12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1379)

1. mál, fjárlög 1987

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er harla sjaldgæft að ég flytji brtt. við fjárlagafrv., en ég geri það þó núna, reyndar einungis eina. Hún fjallar um málefni Háskóla Íslands og framlög til framkvæmda og viðhalds á hans vegum. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa séð aðstöðu nemenda og kennara í Háskólanum, en það er í raun hörmungarsjón. Margir nemendur hafa ekki betri aðstöðu en svo undir fyrirlestrum að þeir verða að skrifa á hnjám sér. Þeir sitja jafnvel í gluggakistum vegna þess að stólarými er ekki fyrir hendi eða þeir sitja svo þétt að þeir verða að klofa hver yfir annan til þess að komast inn og út úr fyrirlestrastofunum. Ég veit ekki heldur hvort hv. þm. hafa séð þær kompur sem kennurum skólans er troðið inn í.

Ég held að það sé hættulegt ef ekki er búið vel að æðstu menntastofnun þjóðarinnar, Háskólanum, þannig að hann rísi undir nafni. Í raun á Háskólinn að vera stolt okkar og ég tel að það sé brýn nauðsyn fyrir litla þjóð eins og Íslendinga, sem reyndar er stolt af menningararfi sínum, að hafa góðan háskóla, háskóla sem stenst samanburð við erlendar stofnanir af sama toga.

Menn tala gjarnan í þingsölum um nýjar atvinnugreinar og vaxtarbrodda í atvinnulífinu. Menn tala um nýtækni, líftækni, hugbúnað, tölvuvæðingu og fleira af því tagi. Í mínum huga er þetta innantómt hjal og reyndar til vansa meðan menn vanrækja þá stofnun sem einmitt mundi sjá til þess að Íslendingar gætu eitthvað hreyft sig á þessu sviði.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að Háskólinn njóti virðingar. Þess verður oft vart að menn tali með lítilsvirðingu um nám þeirra sem eru í Háskólanum. Það hafa sumir hv. þm. gert, en síðan skipt um skoðun þegar börn þeirra eru komin í Háskólann og þeir sjá að nemendur þar vinna hörðum höndum því að kröfurnar eru miklar.

Á síðustu 16 árum hefur nemendafjöldi Háskólans þrefaldast, úr 1250 nemendum í 4565. Háskólinn mun vera til húsa í u.þ.b. 30 byggingum. Háskólinn hefur, eins og þessi lýsing mín gefur til kynna, ekki aðstöðu til að taka við þessum nemendafjölda og sinna þeim kröfum sem til hans eru gerðar. Ég held að það sé hægt að taka undir með rektor Háskóla Íslands þegar hann segir: „Vilji Íslendingar í raun vera gjaldgengir meðal þekkingarþjóðfélaga er nauðsyn að hraða uppbyggingu Háskólans.“ Sjálfsaflafé Háskólans nægir ekki til að fjármagna nauðsynlegt viðhald húsa, tækjakaup og viðunandi framgang nýbygginga.

Það er af þessum ástæðum, herra forseti, sem ég hef flutt brtt. við frv. til fjárlaga þess efnis að til byggingarframkvæmda verði ekki 75 millj. kr. heldur 130 millj. kr. og að til viðhalds vegna fasteigna verði ekki 15 millj. heldur 25 millj. kr. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þessa till., en vona að þetta mál fái bærilegar undirtektir.

Ég vil síðan víkja almennt að því fjárlagafrv, sem hér liggur fyrir. Ég held að það sé ekki ofmælt að á þessu fjárlagafrv. sannist enn rækilegar en fyrr að fjárlagagerðin og ríkisbúskapurinn eru komin í algjörar ógöngur. Og ég held að skýringarnar séu tiltölulega einfaldar. Ég held að skýringin sé aðallega sú að allt er njörvað í sömu gömlu föstu skorðurnar. Tekjuöflunin er reist á úreltu og gatslitnu skattkerfi sem þolir ekki þá tekjuöflun sem nauðsynleg er. Þetta viðurkenna í rauninni allir og ég skal víkja að því síðar, en það þýðir líka að það er nauðsynlegt að endurskoða tekjuöflunarkerfið og það hefur dregist úr hömlu að gera það.

