12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

1. mál, fjárlög 1987

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er ekki oft sem maður getur glaðst yfir ræðum hæstv. fjmrh. en í þetta skipti gladdi ræða hans hjarta mitt þó nokkuð með þeim yfirlýsingum sem hann kom með og ég kem að hér síðar.

Fjárlagafrv. hafa verið gerð ítarleg skil af talsmanni Alþb., hv. þm. Geir Gunnarssyni, og megineinkenni skýrð og annmarkar dregnir fram í dagsljósið. Það er rétt sem þar kemur fram að góðæriseinkennin eru óvíða sjáanleg þar sem þau helst þyrftu að sjást. Það er samt þó nokkuð klórað í bakkann varðandi sum framkvæmdaframlög, enda kosningar í vor og nestun frambjóðenda stjórnarliðsins er öllu skárri fyrir bragðið en hún hefur verið að undanförnu en nægir þó ekki einu sinni til að bæta fyrir niðurskurð síðasta árs, hvað þá hrikalegan heildarniðurskurð kjörtímabilsins, og ég er hræddur um að það verði nokkuð léttur malpoki sem þessir aðilar bera fyrir sína kjósendur í vor þegar þeir eiga að leggja kjörtímabilið allt til grundvallar.

Ég mæli hér fyrir brtt. sem snertir einmitt það mál sem hæstv. fjmrh. kom inn á. Við vorum minnt rækilega á þetta mál í gær og það hefur greinilega haft sín áhrif þar sem samtök fatlaðra héldu veglega skammdegisvöku og báðu þingmenn um leið að halda vöku sinni nú við afgreiðslu fjárlaga, minntu á vanrækt verkefni og verulegan niðurskurð í miðju góðærinu. Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur fengið mjög slæma meðferð við afgreiðslu fjárlaga nú að undanförnu og fær það raunar enn þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. fjmrh. Lögbundin framlög hafa verið skert svo mjög af ríkisstjórninni að þau nema aðeins, samkv. frv. nú, þriðjungi þess sem vera ætti og rúmum helmingi þess sem vera ætti miðað við þá breytingu sem hæstv. fjmrh. var að lýsa yfir að hann mundi beita sér fyrir hér áðan. Við þekkjum vel þessa sögu því að Þroskahjálp, landssamtökin, hafa minnt á þetta í öllum þingflokkum að undanförnu og vökufólkið í gær ítrekaði rækilega og áréttaði staðreyndir.

Ég hef rakið þetta mál áður í vetur í tengslum við frv. til lánsfjárlaga og svo varðandi fsp. um oftekna fjármuni af erfðafjárskatti beint í ríkissjóð fram hjá Framkvæmdasjóði fatlaðra. Nú lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að hann hefði enn komið nokkuð til móts við Framkvæmdasjóð fatlaðra í þessum efnum. Áður hafði hann veitt 10 millj. í aukafjárveitingu eða 1/4 af því sem oftekið hafði verið - og kemur það svolítið kynduglega fyrir sjónir að þegar búið er að ræna einn sjóð sé hægt að tala um aukafjárveitingu til hans á móti - og nú 12 millj. til viðbótar. Engu að síður er helmingurinn eftir enn sem rennur fram hjá Framkvæmdasjóði fatlaðra fyrir þetta ár af tekjum Erfðafjársjóðs en eins og lög segja til um eiga tekjur af erfðafjárskatti að renna óskertar í Framkvæmdasjóð fatlaðra.

Við þekkjum meginröksemdina fyrir skerðingu fjár til Framkvæmdasjóðsins. Það hefur verið talað um það að margföldun raungildis hafi orðið til málefna fatlaðra. M.a. hefur það verið tíundað úr þessum ræðustól og í útvarpsumræðum svo listilega að Sölvi heitinn Helgason hefði verið fullsæmdur af þeim reikningskúnstum sem þar hafa verið viðhafðar. Af því að hæstv. forsrh. er hér í salnum: Hann lét svo blekkjast af þessum talnaleik að í setningarræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins sagði hann að framlög til þessa málaflokks hefðu tuttugufaldast og hefur nú sjaldan skeikað svo rækilega hjá þessum hæstv. ráðh. þó að oft hafi hann nú farið frjálslega með staðreyndir. Vissulega hefur málaflokkurinn fengið aukið fjármagn og lög kveða svo á um og þessi málaflokkur var vitanlega svo langsveltur að margföldun hefði verið nauðsyn. En hvað kemur svo í ljós, ekki samkvæmt fullyrðingum mínum hér eða annarra þingmanna heldur samkvæmt mjög vandaðri úttekt Þroskahjálpar sem þingmenn hafa nú fengið í hendur. Þar kemur það fram í úttekt þeirra félaga Bjarna Kristjánssonar á Akureyri og Friðriks Sigurðssonar, starfsmanns svæðisstjórnar á Reykjanesi, mjög vandaðri úttekt sem hefur m.a. verið gerð í samráði við fjmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun, að margföldunin mikla, sem hefur verið tíunduð úr þessum ræðustól til þessa málaflokks, er tvöföldun, vissulega gott, á raungildi til þessa málaflokks á þessum árum frá því að lögin um öryrkja og þroskahefta voru sett hér 1980 og fram til ársins 1986. Þar höfum við það svart á hvítu, hvað svo sem einstakir ráðherrar segja um jafnvel allt að tuttuguföldun raungildisaukningar til þessa málaflokks. Það er því ekki unnt að réttlæta skerðingu þessa sjóðs með þessu einu sinni, enda er það ljóst að á þróun hefur hægt mjög verulega af þessum sökum og á enn eftir að gera.

