12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

1. mál, fjárlög 1987

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að ræða hér einkum um sjúkrahúsin og stöðu þeirra í framhaldi af þeim umræðum sem hér fóru fram í gær um Borgarspítalann. Ég ætlaði einnig hér að fjalla um till. sem ég hef flutt um hækkun á framlögum til Rannsóknasjóðs í um 100 millj. kr., en ætla fyrst að víkja hér aðeins að sjúkrahúsamálunum og þeim hugmyndum sem nú eru uppi um það að flytja Borgarspítalann til ríkisins, selja Borgarspítalann, og stöðu daggjaldasjúkrahúsanna.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er hallinn á sjúkrahúsunum á þessu ári 19,4% af rekstrarkostnaði, þ.e. nærri fimmta hver króna sem fer út er halli. Hallinn nemur á fyrstu 9 mánuðum ársins 510 millj. kr. en heildargjöld sjúkrahúsanna eru um 2,6 milljarðar kr.

Það vekur athygli þegar þessi mál eru skoðuð að hallinn er mjög misjafn. Sum sjúkrahús eru með mjög verulegan halla en önnur óverulegan. Sem dæmi um sjúkrahús eða sjúkrastofnanir sem eru með mjög lágar hallatölur má nefna t.d. ýmsar stofnanir SÁÁ og hjúkrunarheimilið á Droplaugarstíg í Reykjavík en síðan sér maður tölur upp í alveg 42,2% halla á þessu ári, þ.e. nærri önnur hver króna, sem greidd er, er í halla. Þetta nefni ég hér vegna þess að það er talað um það stundum að Borgarspítalinn í Reykjavík sé sérstaklega illa rekinn en niðurstaðan er sú að afkoma spítalans er í raun og veru svipuð og annarra sjúkrahúsa. - Ég vildi inna eftir því hvort hægt væri að gera ráðstafanir til þess að hæstv. heilbr.- og trmrh. væri ekki víðs fjarri þegar þessi umræða fer fram. (Forseti: Það munu verða gerðar ráðstafanir til þess að hæstv. heilbr.- og trmrh. komi í salinn. Hún var hér rétt áðan.) Ég þakka hæstv. forseta.

Spurningin í þessum efnum er sú: Hvað er til ráða og hvernig stendur á því að hallinn er svona mikill á daggjaldaspítölunum? Hæstv. heilbr.- og trmrh. nefndi það í svari sínu við fsp. minni í gær að hallinn á fjárlagasjúkrahúsunum á þessu ári væri miklu minni en á daggjaldaspítölunum. Ég man ekki alveg hvaða tölu hæstv. ráðh. nefndi en það var lág tala, í kringum 5-6% minnir mig, og þetta er stundum nefnt til að sýna fram á það að daggjaldareksturinn sé svo miklu verri en hin beinu fjárlög. Ég er ekki viss um að þetta sé alveg sanngjarn samanburður. Ég held að í þessum efnum þurfum við að átta okkur á því að daggjaldaákvarðanir eru teknar t.d. varðandi laun eftir hreyfingum á kauptöxtum eins og þeir eru á hverjum tíma. Þær eru sem sagt ekki teknar strax með tilliti til launaskriðs. Hins vegar er tekið tillit til launaskriðs þegar halladaggjöld og jöfnunardaggjöld eru gerð upp. Þess vegna held ég að það sé mjög óeðlilegt og óheppilegt að setja málið þannig upp að þessar tölur, annars vegar á daggjaldasjúkrahúsunum og hins vegar á sjúkrahúsunum á beinu fjárlögunum, sýni það að daggjaldaspítalarnir séu illa reknir.

Hitt er alveg ljóst, og það hefur verið mín skoðun mjög lengi, að það að miða greiðslur til sjúkrahúsa eingöngu við legudagafjölda, það er viðmiðun sem ekki dugir vegna þess að þjónusta sjúkrahúsanna er orðin miklu fjölbreyttari en hún var áður og legudagaviðmiðun segir núna miklu minna en hún sagði þegar daggjaldakerfið var tekið upp fyrir aldarfjórðungi eða svo. Vandinn er að finna þarna viðmiðunartölu og ég held að í þeim efnum væri heppilegast að reynt væri að ná samkomulagi um eitthvað, sem menn hafa stundum kallað rekstrarvísitölu sjúkrahúsanna, sem sett er saman úr nokkrum meginþáttum í kostnaði við sjúkrahúsin í landinu, þ.e. launum og öðrum kostnaðarþáttum, og síðan séu þessar tölur hreyfðar til eftir því sem tilefni gefast til og hækkanir verða á hverjum tíma. En það er ekki eini vandinn í þessu. Sá vandi sem heilbrigðisyfirvöld og fjármálayfirvöld standa frammi fyrir í þessum efnum er sá að ákvarðanir um útgjöld hjá daggjaldasjúkrahúsunum eru mjög oft teknar án þess að ríkið eða daggjaldanefnd hafi um þær ákvarðanir fjallað. Þegar árið er síðan gert upp má segja að ríkisvaldinu sé iðulega svo að segja stillt upp við vegg og það eigi ekki, eða daggjaldanefnd, annarra kosta völ en að taka þeim niðurstöðum sem hafa orðið til í rekstri spítalans yfir árið. Af þessum ástæðum hafa menn velt því fyrir sér: Er einhver önnur leið til?