Sé litið til útgjaldanna eru þau mörg hver föst í sjálfvirkum kerfum, reyndar á úr sér gengnum forsendum, forsendum sem eru af því tagi að útgjöldin geta gjarnan orðið frekar til ógagns fyrir fólkið í landinu og efnahagslífið en að vera til gagns. Tregðulögmálið ræður sem sagt ríkjum. Menn halda áfram fjárveitingum til þarfa sem eru ekki lengur fyrir hendi og mætti sinna betur með öðrum hætti. En á sama tíma sitja brýn verkefni líðandi stundar á hakanum, verkefni sem brýnt er að sinna vegna þess að þjóðfélagið hefur breyst, en fjárlagaramminn, fjárlagagerðin, undirstöður fjárlagagerðarinnar veita ekki svigrúm til þess.

Það sem er að í fjárlagagerðinni er m.a. og ekki síst það að það er aldrei litið lengra fram á veginn en til næsta árs. Margar breytingar þarfnast langs tíma, lengri tíma en líður frá desember og fram í janúar á næsta ári. Það er þess vegna, vegna þess að menn eru svona skammsýnir, sem þing og ríkisstjórn standa í rauninni ráðþrota við hverja fjárlagaafgreiðsluna á fætur annarri ár eftir ár. Ríkisstjórn og þingmeirihluti fórna í rauninni höndum og geta ekkert annað gert en afgreiða fjárlögin með sívaxandi halla eða sístækkandi gati. Það heyrir svo reyndar til sögunnar að það er reynt að hylja þessi ósköp, þennan halla, eftir mætti með því að þykjast ekki sjá nema einn hlut fjárlaganna, svonefndan A-hluta fjárlaganna, möndla gjarnan með niðurstöðu þess hluta, og það er ekki nýtt að það sé gert, það hefur tíðkast í mörg ár, svo að sú niðurstaða líti sem skást út, en á sama tíma láta menn heildarumsvifin og heildarhallann á ríkisbúskapnum, eins og hann birtist samtals í fjárlögunum í heild og í lánsfjárlögunum, lönd og leið og reyna að gleyma honum. Það er einmitt vegna þess að menn hafa verið að fela vandann og menn hafa ekki horfst í augu við hann sem erlendu skuldirnar hafa hlaðist upp og menn hafa fram á þennan dag klórað sig fram úr fjárlagagerðinni með því að skrifa reikninga á framtíðina.

Það sem þing og ríkisstjórn verða að gera, og það er tillaga okkar Alþýðuflokksmanna og birtist í nál. okkar, er að horfast í augu við þennan vanda eins og hann birtist í heild sinni, horfa á ríkisbúskapinn í heild sinni, bæði fjárlagagerðina og lánsfjáráætlunina og opinberar stofnanir, sem eru jafnvel utan þess ramma í heild sinni, og gera upp ríkisdæmið í heild, og í annan stað að menn horfi lengra fram í tímann en til eins árs. Uppstokkun ríkisfjármálanna tekur nefnilega tíma eins og ég gerði að umtalsefni.

Við viljum að menn setji niður fyrir sér hvernig menn ætla að takast á við þau verkefni sem eru grundvallarverkefni í fjárlagagerðinni og menn setji sér ákveðna áfanga í þeim efnum og ætli sér hæfilegan skammt á hverju ári, menn ætti sér viðráðanlega áfanga og ríkisbúskapurinn verði endurskipulagður þrep fyrir þrep. Meginmarkmiðið væri að fjármálum ríkisins sé stýrt með tilliti til efnahagsástands og þá ekki síst með það að meginmarkmiði að hamla gegn verðbólgu og tryggja trausta atvinnu. En það sem við þurfum að gera er hrein endurskoðun á fjárlagagerðinni, á ríkisbúskapnum. Við verðum að reyta í burtu illgresi og sinu sem hefur sprottið í seinni tíð, brenna sinuna burt og eyða illgresinu og sá til betri uppskeru, bæði í fjárlagagerðinni og að því er varðar hagvöxt og sanngirni í tekjuskiptingu.

