12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

1. mál, fjárlög 1987

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. Karvel Pálmason kvartaði um það hér í upphafi ræðu sinnar áðan að heldur hefðu umræður verið drungalegar og daufar hér í þinginu þangað til hann kom sjálfur í ræðustólinn. Vissulega er það rétt að ræða hans var á köflum nokkuð skemmtileg en heldur fannst mér hún langdregin miðað við efnisinnihald.

Fjvn. Alþingis hefur haft frv. til fjárlaga fyrir árið 1987 til athugunar og meðferðar frá því Alþingi kom saman á haustdögum og er það nú komið til 2. umr. hér í hv. Alþingi.

Nefndin hefur að venju rætt við ýmsa aðila sem hafa viljað koma sínum málum á framfæri við fjárveitingavaldið eða Alþingi og lesið mikinn fjölda erinda og bréfa sem borist hafa.

Fjvn. leggur hér fram nokkurn fjölda brtt. sem samtals hækka útgjöld ríkissjóðs um tæpar 450 millj. kr. Að venju bíður hins vegar umfjöllun um tekjuhlið frv. til 3. umr. svo sem fram kom í ræðu hv. þm. Pálma Jónssonar, formanns fjvn. og frsm. fyrir nál. meiri hl. nefndarinnar.

Þá er og ljóst að nýgerðir kjarasamningar hljóta að hafa veruleg áhrif á nokkra þætti fjárlaganna, m.a. á bótagreiðslur almannatrygginga, sem hlýtur að leiða til verulegrar útgjaldaaukningar Tryggingastofnunar ríkisins. Mun ég e.t.v. víkja örlítið nánar að áhrifum kjarasamninganna á ríkisfjármálin síðar í ræðu minni.

Hv. þm. Pálmi Jónsson hefur í framsöguræðu sinni gert grein fyrir einstökum brtt. á þskj. 282 og er ekki ástæða til að endurtaka það. Ég vil hins vegar drepa á nokkur einstök atriði.

Undanfarið hafa fjárveitingar til framkvæmda og fjárfestingar verulega dregist saman og var svo komið að í einstökum málaflokkum dugðu fjárveitingar lítið meira en til að greiða skuldir sem safnast höfðu upp vegna óhjákvæmilegra og nauðsynlegra framkvæmda sem ráðist hafði verið í, þótt ekki væru til þeirra fjárveitingar frá ríkinu. Átti þetta einkum við um hafnarframkvæmdir en svipaða sögu var að segja um skólamannvirki, þar sem sveitarfélög höfðu framkvæmt hraðar og fyrir meira fé en framlög ríkisins höfðu gert ráð fyrir. Þessa sögu þekkja allir og er óþarft að fara um hana mörgum orðum. Hins vegar þótti sýnt þegar við undirbúning fjárlagafrv. að hér yrði að verða breyting á og nauðsynlegt væri að hækka fjárveitingar til framkvæmdamálaflokkanna.

Í meðförum fjvn. hefur niðurstaðan orðið sú að hækka flesta þessa fjárlagaliði enn frekar til að mæta brýnustu þörfum, enda var það svo að ef t.d. er tekið mið af liðnum Hafnarmannvirki og lendingarbætur, þá hafði hann hækkað frá fjárlögum 1986 til frv. 1987 úr u.þ.b. 70 millj. kr. í 160 millj. kr. Við athugun kom síðan í ljós að af þessum 160 millj. var búið að ráðstafa fyrir fram, þ.e. í framkvæmdir sem nauðsynlegt var að vinna í ár, um 115-120 millj. kr. og því ekki til ráðstöfunar til nýrra framkvæmda á næsta ári nema lítill hluti af fyrirhugaðri fjárveitingu. Því var talið óhjákvæmilegt að hækka fjárveitingar til þessa málaflokks enn frekar eða um nær 60 millj. kr. í viðbót. Svipaðar staðreyndir blöstu við hvað flesta aðra framkvæmdamálaflokka varðaði.

Þrátt fyrir allar þessar hækkanir er ljóst að enn hallar verulega á ríkissjóð vegna ýmissa sameiginlegra framkvæmda ríkis og sveitarfélaga. Ég ítreka því þá skoðun mína, sem ég lét m.a. í ljós við 1. umr. um fjárlagafrv. 30. okt. s.l., að nauðsynlegt sé að fulltrúar ríkisvalds og sveitarfélaga taki þetta mál inn í umræður um verkaskiptingu milli þessara aðila og reyni að finna leið út úr þessum vanda sem báðir geti sætt sig við.