Í nóv. 1983 skilaði ákveðin nefnd áliti til heilbr.og trmrh., en það var nál. um endurskoðun á fjármögnunar- og stjórnunarkerfi sjúkrahúsa, á fyrirkomulagi tryggingaumboða og á deildaskipan í Tryggingastofnun ríkisins. Þetta er sem sagt mjög ítarlegt álit, þar sem farið var ofan í rekstrarkostnað sjúkrahúsanna í heild, alveg í smáatriðum, og Tryggingastofnun ríkisins, þ.e. sjúkratryggingadeild hennar var skoðuð alveg sérstaklega. Ég verð að viðurkenna að mér blöskraði það oft og blöskrar enn hvernig á málum er haldið í Tryggingastofnun ríkisins að því er þessa þýðingarmiklu þætti varðar, en þarna er um að ræða milljarða útgjöld ríkisins sem fara í gegnum Tryggingastofnunina í raun og veru án þess að t.d. Alþingi eða fjvn. fjalli um þau útgjöld í einstökum atriðum og það er mjög slæmt. Það er mjög óhollt fyrir þingið að mínu mati að afgreiða t.d. fjárlög án þess að þingmenn viti hvað er á bak við tölurnar sem þeir eru að afgreiða, svona í grófum dráttum a.m.k. Af þessum ástæðum var það að til varð ákveðin nefnd í þessum efnum á árinu 1982 sem starfaði til 1983 og skilaði niðurstöðum sem birtast í þessari skýrslu á bls. 67-71. Ég ætla að fara aðeins yfir þær tillögur sem nefndin gerði vegna þess að mér finnst menn alltaf tala þannig í þessu efni að fari sjúkrahús af daggjöldum og inn á bein fjárlög, þá sé ekkert annað að gera en að ríkið þar með kaupi viðkomandi sjúkrahús. Og það er það sem borgarstjórinn í Reykjavík hefur sagt, að þar sem þetta er að fara á bein fjárlög þá er ekkert annað að gera í þessu efni en að ríkið yfirtaki sjúkrahúsið. Nú hafa borist fréttir um það að sú innanflokksdeild í Sjálfstfl. sem hefur með þessi Borgarspítalamál að gera hafi náð samkomulagi um að leggja 25 millj. á ári á ríkið næstu 20 árin eða svo á meðan verið er að borga Borgarspítalann.

En hvaða leiðir er hægt að fara? Í þeim efnum benti þessi nefnd, sem var skipuð ágætu fólki sem þekkti mjög vel til í sjúkrahúsrekstri, forstjóra ríkisspítalanna og fleirum og fleirum, á eftirfarandi leið. Mér finnst rétt, herra forseti, í tilefni af þeim umræðum sem fram hafa farið undanfarna daga að kynna þinginu þessar tillögur því það hefur ekkert verið gert með þær í heilbrrn. eða í ríkisstjórninni að ég best veit. Tillögurnar eru þessar:

Sjúkrastofnanir verði áfram í eigu núverandi aðila. Á hverri sjúkrastofnun verði þriggja manna stjórn sem ráði sér framkvæmdastjóra. Stjórnirnar ráði einnig annað starfslið innan ramma stöðuheimilda og kjarasamninga. Huga þarf sérstaklega að stjórnun og samhæfingu rekstrar sjúkrahúsa í Reykjavík vegna stærðar þeirra og sérhæfingar. Heilbr.- og trmrn. gefi út rekstrarleyfi til sjúkrastofnana þar sem skilgreint er ítarlega hvert þjónustuhlutverk hverrar stofnunar skuli vera. Ráðuneytið ákveði einnig fjölda stöðugilda að fengnu samþykki fjárveitingavaldsins. Komið verði á fót samstarfsráði sjúkrahúsanna á Íslandi sem stjórnarfarslega yrði stjórnareining undir yfirstjórn og valdsviði heilbr.- og trmrh. Þetta samstarfsráð hafi þríþætt hlutverk:

Í fyrsta lagi verði það samstarfs- og samráðsvettvangur sjúkrastofnana og yfirvalda í landinu. Haldnir verði a.m.k. tveir fulltrúaráðsfundir á ári þar sem stjórnarformenn og framkvæmdastjórar allra þeirra sjúkrastofnana, sem aðild ættu að ráðinu, komi saman. Stjórnin gefi fulltrúaráðsfundum skýrslu um starfsemina. Í þessari yfirstjórn sætu einn fulltrúi stjórnarnefndar ríkisspítala, einn fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga, einn fulltrúi heilbrrn. og einn fulltrúi fjmrn. en fimmti stjórnarmaðurinn verði skipaður af heilbr.- og trmrh. og væri hann formaður ráðsins.

Ráðið hafi með höndum samhæfingu á rekstri og fjármálum allra þeirra sjúkrastofnana sem aðild ættu og hafi almennt eftirlit með fjármálalegum og faglegum rekstri. Ríkisendurskoðunin hafi bókhaldslega endurskoðun með höndum. Ráðið reikni út áætlaða rekstrarfjárþörf einstakra sjúkrastofnana með tilliti til skilgreinds þjónustuhlutverks, fjölda íbúa, aldurs og kynskiptingar þeirra, landfræðilegra aðstæðna, starfsmannafjölda o.s.frv. Ráðið geri, að fengnu samþykki og fyrir milligöngu heilbrrn., tillögur til fjárveitingavaldsins um áætlaða heildarfjárþörf sjúkrastofnana og um hlutfallslega skiptingu fjárveitinga til rekstrar og fjárfestinga.

Ráðið verði í þriðja lagi eins konar hagstofa heilbrigðisþjónustunnar, bæði til að geta innt af hendi það hlutverk sem áður er nefnt og eins vegna ráðgjafar við ráðherra og ríkisstjórn við stefnumörkun í heilbrigðismálum. Tölfræðileg upplýsingaöflun væri því eitt megininntakið í starfi ráðsins.