Þau atriði sem menn þurfa að líta á og taka fyrir í slíkri áfangaskiptingu eru a.m.k. átta talsins: 1. Skattkerfið og skipulag þess. 2. Húsnæðiskerfið og fjármögnun þess. 3. Landbúnaðarstefnan af sjónarhóli ríkisfjármálanna. 4. Atvinnufyrirtæki með þátttöku ríkisins. 5. Þjónustufyrirtæki ríkisins fyrir atvinnuvegina. 6. Heilbrigðisþjónusta, skipulag hennar og fjármögnun. Er reyndar sú uppákoma sem gerðist og er að gerast varðandi Borgarspítalann afleiðing þess að menn hafa aldrei á undanförnum árum tekist á við hver stefnan ætti að vera að því er varðar bæði skipulag heilbrigðisþjónustunnar og fjármögnun og greiðslufyrirkomulag á þjónustu. 7. Almannatryggingakerfið og hvernig það skuli fjármagnað. 8. Lífeyriskerfið og fjármögnun þess. Þessu má skipta í þrjá hæfilega áfanga þar sem menn ynnu með þeim hætti að ekki einungis væri ákveðið t.d. á næsta ári hvernig fjárlögin ættu að líta út fyrir árið 1988 heldur væri jafnframt þá og þegar á næsta sumri mörkuð meginstefna um hvað það væri sem ætti að gerast ári síðar, þ.e. 1989, þannig að aðdragandinn til framkvæmdanna sjálfra væri eðlilegur og þannig mætti koma fram nauðsynlegum breytingum.

Ég skal nú, herra forseti, víkja aðeins að einstökum þáttum í þessari upptalningu á þeim liðum sem nauðsynlegt sé að taka á í ríkisbúskapnum.

Lítum fyrst á skattakerfið. Það er almenn viðurkenning fyrir því í þjóðfélaginu og líka innan þings að tekjuskattskerfi einstaklinga sé orðið úrelt. Það þjóni ekki því tekjujöfnunarhlutverki sem því sé ætlað. Byrðunum sé ekki réttlátlega dreift. Þetta sé orðinn hreinn launamannaskattur og atvinnurekendur af ýmsu tagi skammti sér sjálfir skatttekjurnar og skattana þá um leið. Það er haft á orði að þeir beri gjarnan „vinnukonuútsvar“ eða „vinnukonuskatta“. Þetta er gamalt orðatiltæki sem lengi hefur lifað í málinu.

Að því er fyrirtækin varðar og tekjuskatta fyrirtækjanna er það svo að vegna fjölmargra ákvæða um skattfríðindi fyrirtækja bera jafnvel vel stæð fyrirtæki litla eða enga tekjuskatta og sífellt er verið að bæta á frádráttarliði sem fyrirtækin geta nýtt sér. Hv. þm. Geir Gunnarsson gerði að umtalsefni áðan hversu mikill munur væri á skattlagningu fyrirtækja hér og t.d. í Bandaríkjunum. Að því er fyrirtækin varðar held ég að leiki enginn vafi á því að við eigum að fara sömu leið og þeir hafa gert í Bandaríkjunum nýlega að grisja frádráttarfrumskóginn í skattlagningarreglu fyrirtækjanna og ætla þeim stærri hlut að greiða til samfélagsins en nú er gert. Ég held að það sé ástæða til að ætla að um þetta geti náðst nokkuð víðtæk samstaða á Alþingi. Sama hlýtur að gilda um tekjuskatt einstaklinganna miðað við þau ummæli, sem hér hafa fallið, að það eigi að geta náðst víðtæk samstaða um að einfalda skattkerfi tekjuskatts einstaklinganna og draga úr tekjuskatti á einstaklinga.