Ég ætla ekki að rekja það hvernig kjörtímabil núv. ríkisstjórnar hefur verið með eindæmum varðandi Framkvæmdasjóðinn. Ég hef minnt á það áður að raungildi fjár til sambærilegra sjóða með þó miklu veigaminni verkefni og færri var 1980-1983 að meðaltali 155 millj. á ári, en árið 1984-1986 er raungildistalan um 95 millj. kr. aðeins með fjölþættari og fleiri lögbundnum viðfangsefnum. Og þegar þessum 12 millj. hefur verið bætt við, sem hæstv. fjmrh. var að geta um núna, mundi þessi tala vera rétt tæpar 100 millj., svo að allrar sanngirni sé gætt. Þessa dapurlegu sögu geymir þessi bók þeirra félaga Bjarna Kristjánssonar og Friðriks Sigurðssonar og hún verður í engu hrakin.

Hins vegar vilja menn kannske spyrja, í ljósi þess sem ég hef oft áður sagt um skerðingu þessa sjóðs og þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. fjmrh. áðan um nokkra úrlausn, hvers vegna þessi hógværð er höfð um 180 millj. þegar nær væri að tala um 250 millj. Röksemdir þeirrar hækkunartillögu, sem ég hef flutt hér ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og Svavari Gestssyni, eru teknar annars vegar beint frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun sem viðurkennir þó 50 millj. kr. vanefndir ríkisframlags og að viðbættum 30 millj., sem nú eru reyndar ekki orðnar nema 19, sem runnu í ríkissjóð fram hjá Framkvæmdasjóði á þessu ári samkvæmt upplýsingum fjmrh. og hann ítrekaði hér áðan. Þetta eru þeirra tölur beint og því rétt að láta á þær reyna. Til móts við þetta ætlar hæstv. fjmrh. að koma með 42 millj. eða um helming þess sem er lagt til á minni brtt. og vissulega er það meiri viðleitni en áður hefur verið, enda hafa Samtök fatlaðra talað um það að ef engin leiðrétting fengist væru þau jafnvel að hugsa um að bjóða fram. Og jafnvel þann stóra flokk, Sjálfstfl., munar kannske um það í öllu sínu veldi hér í Reykjavík ef fatlaðir, sem hafa stutt þann flokk, svo undarlegt sem það er nú, færu nú að yfirgefa hann og kjósa sérlista sem fatlaðir byðu fram. Það er eflaust aðalástæðan fyrir þeirri góðvild sem nú allt í einu blasir við á síðustu stundu og er mjög óvænt frá hæstv. fjmrh. en skal engu að síður þakkað fyrir því batnandi mönnum er best að lifa.

Hins vegar vil ég benda á að hér er auðvitað ekki sögð nema hálf sagan. Það er sagt núna að tekjur af erfðafjárskatti á næsta ári verði 48 millj. Það hafa menn í grg. með fjárlagafrv. og eins varðandi frv. til lánsfjárlaga. Þykir mönnum trúlegt að það verði rauntalan í ljósi þess að talan fyrir þetta ár er 61 millj.? Það er alveg útilokað mál í raun og veru, þannig að þessar 48 millj. gætu allt eins orðið 68 millj. á næsta ári eða 78 millj. ef því væri að skipta. Ef farið væri svo eftir réttum verðtryggingarákvæðum samkvæmt því áliti sem fylgir með í þessari bók sem allir þingmenn, trúi ég, hafa fengið, mætti samkvæmt áliti prófessors Sigurðar Líndals bæta um 50 millj. enn við til þess að við lög væri staðið varðandi Framkvæmdasjóðinn. Ég kaus hins vegar að fara hóglega og hóflega í sakirnar og því er þessi tala sett fram og engu öðru trúað en að enn frekar jafnvel verði til móts við hana komið en hæstv. fjmrh. kom inn á áðan.

Samtök fatlaðra bentu alveg sérstaklega á húsnæðisneyðina, vöntun á sambýlum t.d. Ég vil benda á að 80 millj. kr., sem kæmu til viðbótar við Framkvæmdasjóð fatlaðra, mundu þýða mjög mikið í þessum efnum, 10-12 sambýli a.m.k., og mundu létta einmitt á þessari hrikalegu neyð sem kreppir svo mjög að stórum hópum fattaðra í dag.