Síðan segir hér:

Hver sjúkrastofnun fái árlega samkvæmt ákvörðun Alþingis og innan ramma raunhæfra fjárlaga fyrir fram ákveðna fjárveitingu til rekstrar og fjárfestingar. Stefnt verði að því að hún haldi raungildi sínu allt fjárveitingaárið. Stofnanirnar hafi ekki heimild til lántöku og viðskiptaskuldir megi aldrei verða eldri en tveggja mánaða. Umframeyðsla verði á ábyrgð stjórna og framkvæmdastjóra og verði því aðeins mætt átölulaust með framlagi úr ríkissjóði að áreiðanlegar, efnahagslegar og þjónustulegar röksemdir liggi til grundvallar.

Síðan segir hér - og er gert ráð fyrir því að kostnaður við rekstur þessa samstarfsráðs sjúkrahúsanna yrði nokkur:

Kostnaður yrði borinn uppi með einfaldara kerfi tryggingaumboðanna í landinu og með því að afnema sjúkrasamlögin. Það fylgir þessu einnig að daggjaldanefnd yrði lögð niður vegna þess að þetta samstarfsráð mundi yfirtaka hlutverk hennar og gert er ráð fyrir því að allar sjúkrastofnanir sem þess óska geti farið inn í þetta samstarfsráð.

Af hverju er ég svo að rekja þetta, herra forseti? Það er vegna þess að hér er komin ábending um fyrirkomulag á fjármögnun og rekstraryfirstjórn sjúkrahúsanna í landinu án þess að ríkið eitt beri ábyrgð eða eignarhaldsábyrgð á þessum stofnunum. Ég held að það sé býsna mikilvægt atriði að staldra aðeins við þetta. Hvaða kostir eru við það að sveitarfélögin séu aðilar að rekstri sjúkrahúsa? Það eru sömu kostir og fylgja því að sveitarfélög séu aðilar að rekstri elliheimila eða skóla eða hvaða þjónustuþátta mannfélagsins sem menn vilja nefna.

Ég hygg að ef það t.d. gerist núna að Borgarspítalinn verður seldur ríkinu, þá þýði það ósköp einfaldlega að á næstu árum muni fleiri byggðarlög leita eftir því að selja ríkinu sín sjúkrahús. Fleiri byggðarlög, Ísafjörður, Akranes, Patreksfjörður, Sauðárkrókur, Neskaupstaður, Vestmannaeyjar, Selfoss, Keflavík, öll þessi sveitarfélög, þegar þau sjá að Reykjavíkurborg fær kannske hálfan milljarð fyrir Borgarspítalann, þá munu þau koma og,segja: Því skyldum við ekki fá þessa peninga líka, og þar með er þetta allt saman komið undir ríkinu. Nú þarf það út af fyrir sig ekki að vera svo slæmt en ég held að menn þurfi að átta sig á því að um leið og ríkið eitt fer að bera ábyrgð á þessum málum fyrir hönd þjóðarinnar, og sveitarfélögin koma þar hvergi nærri, þá verður minni áhugi á því í byggðarlögunum sjálfum að halda utan um þessar stofnanir, sjúkrahúsin, af metnaði fyrir hönd byggðarlagsins í samanburði við önnur byggðarlög o.s.frv.

Ég get nefnt dæmi hér um sjúkrahúsaráðsmenn, sem svo voru kallaðir, eða forstjóra, sem fóru með stjórn sjúkrahúsa í byggðarlögum um áratuga skeið, héldu ráðamönnum við efnið, hver sem var heilbrmrh., komu og spurðu: Hvað er verið að gera hér með minn spítala? Ég ætla að nefna hér einn mann sem er Stefán Þorleifsson sem lengi var forstöðumaður Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað. Þessir menn pössuðu þessar stofnanir, vöktu yfir þeim og gættu þess að það væri séð fyrir þeirra hlut. Hið sama á við t.d. um Landakotsspítala. Þar er um að ræða menn sem bera ábyrgð á rekstri þó að sjúkrahúsið sé á beinum fjárlögum, menn sem hafa fyrir hönd þeirrar stofnunar metnað, faglegan uppbyggingarmetnað.

Ef þetta verður allt lagt undir ríkið eins og nú er verið að stíga skref í áttina að undir forustu valddreifingarflokksins mikla, Sjálfstfl., þá óttast ég að þessi sjálfstæða forusta í landshlutunum í sjúkrahúsamálunum líði undir lok og þar með sé byggðastefnan sem slík veikari og eigi ekki eins öfluga fulltrúa og áður. Því að góð heilbrigðisþjónusta, aðhald í þeim efnum, faglegur metnaður er líka byggðamál. Ef menn ætla sér að kaupa Borgarspítalann þá er nákvæmlega það sama að gerast í þessu efni. Menn segja þá sem svo: Það þarf að samræma rekstur sjúkrahúsanna í Reykjavík. Það er alveg rétt. En til þess hefur hæstv. heilbrmrh., og heilbrmrh. hver sem hann er, í raun og veru öll völd og alla möguleika samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eins og þau voru samþykkt vorið 1983. Þar er gert ráð fyrir því að ráðherra gefi út reglugerð um verkaskiptingu sjúkrahúsanna og þar á meðal um það hvaða deildir skuli starfræktar á hverju sjúkrahúsi. Þannig að í rauninni hefur ráðherrann og ráðuneytið, ef það vill, alla möguleika til þess að stýra þessum hlutum með þeim hætti sem nauðsynlegur er frá sjónarmiði heilbrigðisþjónustunnar sjálfrar.