Þessu hafa menn heitið ár eftir ár og fyrir liggja samþykktar þáltill. sem núv. ríkisstjórn hefur svikið jafnharðan. En viljinn er fyrir hendi. Til þess að menn geti gert þetta verða menn að endurskoða skattkerfið í heild sinni þannig að það sé ekki sú götótta flík sem það er nú og geti í stað þess að vera eins og það nú er risið undir þeirri tekjuöflun sem nauðsynleg er til þess að menn hafi svigrúm til ýmissa framfaramála sem nauðsynlegt er að veita fé til en sitja nú á hakanum.

Sömu sögu er að segja af söluskattinum. Það er viðurkennt að hann sé orðinn úreltur og ónýtur. Í skattsvikaskýrslunni frægu er það viðurkennt í raun að þar sé undan stolið á annan milljarð króna. Betri vitnisburð geta menn varla fengið um hversu ónýtt þetta skattkerfi er en að fjmrn. sjálft skuli gefa út skýrslu sem gefur til kynna að undandráttur undan söluskatti sé á annan milljarð króna. En fjmrn. hefur reyndar bætt um betur því í grg. með virðisaukaskattsfrv. segir afdráttarlaust að skattyfirvöld eigi í sívaxandi erfiðleikum með innheimtu skattsins og að gjaldendur séu í sífelldri óvissu um skattskyldu. Þar segir líka að fjölgun undanþága o.fl., þar á meðal hækkun skatthlutfalls, hafi leitt til þess að söluskattur getur ekki lengur gegnt hlutverki sínu í tekjuöflun ríkisins. Þetta er dómur fjmrn. sjálfs um söluskattinn sem okkur er ætlað að samþykkja sem tekjuöflunarkerfi í óbreyttu formi eitt árið enn.

Hæstv. fjmrh. kvartar undan því á hinn bóginn að Alþfl. fáist ekki til að styðja frv. hans um virðisaukaskattinn eins og það liggur nú fyrir. Alþfl. hefur talið að virðisaukaskattur sé betri skattur en söluskattur og að breyting yfir í virðisaukaskatt væri eðlilegt skref og hann telur það enn. En frv. fjmrh. er svo meingallað að við getum alls ekki fylgt því eins og það er úr garði gert. En það eru fleiri, þar á meðal bandamenn fjmrh. sjálfs í Verslunarráði Íslands, sem eru nákvæmlega sömu skoðunar og Alþfl. eins og birst hefur þm. í bréfi í dag. Þetta bréf hefst á þeim orðum að Verslunarráð hafi áður lýst sig fylgjandi að virðisaukaskattur verði upp tekinn í stað söluskatts, en niðurlag bréfsins er á þessa lund:

„Verslunarráð telur galla frv. það veigamikla að það getur ekki stutt það í núverandi mynd.“

Þetta er dómur félaga fjmrh. í Verslunarráði Íslands. Það eru fleiri en Alþýðuflokksmenn sem sjá að frv. fjmrh. er ónýtt. (EgJ: Þið hafið góðan félagsskap.)

Skattkerfisbreytinguna verður að vinna. Hana verður að vinna í góðu tómi og hún verður að vera vönduð, en þá

á saman að fara endurskoðun á tekjuskatti einstaklinga og félaga og breyting úr söluskatti yfir í virðisaukaskatt. Það yrði forgangsverkefni í ríkisstjórn sem Alþfl. tæki þátt í á n.k. ári.

Annan þátt tekjuöflunarkerfisins er líka ástæða til að drepa nokkuð á. Menn sitja uppi með þann kæk hér á Alþingi og í ríkisstjórn að halda dauðahaldi í tugi af smásköttum sem sumir hv. þm., með leyfi forseta, hafa leyft sér að nefna „skítaskatta“. Þessir skattir kosta ómælda fyrirhöfn við álagningu og innheimtu og svara varla innheimtukostnaði. Við höfum áður, þm. Alþfl., flutt till. um að mikill fjöldi slíkra skatta yrði felldur niður. Ég skal ekki telja þá upp, en þeir eru áreiðanlega á annan eða þriðja tuginn. Í þeirri skattahreingerningu sem Alþfl. mundi vilja standa að á komandi ári yrði þetta eitt af því sem gert yrði.