Svo sem menn vita hafa í haust verið að störfum nefndir á vegum hæstv. ráðherra félags- og fjármála sem hafa haft þetta hlutverk með höndum, svo sem m.a. kemur fram í grg. með fjárlagafrv. Enn hefur ekki fengist nein niðurstaða í þessum málum og er því staða t.d. Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í frv. sú sama og var við framlagningu þess. Ég lít svo á að enn verði að reyna á það til hins ýtrasta hvort ekki næst eitthvert samkomulag fyrir 3. umr. um frv. í næstu viku milli þessara aðila, og gera síðan þær lagfæringar á frv. sem nauðsynlegar kunna að reynast í því sambandi fyrir lokaafgreiðslu þess.

Þær hækkanir sem orðið hafa á fjárfestingarliðunum munu nema ríflega helmingi þeirra hækkana sem nú eru gerðar tillögur um. Annað eru hækkanir á ýmsum rekstrarliðum sem talið var nauðsynlegt að lagfæra eða taka upp, svo sem fram kom í ræðu formanns nefndarinnar. Má þar t.d. nefna liði sem varða menningar-, menntamál og listir, ýmsa smáliði til félagasamtaka, leikfélaga og annarra slíkra aðila upp á 15-20 millj. kr. og eins hafa málefni fatlaðra fengið nokkra umfjöllun í nefndinni og allverulega hækkun til rekstrarliða og mun sú hækkun einnig nema svipaðri upphæð, um 20 millj. kr.

Mikil umræða hefur orðið um málefni fatlaðra nú síðustu dagana og vissulega má taka undir það með hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur að þessi umfjöllun hefur leitt hugann að því að viðhorf fólks til þessa málaflokks hefur breyst, ekki bara nú að undanförnu heldur miklu fremur á undanförnum árum. Ég hygg að þess megi líka sjá allnokkur merki. Ég held að eitt það merkilegasta í þessu sé sú viðhorfsbreyting að vandamál þessa fólks eru tekin þeim tökum að það er flutt út af stórum stofnunum í smærri einingar, í sambýli og aðrar þjónustustofnanir, þar sem þetta fatlaða fólk kemst nær samfélaginu og viðhorf annarra þjóðfélagsþegna hafa gjörbreyst. Það má líka benda á það að í ræðu, sem formaður Þroskahjálpar, Eggert Jóhannsson, flutti á svokallaðri skammdegisvöku Þroskahjálpar og Öryrkjabandalagsins í gær, sagði hann m.a. að þrátt fyrir allt og allt hefði mikið áunnist, það mikið að hægt væri að tala um byltingu í málefnum fatlaðra á ýmsum sviðum á liðnum árum. Þó að mönnum finnist e.t.v. að fjárfestingarsjóðurinn, Framkvæmdasjóður fatlaðra, hafi ekki notið þeirrar fyrirgreiðslu sem honum hefði borið og hann á með réttu skv. lögum, þá er það með hann eins og aðra fjárfestingarsjóði að þar höfum við gripið til skerðingar. Því er ekki að neita. En vonandi viðurkenna menn þó að hér hefur verulega áunnist og e.t.v. er ekki öll nótt úti að eitthvað megi þarna laga enn til.

Nefndin á eftir að fjalla um nokkra þætti aðra. Verður það gert við 3. umr. Stærstu upphæðirnar í því sambandi eru í heilbrigðis- og tryggingakerfinu. Ég nefndi áðan Tryggingastofnun ríkisins en auk þess má nefna ríkisspítalana og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þá er einnig eftir að athuga nánar málefni Háskóla Íslands, sérkennslumál í grunnskólum, sérverkefni á vegum Orkustofnunar í tengslum við fiskeldi, B-hluta stofnanir og heimildir skv. 6. gr. frv., svo að einhverjir þættir séu nefndir. Af þessu er ljóst að útgjöld fjárlaga næsta árs eiga eftir að aukast verulega og þar með rekstrarhalli ríkissjóðs. Auðvitað er þetta verulegt áhyggjuefni og að mínu áliti væri nauðsynlegt að leita ríkissjóði nýrra tekjuöflunarleiða. Hitt er einnig vitað að nýgerðir kjarasamningar og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við þá binda nokkuð hendur manna í þessu sambandi. Má t.d. benda á yfirlýsingu hæstv. fjmrh. um að fallið sé frá fyrirhugaðri álagningu svokallaðs orkugjalds að upphæð 600 millj. kr. sem beinlínis er þessu tengd.