Ýmsir mætir menn hafa fjallað um þetta mjög rækilega eins og t.d. Davíð Á. Gunnarsson, forstjóri ríkisspítalanna. Í nefndinni, sem fjallaði um endurskoðun á fjármögnunar- og stjórnunarkerfi sjúkrahúsa, skilaði Davíð Á. Gunnarsson séráliti og þar varpar hann fram ákveðinni hugmynd um stjórn þessara mála sem hann kallar blandað kerfi og þar segir, með leyfi forseta:

Síðast en ekki síst ætla ég að varpa hér fram hugmynd um kerfi þar sem reynt er að nýta kosti miðstýringar hvað varðar sérhæfða heilbrigðisþjónustu og kosti samkeppni hvað varðar hina almennu þjónustu. Heilbrigðismálaráð læknishéraðanna verði lögð niður í núverandi mynd. Stjórnir sjúkrastofnana í viðkomandi héraði verði sameinaðar í stjórnarnefnd allra heilbrigðisstofnana í héraðinu. Þessar stjórnir starfi á ábyrgð sveitarstjórnanna. Stjórnirnar ráði sér forstjóra. Aðsetur stjórnareininga væri t.d. stærsta stofnun í viðkomandi héraði. Ljóst er að sums staðar, t.d. á Vestfjörðum og Austfjörðum, gæti verið skynsamlegt og óhjákvæmilegt vegna samgangna að skipta héruðunum.

Davíð Á. Gunnarsson rekur þetta fyrirkomulag, sem er mjög líkt því sem ég rakti hér áðan, og segir svo að lokum:

Með þessu fyrirkomulagi er tryggt:

1. Að almenna þjónustan væri í höndum heimamanna. Íbúarnir geta haft áhrif á hvaða þjónusta er veitt. Hagsmunir sveitarfélaga eru í húfi að starfsemi sé rekin eins hagkvæmt og unnt er. Samanburður milli héraða tryggir aðhald og samkeppni.

Þetta er í raun og veru grundvallarniðurstaðan. Og hann segir svo:

Á heilbrigðisþingi fjórða hvert ár mundu menn síðan bera saman bækur sínar og móta sameiginlega stefnu.

Ég veit ekki hvernig það er, herra forseti, en ætli það geti verið að þessar vönduðu tillögur, sem fyrir liggja og hafa verið unnar samviskusamlega af góðum starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar víðs vegar á landinu, getur það verið að þær hafi ekki einu sinni verið lesnar? Getur það verið að menn hafi ekki velt því fyrir sér að til séu aðrir möguleikar í þessum málum en annaðhvort sá að það séu daggjöld og bein fjárlög eða þá að ríkið yfirtaki þetta allt saman? Mér finnst að menn séu í raun og veru að taka á þessum vanda, sem hér er kominn upp vegna borgarspítalamálsins sérstaklega, með þeim hætti að það bendi til þess að menn hafi ekki sett sig inn í það sem hefur verið gert. Þetta mál hefur verið þrautundirbúið. Það hefur verið skoðað frá hagkvæmnisjónarmiði. Það hefur verið skoðað frá faglegu sjónarmiði heilbrigðisþjónustunnar. En mér finnst efnistök málsins núna þessa síðustu daga ekki með þeim hætti að það bendi til þess að menn hafi vandað sig við þetta og farið yfir málin með tilliti til þess mikla starfs sem unnið hefur verið. Þvert á móti virðist sem sá þrýstingur sem hefur komið frá borgarstjóranum í Reykjavík hafi sett heilbrrn. upp við vegg og menn hafi í raun og veru ekki þorað annað en að hlýða því sem borgarstjóranum í Reykjavík þóknaðist. (Gripið fram í: Og skyldi enga undra.) Það undrar nú einhverja.

Það hefur aðeins verið vikið að því í umræðum um þetta mál hér síðustu daga að deilur hafi verið um þessi mál um margra ára skeið. Það er alveg rétt. Það hafa verið deilur um þessi mál um margra ára skeið. Mér finnst alltaf og hefur fundist að þessar deilur snerust í raun og veru afskaplega mikið um aukaatriði, þ.e.: daggjöld eða föst fjárhagsáætlun. Í rauninni er það ekki aðalatriðið hvaða kerfi er valið á fjármögnuninni heldur hitt að það sé skilvirkt og skili góðri heilbrigðisþjónustu. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar líka að það sé engin trygging fyrir hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu að hafa spítala á daggjöldum og það sé engin trygging fyrir hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu að hafa spítala á beinum fjárlögum. Það er engin trygging fyrir því. Því miður. Ég er þess vegna alveg sammála því sem fram kom á heilbrigðisþingi 1980 þar sem yfirlæknirinn á Landakoti flutti ræðu um þessi mál og sagði þá m.a., með leyfi forseta:

„Það er skoðun mín að fjármögnun sjúkrahúsa hvort heldur er með daggjaldakerfi eða föstum fjárlögum hefur sáralítil eða engin áhrif á rekstrarkostnað sjúkrahúsa.“

Hér tala menn sem þekkja til hlutanna og vita um hvað þeir eru að tala.