Húsnæðiskerfið og fjármögnun þess. Ég trúi ekki öðru en öllum hv. þm. sé ljóst að það þarf að gera verulegar endurbætur á húsnæðislánakerfinu. Það var stigið stórt skref í því að hækka lánshlutfallið á þessu ári, en fjármögnun kerfisins til lengri tíma litið er öll á brauðfótum. Kerfið er þannig upp byggt að það mun sífellt halla meir og meir undan fæti. Á þessu hefur ekki verið tekið. Húsnæðislánakerfið mun sífellt eiga við meiri og meiri erfiðleika að etja eftir því sem fram í sækir ef ekki verður tekið á fjármögnun þess. Í annan stað er óleyst hvernig eigi að tryggja val fólks, hvort það vill búa í eigin íbúðum eða leigja íbúðir, og við höfum lifað við það mörg undanfarin ár að húsaleiga væri upp úr öllu valdi á Íslandi, hún væri óheyrilega há. Hvers vegna er húsaleiga óheyrilega há á Íslandi? Það er einfaldlega vegna þess að eftirspurninni eftir leiguhúsnæði hefur aldrei verið mætt. Þetta verður að leysa því að þeir eru margir í þessu þjóðfélagi sem geta ekki annað en leigt og það eru margir í þessu þjóðfélagi sem vilja frekar leigja en kaupa jafnvel þótt þeir gætu það.

Í þriðja lagi: Landbúnaðarstefnan frá sjónarhóli ríkisfjármálanna. Það er alþekkt að miklum fjármunum er nú varið af opinberri hálfu til landbúnaðar með ýmsum hætti. Það eru útflutningsbætur, það eru jarðræktarframlög og þar fram eftir götunum. Sumt af þessum framlögum gerir í rauninni hreint ógagn. Það væri betra að borga bændum fyrir að grafa ekki skurði en að borga þeim fyrir að grafa skurði svo dæmi sé tekið. Þennan þátt ríkisfjármálanna verður þess vegna að endurskoða frá grunni. Við höfum áður flutt um það till., Alþýðuflokksmenn, að það væri varið sérstökum fjármunum til að auðvelda bændum að skipta um atvinnulag, atvinnuhætti, búskaparlag eða til að hætta. Eitt af því sem ég er sannfærður um að veldur miklum þrautum meðal bænda í dag er sú óvissa sem þeir búa við, horfandi jafnvel fram á það að eigur þeirra verði einskis virði og þeir hafi hvorki efni á því að halda áfram að búa eða hverfa af jörðum sínum.

Fjórði liðurinn: Atvinnufyrirtæki með þátttöku ríkisins. Við Alþýðuflokksmenn teljum að ríkisvaldið eigi eftir mætti að forðast beina íhlutun í atvinnulífinu, forðast það nema í undantekningartilvikum. Þess vegna eigi að draga úr pólitískri stýringu fjármagns gegnum banka og sjóðakerfi og að við höfum dýrkeypta reynslu af fjárfestingarmistökum sem Alþingi hefur staðið að sem kenni okkur og sanni að Alþingi sé ekki góður vettvangur til að ákveða atvinnuþátttöku og ríkið sé ekki heppilegasti atvinnurekandinn á landinu. Það sem ríkisvaldið á hins vegar að snúa sér sérstaklega að er að tryggja gott skólakerfi og góða heilbrigðisþjónustu svo nokkur dæmi séu tekin. En það eru ýmis atvinnufyrirtæki í eigu ríkisins sem vissulega kemur til greina og ber að skoða að ríkið selji, annaðhvort með húð og hári í heilu lagi ellegar þá að breyta þeim í hlutafélög og selja hlutabréf.