Mig hefði langað til í framhaldi af þessu að ræða fjöldamörg málefni fattaðra en ég tel að ekki sé tími til þess og ekki ástæða til að lengja umræður varðandi það. Bifreiðakaup þeirra og hvernig frá þeim hefur verið gengið nú er eitt þeirra mála sem Alþingi verður að taka afstöðu til. Um það hefur verið flutt sérstök þáltill. og ég vonast til þess að hún fái jákvæða afgreiðslu þannig að hlutur öryrkja verði bættur í þeim efnum.

Í ferlimálum fatlaðra þarf auðvitað að gera stórátak og þetta hús hér er náttúrlega einna gleggst vitni um það hversu mikið er óunnið í þeim efnum.

En lífeyrir þessa fólks, það sem það hefur til þess að lifa af, eins og komið hefur verið inn á af fleiri hv. ræðumönnum, er þó fyrst og síðast það sem skiptir máli. Í svari við fsp. minni á dögunum hét heilbrrh. verulegum hækkunum, enda óhjákvæmilegt að verða við því í kjölfar þeirra kjarasamninga sem gerðir voru á dögunum og í kjölfar þess að verkalýðshreyfingin lagði þar beinlínis drög að því við ríkisstjórnina að séð væri til þess og það tryggt að bætur almannatrygginga hækkuðu verulega í kjölfar samninganna með þeim sérstöku láglaunabótum sem þar urðu ofan á blessunarlega. Ef ekki þarf láglaunabætur þarna veit ég ekki hvar þeirra er þörf því að grunntalan þarna í dag með tekjutryggingu og öllu er líklega 16 500 kr. eftir hækkunina 1. des. En um þetta skal allt fjallað síðar.

Lítil till. er hér frá mér nr. 4 á þskj. 290 sem ég flyt ásamt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um framlag til Kirkjumiðstöðvar Austurlands. Ég held raunar að þessi beiðni um framlag til Kirkjumiðstöðvar Austurlands, sem fékkst fram í fyrra, hljóti að hafa lent milli þils og veggjar hjá fjvn. og muni fást leiðrétting á því við 3. umr.

Eins og fram hefur komið áður á þingi gegnir Kirkjumiðstöð Austurlands veigamiklu hlutverki þar eystra. Hún á að þjóna æskulýðsstarfi annars vegar og starfi fyrir aldraða hins vegar fyrst og síðast. Verkefnið er komið vel á veg og starfið hefur verið rækt á Eiðum undanfarin sumur við góðan orðstír og almenna ánægju allra. Ég held að þarna sé um þýðingarmikið uppbyggingarstarf að ræða, aðhlynningarstarf um leið, og óhjákvæmilegt að komið verði vel til móts við þessa þörfu starfsemi sem nýtur mikils og verðskuldaðs stuðnings í fjórðungnum og hefur í raun og veru gert kleift að vinna svo að þessu máli þó að Alþingi hafi lítillega stutt þetta og þurfi að styðja áfram. Vissulega þyrfti upphæðin að vera hærri en hjálp yrði veruleg af þessu framlagi sem við leggjum hér til, því að hér er um dæmigert málefni að ræða sem á að styðja og styrkja og frjáls félagasamtök þurfa að fá vissa uppörvun og vissan stuðning við það sem svo vel er að unnið.

Aðeins svo í lokin: Það mun hafa verið haldin í dag vegleg - og kannske stendur hún enn flugmálaráðstefna og það skal ekki lastað. Vonandi hefur eitthvað komið þar fram sem græða má á. En framar öðru: Vonandi fylgir eitthvað annað í kjölfarið, eitthvað annað en þær upphæðir til flugmála sem sést hafa að undanförnu og sú upphæð sem enn er þar á blaði. Við sem búum við ónýtan flugvöll fyrir nær heilan landshluta, torfæruakstursbraut, eins og flugstjórar nefna Egilsstaðaflugvöll, hljótum að vekja athygli á því enn einu sinni hvílíkt hörmungarástand ríkir þar eystra, hvílíkt hættuástand er þar á ferð. Vissulega er ráðstefna góð því orð eru til alls fyrst en þau orð megna ekki að gera unandi flugbraut á Egilsstöðum ef aldrei á að gera annað en að tala um það að þar skuli byggt og það skuli leita leiða til þess að byggja nýjan flugvöll.

Ég vil gera það að mínum lokaorðum að við skulum sannarlega vona að engir válegir atburðir gerist vegna þessarar vanrækslu undangenginna ára en það er hart að horfa upp á, þegar margföldum upphæðum er varið í sérstakt uppáhaldsverkefni stjórnarflokkanna suður á Miðnesheiði, flugbrautina á Egilsstöðum eins og hún er, gjörófæra og stórhættulega. Fjármagnið er til og mættum við nú óska þess að við fengjum að njóta þess svo að forðað verði stóráföllum í þessum efnum.