Því hefur verið haldið fram í þessum umræðum síðustu daga, m.a. af hæstv. heilbr.- og trmrh., að við Alþýðubandalagsmenn höfum verið með kröfur um það að koma öllu þessu kerfi undir ríkið. „Margur heldur mig sig“, mætti segja um hæstv. heilbrmrh. í þessu efni. Ég hef fjallað um þetta mál opinberlega mjög oft, m.a. á heilbrigðisþingi fyrir sex árum og ég ætla að vitna í þá ræðu sem ég flutti þar, með leyfi forseta, til að taka af tvímæli um að afstaða mín til kaupa ríkisins á Borgarspítalanum er ekki einhver hentistefna sem verður til á þeirri stundu að borgarstjóranum í Reykjavík þóknast að láta sér detta það í hug að troða þessari stofnun upp á ríkið. Í þessari ræðu komst ég m.a. þannig að orði, með leyfi forseta:

Ég vil kannske víkja aðeins að þessu nánar með daggjöld og bein fjárlög. Mér finnst ekki aðalatriði málsins hvað þetta kerfi heitir. Ég held að aðalatriðið sé að við sameinumst um að koma á kerfi sem annars vegar tryggir góða þjónustu og hins vegar góða nýtingu fjármuna. Mér er nákvæmlega sama hvort þetta kerfi heitir daggjaldakerfi eða kerfi fastra framlaga. - Hér ætla ég að ljúka tilvitnuninni en í þessari ræðu minni kemur mjög ákveðið fram að ég hef alltaf verið andvígur því að svona þjónustuþættir, sem snúa að einstaklingnum, eins og t.d. heilsugæslan og hluti sjúkrahúsþjónustunnar, séu settir alfarið undir ríkið. Það er ekki skynsamlegt. Það verður ekki góð þjónusta. Ákvarðanirnar eru teknar of langt frá fólkinu sjálfu. Ég vildi hnykkja sérstaklega á þessu atriði í tilefni af ræðuhöldum hæstv. heilbrmrh. hér síðustu daga.

Það er dálítið skrýtið með hæstv. heilbrmrh. Hvernig í ósköpunum stendur á því að ráðherrann þarf endilega að fara að grafa sig í svona gamlan skæting um hlutina? Er það vegna þess að málstaðurinn er vondur? Er það vegna þess að ráðherranum liður illa að vera sett í þá stöðu að þurfa að samþykkja kröfur Davíðs Oddssonar með þeim hætti sem hún hefur gert? Ég held að við eigum að reyna að venja okkur á það að tala um þessa hluti eins og efni standa til en ekki að flytja skæting af því tagi sem hún hefur gert stundum í umræðum um þetta mál.

Ég vil að lokum varðandi þetta mál, herra forseti, skora á hæstv. heilbrmrh. að gera hér og nú grein fyrir því að hvaða niðurstöðu hún, borgarstjórinn í Reykjavík og hæstv. fjmrh. hafa komist varðandi kaup á Borgarspítalanum. Hvaða verð er um að ræða? Hvernig verður það greitt og hvenær er ætlunin að þetta mál verði lagt fyrir þingið? Og ég vil einnig spyrja: Hafa stjórnarflokkarnir samþykkt þessi kaup? Hefur Framsfl. samþykkt þessi kaup? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fá þetta á hreint og líka það: Hefur hæstv. ráðh. hugsað sér að samþykkja að kaupa einnig aðra spítala? Mér er tjáð að hæstv. félmrh. sé þeirrar skoðunar að ríkið eigi að kaupa fleiri spítala. Hyggst ráðherrann kaupa þetta, kjördæmi fyrir kjördæmi, Reykjavík núna og síðan Vesturland og svo Vestfirði o.s.frv.? Þetta verður að fást á hreint núna við 2. umr. fjárlaga og áður en atkvæðagreiðslan fer fram. Það er alveg óhjákvæmilegt og það er ekki líðandi að hæstv. heilbrmrh. sé með í tösku sinni leynipappíra um kaup á Borgarspítalanum án þess að gera Alþingi grein fyrir því við þessa umræðu: Hvaða pappírar eru þetta og hvað innihalda þeir?

Hér er um að ræða algjöra stefnubreytingu í heilbrigðismálum á Íslandi. Algjöra. Á heilbrigðisþingi haustið 1980 - sem á að halda reglulega skv. heilbrigðislögum en hefur ekki verið gert í tíð núv. ríkisstjórnar, það hefur náttúrlega verið hunsað kom engin rödd fram, ekki einn einasti maður sem lét sér detta það í hug að ríkið ætti að fara að kaupa alla spítala í landinu, en það er sú stefna sem verið er að fara hér inn á. Vegna þess að fyrsta skrefið með Borgarspítalann þýðir það að aðrir munu koma og segja: Við viljum losna við okkar spítala líka. Þannig verður það. Það er allsherjarríkiseinokun á sjúkrahúsarekstrinum í landinu sem hér er verið að gera tillögu um. Það er verið að bægja frá forustu og aðstöðu heimamanna og verið að bægja frá möguleikum faglegra aðila að stýra þessum málum eins og nauðsynlegt er.

Ég vil aðeins í þessu sambandi, herra forseti, leyfa mér að nefna það að daggjaldanefnd hefur oft borið hér á góma. Menn hafa verið með alveg furðulegar ræður um daggjaldanefnd og sérstaklega starfsmann daggjaldanefndar. Ég efast um að það séu margir embættismenn í stjórnkerfinu sem hafa haft annað eins verkefni og þessi eini starfsmaður daggjaldanefndar sem hefur átt að hafa yfirlit yfir rekstur allra daggjaldasjúkrahúsanna í landinu, rekstur upp á 3000 millj. kr. Ég er sannfærður um það að þessi starfsmaður hefur unnið vel, hefur unnið vel eins og kostur er miðað við það hvernig að honum hefur verið búið. Þannig að ég vil fyrir mitt leyti mótmæla því sem fram hefur komið af ákúrum og árásum á þennan starfsmann daggjaldanefndar.