Fimmti liðurinn er þjónustufyrirtæki ríkisins fyrir atvinnuvegina. Það mætti sjálfsagt margt nefna í því sambandi, en ég vísa til þeirra till. sem við höfum flutt áður varðandi þetta efni, Alþýðuflokksmenn, og grg. Karvels Pálmasonar í nál. með þessu fjárlagafrv. En stefnan á að vera sú að flytja til atvinnuveganna ýmsar þær þjónustustofnanir sem þjóna tilteknum atvinnugreinum og að greiðsla fyrir þá þjónustu sem veitt er atvinnugreinunum, sem þola að inna af hendi slíka greiðslu, komi frá atvinnugreinunum sjálfum.

Sjötti liðurinn: Heilbrigðisþjónustan, skipulag hennar og fjármögnun. Ég sagði áðan að uppákoman vegna Borgarspítalans væri fyrst og fremst vegna þess að stefnu hefði vantað í heilbrigðismálum, bæði stefnu varðandi skipulag, varðandi verkaskiptingu og í þriðja lagi varðandi greiðsluform fyrir þjónustu. Ég held að uppákoman varðandi Borgarspítalann sanni okkur betur en nokkru sinni fyrr nauðsyn þess að á þessum þætti verði sérstaklega tekið. Hér hefur ekki verið á tekið í hálfan annan áratug að ég tel. Það skipulag sem við búum við, þau lög sem við búum við varðandi þetta efni, er hálfs annars áratugs gamalt a.m.k. Það er líka ástæða til að lita á almannatryggingakerfið og hvernig það er fjármagnað. Það hefur ekki verið skoðað heldur í ein 20 ár, fjármögnun almannatryggingakerfisins og uppbygging þess. Útgjöldin vaxa og það er ekki nema von, en við skulum gæta að því hvernig við getum nýtt almannatryggingakerfið með sem bestum hætti og við skulum minnast þess að þjóðfélagið er sífelldlega að breytast og það kallar á endurskoðun.

Áttundi þátturinn sem við höfum talið upp sem áfanga er lífeyriskerfið og fjármögnun þess. Ég skal ekki fjölyrða um það því um það efni hef ég fjallað allnákvæmlega áður á þessu þingi úr þessum stól.

En það er ýmislegt fleira varðandi endurskipulagningu fjárlaganna sem er ástæða til að drepa á. Það verður að koma kostnaðarhugtakinu inn í rekstur ríkisstofnana þannig að þær skilji að þau verk sem þær eru að vinna bera ákveðinn kostnað og það þarf að tengja þetta kostnaðarhugtak þeirri þjónustu sem verið er að veita.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, endurskoða hana með þeim hætti að sum verkefni, sem ríkið sinnir nú að hluta til en sveitarfélög að hluta, færist algjörlega yfir á sveitarfélögin, eða fylkisstjórnir ef þeim yrði komið á, en þar á móti þurfa sveitarfélögin vitaskuld að fá aukið svigrúm til tekna og aukið sjálfræði um tekjustofna sína. Grundvallarreglan á að vera sú að saman fari framkvæmdafrumkvæði og rekstrarleg ábyrgð.

Um vinnubrögðin í fjárlagagerðinni tel ég líka ástæðu til að minna á að menn eiga að viðhafa þau vinnubrögð að gera fyrst upp hug sinn um það hversu stóran hluta þjóðarkökunnar megi draga til ríkisins, að ákveða tekjuöflunina sem hlutfall af þjóðarframleiðslu en í næsta áfanga að gera upp hug sinn um hvernig þessari köku skuli skipt útgjaldamegin. Ef menn viðhafa ekki þennan hugsunarhátt lenda menn í sömu ógöngum og menn hafa verið í að undanförnu, nefnilega þeim að vera komnir með útgjaldapakkann fyrst og vera síðan að skrapa saman tekjur, vanburðugir til að mæta þeim útgjöldum sem þeir hafa þegar,ákveðið.