Það sem hins vegar er nauðsynlegt að gera, og allir eru vonandi sammála um, er að herða skattinnheimtuna og sjá til þess að allir þegnar greiði til samfélagsins það sem þeim ber. á þessum málum verður að taka af enn meiri festu en gert hefur verið hingað til. Það er hlutverk hæstv. fjmrh. að móta reglur í því skyni og fylgja þeim fast eftir.

Þann halla sem augljóst er að óhjákvæmilega verður á fjárlögum næsta árs verður að brúa með innlendum lántökum. Það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að auka ekki erlendar lántökur og er það áréttað í yfirlýsingu hennar vegna kjarasamninganna að takmarka erlendar lántökur og leita í þess stað allra leiða til að erlend lántaka verði ekki umfram afborganir á næsta ári. Svo er jákvæðum árangri í efnahagsmálum okkar fyrir að þakka að líklegt er að fá megi innlent lánsfé til að standa við þetta fyrirheit. M.a. er álitið að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna verði meira en áður var ráð fyrir gert og hægt sé að beina lántökum fjárfestingarlánasjóðanna til lífeyrissjóðanna í meira mæli en fyrirhugað var.

Talandi um nýgerða kjarasamninga og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar verð ég að láta þá skoðun mína í ljósi að ég tel ríkisvaldið þar hafa lofast til að taka á sig ýmsar skuldbindingar sem kostar sitt að standa við og hljóta að hafa ýmiss konar hliðarverkanir sem ég hef velt fyrir mér hvort samningsaðilar hafi gefið nægjanlegan gaum. Aukin sókn opinberra aðila á innlendan lánsfjármarkað hlýtur að hafa þá hættu í för með sér að vextir hækki. Vaxtahækkun kemur síðan verst við þá skuldugu húsbyggjendur sem aðilar vinnumarkaðarins báru svo mjög fyrir brjósti við gerð kjarasamninganna s.l. vetur. Vaxtahækkun er einnig þung í skauti fyrir atvinnulífið en þar er einmitt þörf fyrir þróttmikla uppbyggingu nýrra atvinnugreina, m.a. vegna óhjákvæmilegs samdráttar í hefðbundnum landbúnaði og þeirra áhrifa sem sá samdráttur hefur á atvinnulíf kauptúna og kaupstaða um allt land.

Skorður við gjaldskrárhækkunum opinberra stofnana draga úr möguleikum þeirra til nauðsynlegrar fjárfestingar, viðhalds og endurnýjunar og að fenginni reynslu óttast ég að það kunni að koma hlutfallslega verr við landsbyggðina en þéttbýlið á suðvesturhorninu þó ekki sé nema af þeirri ástæðu að framkvæmdir og starfsemi af hálfu opinberra aðila vega þyngra og eru stærri hluti af atvinnulífi landsbyggðarinnar en hér á höfuðborgarsvæðinu. Sama á við um skorður á aukinni tekjuöflun ríkissjóðs.

Vafalaust segja höfundar kjarasamninganna að þetta sé mál sem ríkisvaldið verði að takast á við með aðhaldsaðgerðum og sparnaði og sjálfsagt er að leita allra leiða í því sambandi hvað hina ýmsu rekstrarliði varðar. En samdráttur í fjárfestingu og e.t.v. í opinberum rekstri einnig mun óhjákvæmilega hafa þær afleiðingar sem ég hef áður lýst og hver eru þá viðhorf landsbyggðarfólksins sem undirritaði kjarasamningana með þessum skilyrðum og slíkri kröfugerð á hendur ríkisvaldinu? Ég er ekki viss um að þetta ágæta fólk hafi hugað að öllum þáttum málsins.

Eitt atriði enn varðandi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninganna langar mig að nefna, en það er ákvæðið um skipulagningu og verðstýringu á innlendri matvöruframleiðslu. Telja aðilar vinnumarkaðarins virkilega að bætt skipulag á framleiðslu ýmissa landbúnaðarafurða hljóti undir öllum kringumstæðum að vera óhagkvæmt fyrir launþega og/eða neytendur og lögmál markaðar eða jafnvel frumskógar séu best til þess fallin að gæta hagsmuna umbjóðenda þeirra? Ég leyfi mér að efast um það ef allar hliðar málsins eru skoðaðar. Og mig langar að nefna eitt lítið dæmi í þessu sambandi.