Ég vil þá þessu næst, herra forseti, víkja aðeins að heilbrigðismálunum að öðru leyti og sjúkrahúsunum eins og þau líta út hér í þessu frv. Ég vil fyrst víkja að Borgarspítalanum áfram og vekja athygli á því að gert er ráð fyrir því að B-álma Borgarspítalans standi auð, einar fjórar hæðir, allt næsta ár. Það á ekki að taka í notkun eitt einasta nýtt rúm á næsta ári. Það eru fjórar eða fimm hæðir sem hafa staðið þar auðar núna síðustu árin. Í fjárlagatill. skv. grg. á bls. 277 er ekki gert ráð fyrir neinni nýrri starfsemi á Borgarspítalanum á næsta ári. Hið sama er í raun og veru að segja um allt ríkisspítalakerfið. Sú eina nýja starfsemi sem gert er ráð fyrir á ríkisspítölunum á næsta ári er sú að stöðuheimildum er fjölgað vegna geðdeildar, en þessar stöðuheimildir eru fengnar þannig að fækkað er stöðuheimildum. Hvar? Hvar ætli sé nú helst hægt að skera niður á ríkisspítölunum? Á Kópavogshælinu. Þar fundu menn smjörholuna í viðbitið. Á bls. 276 í grg. fjárlagafrv. segir að þessar nýju stöður á geðdeildinni eru fjármagnaðar þannig að stöðum fækkar um 12 á Kópavogshælinu á næsta ári. Það er sú stofnun sem helst mátti sauma að í þessu kerfi. Ég vil einnig í þessu sambandi benda á það, herra forseti, að Landakotsspítali á einnig að standa algjörlega óhreyfður á næsta ári og allir gömlu daggjaldaspítalarnir nema einn. Það er á Sauðárkróki.

Það kann að vera að viðbætur komi inn í brtt. og þá er ég fús til að kynna mér það, en niðurstaðan er sú að allan tímann í tíð núv. ríkisstjórnar hefur í besta falli verið um að ræða stöðnun í framþróun heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi. Að vísu má segja, herra forseti, að það sé vel sloppið miðað við þau áform sem uppi voru af hálfu núv. ríkisstjórnar. Áformin voru þau að láta sjúklinga borga aðgöngugjald að sjúkrahúsunum í landinu.

Haustið 1983 sagði formaður fjvn. í framsöguræðu sinni við 2. umr. fjárlaga, það var ekki hv. þm. Pálmi Jónsson þá, heldur sá maður sem síðan tók að sér að stýra Útvegsbankanum. Með leyfi forseta sagði hv. þm. Lárus Jónsson þetta:

„M.a. mun heilbr.- og trmrh. leggja fram á næstunni till. sem hafa í för með sér lækkun á útgjöldum lífeyris- og sjúkratrygginga sem hafa í för með sér 300 millj. kr. lækkun á útgjöldunum. Á vegum heilbrrn. er nú verið að vinna frv. sem fela mun í sér að sjúklingar sem leggjast inn á sjúkrahús greiði 300-600 kr. gjald í 10 daga að hámarki á hverju ári.“

Það átti sem sagt að borga þarna aðgöngumiða. Þetta var stöðvað. M.a. hér á hv. Alþingi var þetta stöðvað og stjórnin þorði aldrei að sýna þetta frv. sem var þó til í heilbrrn. samkvæmt þessu hér. Væri fróðlegt fyrir sögu heilbrigðismála á Íslandi að fá það plagg birt opinberlega og það verða vonandi einhvern tíma ráð til þess að finna þetta í gögnum heilbrrn. Miðað við þessi áform má segja að sú stöðnun sem ríkt hefur í heilbrigðismálum núna síðustu árin hafi alla vega verið betri en sú hrikalega andfélagslega atlaga sem hér var gert ráð fyrir. En þegar litið er á heilbrigðismál á Íslandi síðustu árin þá er þar um að ræða hreina stöðnun.

Ég vil að lokum áður en ég yfirgef þennan málaflokk víkja að einu atriði og það er Framkvæmdasjóður aldraðra. Samkvæmt frv. og grg. þess er gert ráð fyrir því að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækki á þessu ári og næsta um 10,5% og fari gjaldið upp í 1150 kr. á mann, en hér er um að ræða nefskatt eins og kunnugt er. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið úr fjmrn. hefði þessi tala átt að hækka um 35% miðað við hækkun tekna á milli áranna 1985 og 1986. Miðað hins vegar við það frv., sem hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur lagt hér fram um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra er gert ráð fyrir því að þetta gjald verði 1500 kr. Ég tek það fram fyrir mitt leyti að ég vil að þetta gjald sé haft a.m.k. í samræmi við tekjubreytingar og er tilbúinn til að greiða atkvæði með þeim till. sem ráðherrann kann að flytja í þeim efnum. En ég fæ ekki séð hvernig á því stendur að tölurnar eru með þessum hætti. Þær ríma ekki miðað við aðrar talnalegar forsendur sem hér eru uppi í sambandi við skatta og fjárlagafrv. fyrir árið 1987.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðh. og hv. formann fjvn. hvort ekki sé ætlunin að gera tilraun til að skipta þessu fé sem kemur í Framkvæmdasjóð aldraðra fyrir árið 1987. Og ég vil bæta við einni spurningu í þessu sambandi um Borgarspítalann: Hvað um B-álmuna? Er ætlunin að þar verði hýst þjónusta við aldraða þó svo að ríkið yfirtaki spítalann ef af því verður?