Þetta eru, herra forseti, grundvallarhugmyndir Alþfl. varðandi fjárlagagerðina, grundvallarhugmyndir sem leggjast fram til viðbótar þeim einstöku tillögum sem Alþfl. hefur áður tíundað, t.d. við fjárlagaumræðu á síðasta ári og endurtekur í því nál. sem skilað hefur verið í sambandi við 2. umr. núna. Ef þessi nýju vinnubrögð væru tekin upp stæðum við á nýjum grunni með ríkisfjármálin. Þá stæðum við á þeim grunni að við hefðum skapað okkur svigrúm til að mæta ýmsum brýnum verkefnum sem nú sitja á hakanum.

Ég skal nefna fáein. Ég ætla að nefna samgöngumálin, ekki bara vegina heldur hafnir og flugvelli og ekki bara hafnir og flugvelli heldur líka símasambandið í kringum land. Mér finnst með endemum að það skuli vera símasambandslaust frá Hafnarfirði suður á Vatnsleysuströnd, a.m.k. hálfan daginn, og veit ég þó að ýmsir geta kvartað enn meir undan símasambandsleysi en Hafnfirðingar sem langar til að hringja í næsta sveitarfélag og það getur verið klukkutíma verk eða meira að ná símasambandi.

Nýir tímar, nýir þjóðfélagshættir gera líka nýjar kröfur sem ekki hefur verið sinnt sem skyldi. Nú gildir það að báðir foreldrar vinna utan heimilis. Það gerir sérstakar kröfur til hins opinbera. Dagvistarmál, barnaheimilismál, hafa oft verið nefnd í því sambandi og verða aldrei of oft ítrekuð. En það er meira. Skólarnir verða líka að geta aðlagað sig þeim kröfum sem felast í því að báðir foreldrar vinna utan heimilis. Það geta skólarnir ekki við núverandi aðstæður og er langt í frá, en það er ein af kröfum tímans að skólarnir geti þetta. Langlífi og breyttir fjölskylduhættir, þar sem afi og amma búa ekki með börnum sínum lengur, gera líka sérstakar kröfur til þjóðfélagsins sem ekki hefur verið sinnt sem skyldi varðandi málefni aldraðra, enda heyrast nú neyðarópin á degi hverjum, ekki síst hér í Reykjavík, ekki bara frá þessu gamla fólki sjálfu heldur líka frá börnum þeirra og barnabörnum sem hafa áhyggjur af aðbúnaði gamla fólksins.

Þriðja atriðið sem ég vil telja í nýjum kröfum til þjóðfélagsins varðar líka breytingar sem orðið hafa í atvinnulífi. Menn hafa sem betur fer auknar frístundir, en menn stunda atvinnu sem gerir minni kröfu til líkamans en áður. Stærri og stærri hluti þjóðarinnar vinnur kyrrsetustörf. Það gerir kröfu til þess að þessir hópar og reyndar þjóðin í heild hafi betri möguleika en nú eru til að nota frístundir sínar til heilsuræktar, hvort heldur er í sundlaugum, íþróttastöðvum eða heilsuræktaraðstöðu. Þetta er eitt af því sem þarf að fara að sinna í vaxandi mæli.

Við höfum líka orðið fyrir því að fíkniefnin hafi haldið innrás í Ísland. Ég styð eindregið þær tillögur sem komið hafa fram um varnir gegn fíkniefnum. En ég held að ein besta vörnin sé aukið æskulýðs- og íþróttastarf og þess vegna eigi hið opinbera, ríkið, að beina auknu fé í æskulýðs- og íþróttastörf, en það hefur verið hörmulega lítið eins og kunnugt er. Það sé ein af kröfum tímans til þjóðfélagsins, til ríkisvaldsins, til okkar þm., krafa sem við þurfum að fá svigrúm til að veita lið.

Herra forseti. Fjmrn. í höndum Alþfl. mundi vinna að fjárlagagerðinni og uppstokkun ríkisbúskaparins með þeim hætti og eftir þeim markmiðum sem ég hef hér reifað. Vonandi verður það strax á næsta ári.