að hugleiða þá hagsmunaárekstra sem greinilega geta átt sér stað og boðið er upp á og var boðið upp á sérstaklega í Útvegsbankanum þegar bankaráðsmenn eru jafnframt stjórnendur eða stjórnarmenn eða jafnvel stjórnarformenn hjá viðskiptaaðilum við bankann. Það er tiltekið í lögunum um viðskiptabanka að bankastjórar og skoðunarmenn megi ekki vera skuldugir þeim banka sem þeir starfa við. Það er fyllsta ástæða til að setja hliðstæð ákvæði um bankaráðsmenn, að viðskipti þeirra eða fyrirtækja í þeirra eigu skuli ekki vera við þann banka sem þeir eru bankaráðsmenn við, svo framarlega sem þeir eigi að geta gegnt hlutverki sínu með eðlilegum hætti. Hagsmunaáreksturinn er þar fyrir hendi. Og ég held að þetta eigi ekki að gilda einungis um ríkisbankana heldur allt eins um banka í einkaeigu. Mér er ekki grunlaust um að ýmsir þeir sem sitja í bankaráðum einkabankanna, hvort heldur þeir heita Iðnaðarbanki eða Verslunarbanki, hafi jafnframt verið með stærstu skuldurum við þessa sömu banka. Þurfa menn ekki annað en skoða hug sinn eilítið um hverjir hafi setið eða sitji jafnvel enn í bankaráðum Iðnaðarbanka og Verslunarbanka til að sjá að svo muni vera.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.