Norður við Eyjafjörð er sveitarfélag sem orðið hefur fyrir verulegum áföllum í atvinnulífinu á þessu ári. Þetta er Svalbarðsstrandarhreppur í Suður-Þingeyjarsýslu. Þar er þó enn starfandi kartöfluverksmiðja og allstórt kjúklingabú sem veita töluverðum fjölda fólks atvinnu. Ef skipulagsleysi og frumskógarlögmál leiða hins vegar til þess að þessi atvinnustarfsemi leggst einnig niður, þá veit ég hverjum verður um kennt. Ég á ekki von á því að þeim aðilum verði kennt um sem kröfðust yfirlýsinga af stjórnvöldum í þessa veru.

Þykir nú sjálfsagt einhverjum nóg fjallað um kjarasamningana og vil ég að lokum aðeins segja um þá að vissulega er sú stefna að hækka lægstu launin mikilvægt skref í rétta átt og gerir þessa samninga eftirminnilega og það skiptir að sjálfsögðu mestu máli og ræður úrslitum um að ríkisstjórnin taldi sér skylt að koma til móts við samningsaðila með títtnefndri yfirlýsingu þó að hún hljóti óhjákvæmilega að kosta sitt.

Varðandi fyrirspurnir hv. þm. Karvels Pálmasonar er best að hæstv. ráðherrar svari þeim eins og þm. reyndar beindi til þeirra, en eins og hann hlýtur að hafa heyrt, þá hef ég sett fram ýmsar vangaveltur um þessa yfirlýsingu og þær afleiðingar sem hún kann að hafa. Það sem ég óttast mest í þessu sambandi er sá tilflutningur fjármagns og samdráttur í opinberum framkvæmdum sem ég tel geta leitt af þeim skilyrðum sem opinberum aðilum eru sett. Má í því sambandi einnig minna á tilfærslu fjármagns lífeyrissjóðanna til húsnæðiskerfisins sem gæti þýtt það að fjármagnið flyttist í miklum mæli frá einum landshluta til annars ef verulegt misvægi verður á byggingarframkvæmdum milli einstakra landshluta.

Herra forseti. Ég hef e.t.v. farið nokkuð út fyrir umræðuefnið eða dagskrármálið en vil að lokum leggja áherslu á að ef við eigum að geta staðið við það velferðarþjóðfélag sem við höfum að undanförnu verið að byggja upp og haldið áfram að veita fé til sameiginlegra verkefna, hvort sem er á sviði menntamála, heilbrigðismála, félagsmála eða á öðrum mikilvægum sviðum, verður okkur að takast að halda uppi öflugu og þróttmiklu atvinnulífi sem getur greitt mannsæmandi laun.

Hv. þm. Geir Gunnarsson sagði í ræðu sinni hér áðan að þessi ríkisstjórn hefði hlíft fyrirtækjum. Ég minnist þess að í upphafi þessa stjórnartímabils voru gerðar breytingar á skattalögum til þess að styrkja fyrirtækin og til þess að efla atvinnulífið og e.t.v. kann sterkari staða þeirra að hafa gert þá kjarasamninga mögulega, sem nú hafa nýlega verið undirritaðir, og þá stefnubreytingu sem í þeim felst. Þetta vildi ég nefna hér og árétta og við eigum ekki alltaf að líta svo á að það sé nauðsynlegt að fyrirtæki séu rekin á svokölluðum núllgrunni því að þá getum við ekki heldur vænst þess að þau standi undir þeim kröfum sem við gerum til þeirra og við ætlumst til þess að þau haldi uppi öflugu atvinnulífi og greiði þau laun sem fólk getur lifað af.

Við verðum að tryggja tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og leita leiða til þess að gera það réttlátara en það er í dag. Vonandi má treysta á samstarf aðila vinnumarkaðarins í þessu efni og vonandi skilja þeir mikilvægi hinna fjölmörgu þátta samneyslunnar. Aðeins með því móti getum við haldið áfram að veita fé til íþrótta og æskulýðsmála, til málefna fatlaðra og ýmissa annarra málaflokka sem við viljum halda áfram að styrkja og efla.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka meðnefndarmönnum mínum og formanni nefndarinnar, starfsmanni nefndarinnar og starfsfólki Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, svo og ekki síst starfsfólki þingsins, sem vinnur úti í Þórshamri og hefur haft alls lags óþægindi og ónæði af störfum fjvn. nú sem ávallt áður, fyrir mjög gott samstarf við erfitt verkefni á undanförnum vikum.