12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

1. mál, fjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir þær þakkir sem fram hafa komið í ræðum hv. þm. til fjvn. og formanns hennar fyrir mikil og erfið störf. Víst er það svo að fjvn. á enn eftir að vinna mikið starf áður en að lokaafgreiðslu fjárlaga kemur.

Hér hefur verið vikið nokkuð að stöðu ríkissjóðs og áhrifum ríkisfjármála á efnahagslífið í heild og þó að eðlilegra sé að taka þær almennu umræður upp við lokaafgreiðslu eða 3. umr. fjárlaga, þá hefur að þessum þáttum verið vikið. Nú er það auðvitað á þann veg að nokkur óvissa ríkir um það við 2. umr. hver endanleg niðurstaða getur orðið í þessum efnum, en hitt liggur ljóst fyrir að markvisst hefur verið stefnt að því með árangri að draga úr halla ríkissjóðs, en um það voru teknar pólitískar ákvarðanir að gera ekki tilraun til þess að ná þeim halla niður í einu vetfangi. Þessi halli jókst verulega eins og menn muna með þátttöku ríkisins í lausn kjarasamninga í byrjun þessa árs. Þá voru gerðar ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum sem bornar voru hér undir Alþingi og ég man ekki betur en að bæði Alþfl. og Alþb. hafi staðið að án þess að gera brtt. þar um við þá afgreiðslu.

Þetta eru atriði sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar talsmenn þessara flokka býsnast nú yfir halla á fjárlögum. Við höfum áður rætt nauðsyn þess að ná niður verðbólgunni og sáttum á vinnumarkaði og við töldum það rétt og skynsamlegt að færa nokkrar fórnir varðandi markmiðið um hallalausan ríkisrekstur til þess að ná öðrum mikilvægum efnahagslegum áformum eins og lækkun verðbólgu og kaupmáttaraukningu. Til þess þurfti sátt á vinnumarkaði og ríkisfjármálunum var beitt með þessum hætti í þeim tilgangi.

Hv. 3. þm. Vestf. flutti hér ræðu og mælti fyrir nál. og stefnu Alþfl. í ríkisfjármálum. Einhvern veginn fannst mér nú að ræðan væri þess eðlis að hana mætti flokka undir það sem meistari Þorbergur kallaði ruglandi og kannske ástæðulaust að fara mörgum orðum þar um. En það er athyglisvert að uppistaðan og ívafið í nál. fulltrúa Alþfl. í fjvn. við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1987 eru tillögur sem Alþfl. flutti við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1986 fyrir heilu ári síðan og hefur ekki treyst sér til að flytja aftur. Það er athyglisvert að þetta eru tillögur sem Sighvatur Björgvinsson, þáv. varaþm. Vestf., hafði forustu um í þingflokki Alþfl. og mælti fyrir hér á Alþingi. Og kannske er það ekki tilviljun, einmitt vegna þess að hann var aðalhöfundur þessara tillagna og aðaltalsmaður, að hann féll í málefnalegu prófkjöri sem Alþýðuflokksmenn héldu vestur á fjörðum fyrir skömmu. En það er kyndugt að það eina sem Alþfl. getur bent á í þessari umræðu skuli vera að hann hafi flutt tillögur við afgreiðslu fjárlaga í fyrra sem hann treysti sér ekki að endurflytja nú og það sé allt og sumt sem þeir hafi að segja um ríkisfjármálin.

Hv. þm. hélt því fram, að vísu ekki með miklum sannfæringarkrafti, að það væri nú öðruvísi ástatt í ríkisfjármálum ef þessar tillögur hefðu verið samþykktar. Þó hefur margsinnis verið upplýst í umræðum hér á Alþingi að útreikningar staðfesta að hallinn á fjárlögum væri 500 millj. kr. meiri ef allar þessar tillögur hefðu farið í gegnum Alþingi og verið samþykktar á þinginu í fyrra. Það er nú allur árangurinn af þessum miklu kerfisbreytingum. Ef ég man rétt hljóðaði ein þeirra svo: Kennaraháskóli Íslands, liðurinn falli niður.

Hv. þm. Karvel Pálmason gerði mikið úr bréfi sem Ferðamálaráð hefði skrifað þingmönnum og kvartaði undan því að ekki hefðu fengist við því viðbrögð og ekki væri ætlunin að veita nógu miklu fjármagni til Ferðamálaráðs. Þetta sagði hann í sömu ræðu og hann mælti fyrir þessu nál., en í þessu nál. kemur fram að a.m.k. í fyrra ætlaði Alþfl. að leggja Ferðamálaráð niður. Í sömu ræðunni er sem sagt flutt bólgin ræða um að það skorti nú verulega á aukið fjármagn og það hefði nú farið betur á því að samþykkja þessar miklu kerfisbreytingartillögur því að þá hefði Ferðamálaráð einfaldlega verið lagt niður og, eins og þar segir, sá kostnaður fluttur yfir til viðkomandi atvinnuvega eða samtaka þeirra í þeim tilgangi að útrýma velferðarkerfi atvinnuveganna. Þetta er nú samræmið í öllum þessum málflutningi.

Ég ætlaði svo, herra forseti, vegna fsp. um framlög í Framkvæmdasjóð fatlaðra, að taka það fram að ég hef að höfðu samráði við hæstv. félmrh. ákveðið að veita vegna framkvæmda og skuldbindinga á þessu ári aukafjárveitingu á þessu ári upp á 12 millj. kr. til þessa málaflokks. Áður höfðu á árinu 1985 verið veittar 10 millj. kr. þannig að eftir stendur þá 19 millj. kr. skerðing eftir af framlagi Erfðafjársjóðs til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, en sú skerðing var 41 millj. kr. eins og upplýst var hér á Alþingi fyrir skömmu í fyrirspurnatíma.

Í ljósi þess að Alþingi stefnir nú að því að gera breytingar á ýmsum framkvæmdaliðum og þó að nauðsynlegt sé að gæta aðhalds í þeim efnum og óhjákvæmilegt sé að skerða ýmis lagaákvæði, hef ég enn fremur ákveðið að beita mér fyrir því að við 3. umr. hækki framlagið, sem skv. fjárlagafrv. er 100 millj. kr., í 130 millj. kr., eða um 30 millj. kr., og þá hefur framlagið hækkað frá því á þessu ári úr 80 millj. kr. í 130 millj. kr. eða um 50 millj. kr. Það er flestum ljóst að hér er um mjög mikilvægt málefni að tefla. Verulegum fjármunum hefur verið varið til þessa málaflokks en við þurfum að sinna hér hraðri uppbyggingu. Ég geri mér grein fyrir því að ýmsir geta fært fyrir því, og er auðvelt að færa fyrir því sterk rök, að hér þyrfti meira fjármagn og mundi það vafalaust koma að góðum notum.

Með þessum breytingum, sem ég hef ákveðið að beita mér fyrir, vænti ég þess að unnt verði að stíga stærri skref í málefnum fatlaðra á næsta ári og að um það geti tekist samstaða að ná þeim breytingum fram.