Ég ætla þessu næst, herra forseti, að víkja aðeins að lítilli brtt. sem ég flyt þar sem gert er ráð fyrir því að framlög í Rannsóknasjóð hækki í 100 millj. kr., úr u.þ.b. 50 millj. kr. eins og það var í fjárlagafrv. og ég hef ekki séð brtt. við þá till. Ég tel að sú ákvörðun sem tekin var á sínum tíma að taka upp þennan Rannsóknasjóð hafi verið skynsamleg. Það hefur komið í ljós að sú aðferð sem notuð hefur verið við úthlutun úr þessum sjóði hefur skilað ágætum árangri. Hins vegar er það augljóst mál samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja m.a. frá Rannsóknaráði ríkisins um rannsóknastarfsemi á Íslandi að við erum eftirbátar annarra þjóða í þessum efnum varðandi framlög til rannsókna og þróunarstarfsemi og ég óttast að ef svo fer áfram, þá dragist Íslendingar aftur úr í lífskjörum á komandi árum.

Það er alveg ljóst að meginhluti nýrra starfa hjá þróuðum þjóðum á næstu árum verður í alls konar nýrri tækni eins og t.d. í upplýsingatækni. Það má geta þess að um síðustu aldamót störfuðu um 40% vinnandi manna í þróuðum löndum, svo sem Bandaríkjunum, við fæðuöflun, þar á meðal við landbúnað og fiskveiðar. Hliðstæð tala í dag í Bandaríkjunum er 3%. Nú starfa hins vegar um 25% í iðnaði í þessum löndum en því er spáð að sú tala verði að 50 árum liðnum komin niður í 4-5%. Það er greinilegt að meginhluti þess fólks sem kemur á vinnumarkað á komandi árum mun þess vegna starfa í alls konar nýtækni, m.a. svokallaðri upplýsingatækni og tölvutækni. Og það er alveg ljóst að við Íslendingar höfum möguleika á því að vinna okkur áfram í þessum efnum og ná þarna umtalsverðum árangri ef við veitum myndarlega fé í þessa starfsemi á komandi árum. Það er af þeim ástæðum, herra forseti, sem ég hef flutt þá till. sem ég hér lýsti áðan. Hvar er fjmrh.? Er hann ekki í húsinu enn þá? (Forseti: Ég skal gera ráðstafanir til þess að kanna það. Ég á nú ekki von á öðru reyndar en að hann sé viðstaddur umræðuna.)

Í dag barst okkur alþm. ný þjóðhagsspá fyrir árið 1987. Upphaflega var fjárlagafrv. miðað við að hækkun á milli áranna 1986 og 1987 á launum yrði um 15%. Í gærmorgun kom á fund okkar í fjh.- og viðskn. embættismaður úr fjmrn. sem sagði okkur að launahækkunin yrði 18,5%. Í dag barst okkur enn ný tala, að þessu sinni var það ekki 15% og ekki 18,5% heldur 20%. Við lifum nú, eins og aðstoðarforstjóri Þjóðhagsstofnunar sagði í útvarpinu í kvöld, eitthvert mesta góðæri sem þjóðin hefur nokkru sinni lifað í jafnlangan tíma. Ríkisstjórnin og ráðherrarnir, m.a. hæstv. fjmrh., hafa haft tilhneigingu til þess, að ekki sé meira sagt, að þakka sér góðærið, að þakka ríkisstjórninni það góðæri sem núna gengur yfir þetta land. Það er athyglisvert að lesa þetta litla minnisblað Þjóðhagsstofnunar til að átta sig á því hvað hér hefur verið að gerast. Og það er kannske sérstaklega athyglisvert að bera þetta saman við ræður, sem voru fluttar hér á Alþingi og víðar fyrir tveimur áratugum eða svo, þar sem því var haldið fram að sjávarútvegurinn væri gjörsamlega þrotinn.

Því var haldið fram af formanni Alþfl. sem þá var, Gylfa Þ. Gíslasyni, að landhelgin hlyti að vera 12 mílur um aldur og ævi og gæti alls ekki orðið meiri vegna þess að 12 mílur væru alþjóðaréttur og þess vegna væri engin ástæða til þess að ætla að við gætum bætt við okkur verðmætum í fiski. Þess vegna yrðum við að selja fallvötnin og aðgang að þeim fyrir slikk vegna þess að við værum alveg komin að endimörkum. Það er búið að syngja þennan söng ár eftir ár eftir ár. Sjávarútvegurinn svoleiðis gjörsamlega í botni að það er ekki hægt að komast lengra með hann.

Hver er niðurstaðan? Hvað hefur gerst á þessu ári? Samkvæmt niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar kemur fram, orðrétt: „Útflutningur, einkum á fiski, hefur verið afar mikill á þessu ári.“ Síðan kemur setning sem vafalaust verður lengi í minnum höfð: „Hér leggst allt á sömu sveif, landburður af afla, hátt afurðaverð og hagkvæm ráðstöfun aflans. Auk þess hefur mjög gengið á birgðir, sérstaklega nú síðustu mánuði. Þótt almennur innflutningur hafi farið vaxandi virðist líklegt að halli á viðskiptunum við útlönd verði minni en spáð var og gæti jafnvel horfið með öllu.“ Og af hverju gerist þetta? Það er vegna þess að sjávarútvegurinn skilar milljörðum og aftur milljörðum króna í aukin verðmæti frá því sem verið hefur. Þannig að þessi atvinnugrein, sem Sjálfstfl. og Alþfl. hafa aftur og aftur reynt svo að segja að dæma til dauða vegna þess að ekkert meira væri upp úr sjávarútvegi í þessu landi að hafa, skilar á hverju ári stórkostlegum fúlgum til viðbótar við það sem menn höfðu trú á að gæti gerst.

Síðan segir á minnisblaði Þjóðhagsstofnunar: „Hagvöxtur á mælikvarða landsframleiðslu verður því meiri en áður var búist við eða um 6% í stað 5%. Jafnframt virðast horfur á að viðskiptakjör batni meira en áætlað var, ekki síst vegna mikillar hækkunar fiskverðs að undanförnu. Þjóðartekjur gætu því aukist um meira en 8% á þessu ári. Þetta er meiri hagvöxtur en í nokkru öðru vestrænu iðnríki á þessu ári.“

Og skyldi það vera verkefni þeirra Steingríms Hermannssonar og Þorsteins Pálssonar hæstv. ráðherra að staðan er svona? Er ekki ástæða til þess, eða hvað, fyrir þjóðina að beygja sig og þakka fyrir það að þessir snillingar skuli hafa lækkað olíuverðið í heiminum þannig að það nemur 2-3 þús. millj. kr.? Er ekki nauðsynlegt fyrir þjóðina núna á þessum kosningavetri að þakka sérstaklega fyrir það að fiskur skuli hafa selst á hærra verði erlendis en nokkru sinni fyrr? Ber ekki að þakka þessum höfuðsnillingum fyrir að þannig hefur gengið á birgðir að viðskiptajöfnuður næst á þessu ári eða á kannske að þakka þeim fyrir það að erlendir vextir hafa lækkað? Auðvitað hafa ytri aðstæður gjörbreytt stöðu þjóðarbúsins frá því sem áður var. Staðreyndin er auðvitað sú að það tekst að nota þessa breytingu á ytri aðstæðum til þess að ná niður verðlaginu, ná niður verðbólgustiginu, vegna þess að verkalýðshreyfingin beitir sér fyrir samningum sem eru með þeim hætti að ávinningur þjóðarbúsins er notaður til að ná verðbólgunni að verulegu leyti niður og að nokkru leyti til að lyfta örlítið kaupmætti kauptaxta frá því sem var. Þess vegna er um það að ræða að þessi ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar býr við einstakt góðæri, mesta samfellt góðæri í þrjú ár sem nokkur stjórn hefur búið við. Spurningin er þá sú: Er allt í lagi? Eru hlutirnir hér yfirleitt í mjög góðu standi? Hvaða horfur eru um afkomu ríkissjóðs á næsta ári? Þar mun hallinn telja milljarða. Hvaða horfur eru um afkomu heimilanna þar sem kaupmáttur kauptaxta er enn mikið lægri en hann var á árinu 1982 í mörgum tilvikum, þó svo að þjóðarframleiðslan hafi aukist stórkostlega síðan? Það er alveg bersýnilegt að þetta góðæri hefur ekki nema að örlitlu leyti komið til fólksins og þetta góðæri er ekki notað til að rétta við stöðu ríkisins heldur velta menn vandanum á undan sér og leggja á þjóðina á komandi árum stórkostlegar vaxtabyrðar vegna skuldasöfnunar í tíð ríkisstjórnar íhaldsins og framsóknar upp á 6-7 þús. millj. kr. Það er niðurstaðan. Þannig skilar Sjálfstfl. af sér ríkissjóði eftir mesta góðæri sem sögur fara af á eftirstríðsárunum.

Síðan vil ég, herra forseti, leyfa mér að draga það í efa að þær tillögur og þær tölur sem liggja fyrir nú segi í rauninni allan sannleikann. Ég hygg að afkoma þjóðarbúsins sem heildar geti orðið mun betri en spáð er í töflum Þjóðhagsstofnunar. Það er líka reynslan. Þjóðhagsstofnun er yfirleitt langt fyrir neðan þær tölur sem svo verða ofan á að lokum og þess vegna er alveg ljóst mál að mínu mati að verulegt svigrúm er í þjóðarbúinu til að bæta lífskjör á næsta ári ef menn kysu að hafa það svo, verulegt svigrúm. Þessar nýju upplýsingar, sem fram eru komnar í dag, birtast þjóðinni eftir að síðustu kjarasamningar voru gerðir og hljóta þess vegna að skapa skilyrði fyrir þá fastlaunasamninga sem eftir er að gera samkvæmt síðustu kjarasamningum og þá aðila sem enn eru með lausa samninga og eiga eftir að ganga frá sínum málum. Hættan er hins vegar sú að sú erlenda skuldasöfnun og þensluaukning sem í henni felst, sú erlenda skuldasöfnun sem hefur átt sér stað á þessu ári, muni valda þenslu á næsta ári sem skapi erfiðleika í þjóðarbúinu á árinu 1987. En þá er ekki við launafólk að sakast heldur þá ríkisstjórn sem hefur skipt góðærinu með þeim hætti sem við þekkjum, að hlutfall launa af þjóðartekjum er nú minna en það hefur verið um mjög langt skeið.

Hinar auknu þjóðartekjur eru ekki til komnar vegna þess að ríkisstjórnin hafi aðhafst neitt í atvinnumálum. Nefnið mér eitt dæmi um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að efla hér atvinnulíf í landinu. Nefnið mér eitt dæmi um eitt einasta fyrirtæki sem núv. ríkisstjórn hefur átt hlut í að setja af stað á kjörtímabilinu. Ríkisstjórnin hefur ekki beitt sér þannig í atvinnumálum. Hún hefur ekki haft neina forustu um annað en að selja fyrirtæki og fyrirtæki. Framleiðsla í iðnaði minnkar og staðan er í rauninni sú að það hefur ekkert verið gert til að byggja upp grundvöll fyrir batnandi lífskjör á komandi árum á Íslandi. Allt sem gerst hefur í hina jákvæðu átt er vegna hagstæðra utanaðkomandi skilyrða þrátt fyrir núv. ríkisstjórn og stjórnarstefnu.

Það er alvarlegur hlutur að hafa haft hér ríkisstjórn í þrjú eða fjögur ár sem hefur haldið þannig á málum að hún hefur vanrækt að treysta sjálfan grundvöllinn, framleiðslu og verðmætasköpun í landinu.