12.12.1986
Sameinað þing: 30. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

1. mál, fjárlög 1987

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði um að ekki gæti það gengið að framkvæmdarvaldið kæmi sér undan því að gera áætlanir. Það leiðir hugann að efni sem hér hefur verið rætt af nokkrum stjórnarandstöðuþingmönnum og það er einmitt munur á daggjaldakerfi við fjármögnun sjúkrahúsa annars vegar og beinum fjárlögum hins vegar. Beinu fjárlögin fela það í sér að menn verða að gera áætlanir og reyna að standa við þær. Daggjaldakerfið felur þetta ekki í sér. Það er þess vegna sem það hefur þróast eins og hv. 3. þm. Reykv. lýsti í kvöld þegar hann tíundaði ókosti þess kerfis, hvernig það hafi gerst árum saman að viðkomandi stofnun tekur ákvörðun um útgjöld sem ríkið eða sá sem borgar hefur engan hlut átt að, en síðan hefur ríkinu verið stillt upp að vegg og orðið að greiða þetta eftir á. Þegar hv. þm. hafði tíundað ókosti daggjaldakerfisins með þessum hætti komst hann að þeirri niðurstöðu að það ætti að halda því áfram.

En hvað um það. Þetta er reyndar atriði sem fleiri og fleiri viðurkenna sem betur fer að sé kannske ekki ástæða til að ræða mikið því að menn hafa áttað sig á að þetta kerfi er úrelt og sjálfsagt að leggja það af, a.m.k. þegar um er að ræða dýr sjúkrahús sem krefjast mikils kostnaðarsams tækjabúnaðar. Auðvitað er þá afar óskynsamlegt að leggja til grundvallar legudagafjölda í slíkum stofnunum. Þetta hafa menn séð vítt um veröldina og eru yfirleitt steinhættir þessu, enda hægt að ná sama árangri með öðrum hætti að sjálfsögðu.

Mig langar til að svara fáeinum spurningum sem lagðar voru fyrir mig. Ein var sú sem hv. 3. landsk. þm. Guðrún Agnarsdóttir bar fram og var um það hvar í fjárlagafrv. framlag vegna verkefnisins „Heilbrigði árið 2000“ væri. Það er að finna undir fjárlagalið sem heitir „Ýmis heilbrigðismál“. Þessi upphæð er undir fyrirsögninni „Íslensk heilbrigðisáætlun“. Ég hygg að það hafi þótt of langt að bæta við undirfyrirsögninni Heilbrigði árið 2000. En þetta verkefni er undir „Íslensk heilbrigðisáætlun“ og það heitir verkefni þeirrar nefndar sem hefur með þetta sérstaklega að gera.

Hv. þm. spurði, eins og reyndar hv. 3. þm. Reykv., um hvort niðurstaða hefði fengist og þá væntanlega um leið hvort ákvörðun hefði verið tekin um sölu Borgarspítalans sem svo er nefnd. Svarið er að það hefur ekki verið gert. Það þýðir auðvitað að ég þarf ekki að eyða tíma í að svara öllum þeim þáttum í máli hv. 8. þm. Reykv. sem fjallaði um að hér hefðu ákvarðanir verið teknar. Það sýnir eiginlega hversu fráleitt er að láta umræður snúast um það, eins og gert hefur verið, að hér hafi ákvarðanir verið teknar um stórmál án þess að ráðgast við kóng eða prest. Ég veit varla um nokkurt mál í seinni tíð sem hefur verið eins rækilega rætt utan þings og innan á starfsmannafundum, borgarafundum, þingfundum, þingflokksfundum og guð má vita hvað. Það er svo rækilega rætt meðal almennings að það er útilokað að segja að ákvarðanir séu teknar án þess að málið hafi fengist rætt.

Hins vegar voru hafðar uppi hæpnar fullyrðingar áður en forsendur lágu fyrir til þess, eins og oft vill verða þegar fréttir eru óljósar og fjölmargir tilbúnir til að fiska í gruggugu vatni og reyna að slá sig til riddara á grundvelli ónógra upplýsinga og viss kvíða um að e.t.v. væri á ferðinni eitthvað sem ætti að nota ég held helst til að klekkja á starfsfólki eða eitthvað slíkt, eins og menn létu sig hafa að ræða um á tímabili, en sem betur fer hafa menn áttað sig á að allt slíkt tal er algjörlega út í hött.

Þetta mál er mjög rækilega rætt og athugað og ég hef skýrt frá því áður að allan tímann hefur verið ljóst af minni hálfu og ég hef sagt það á ýmsum fundum og þar sem ég hef fengið því við komið að mér þykir það vera skilyrði fyrir því að þessi eignayfirfærsla eigi sér stað að með því fylgi rekstrarfyrirkomulag sem leiði til aukinnar hagræðingar. Ég held að það sé algjörlega ljóst að þarna þarf að hagræða hlutum þannig að jafngóð eða betri þjónusta fáist með hinum hagkvæmasta hætti og að fjármagn fari ekki forgörðum í óþarflega kostnaðarsamar starfsaðferðir í sjálfum rekstrinum eða stjórnuninni. Þetta liggur alveg ljóst fyrir og það er ein af meginskyldum þeirra sem hafa á höndum framkvæmdarvald og það að framkvæma vilja Alþingis, fjárveitingavaldsins sjálfs, að sjá svo um að farið sé eins vel með almannafé og unnt er. Það gildir auðvitað hvort heldur eiga í hlut sjúkrahús, skólar eða aðrar stofnanir. Það er aldeilis ljóst.

Það voru tvær spurningar sem hv. 3. þm. Reykv. spurði. Hann spurði um frv. um Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er rétt að fyrir þessu er ekki ráð gert í fjárlagafrv., enda er ákvörðun um að leggja frv. fram með þessari hækkun nýlega tekin og auðvitað verður tekið mið af því og niðurstöðu Alþingis í þessu við 3. umr. fjárlaga. En menn vita auðvitað að það eru sömu röksemdir fyrir þessari hækkun umfram þær 1350 kr. sem gjaldið hefði verið annars. Frv. er um að hækka það úr þeirri upphæð sem eðlilegt hefði verið að hafa það ef ekki hefði komið til meira en verðlagsforsendan, en sú forsenda sem er fram yfir hana er einfaldlega sú að hér sé um verkefni að ræða sem fer vaxandi á næstu árum og landsmenn eru nokkuð sammála um að eðlilegt sé að fjármagnað sé með þessum hætti. Að sjálfsögðu tekur Alþingi afstöðu til þessa á næstu dögum.

Spurt er um hvort ætlunin sé að hafa þjónustu við aldraða áfram í B-álmunni ef ríkið tæki yfir Borgarsjúkrahúsið. Svarið við því er að það er svo sannarlega ætlunin. Fyrir því hefur verið barist á Alþingi hvað eftir annað að fá fjármagn í B-álmuna vegna sárrar þarfar á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða á þeim grundvelli er B-álman reist og einnig fyrir stórfé úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Eins og þeim er ljóst sem þá stofnun hafa heimsótt er hér um að ræða afar vandaða hjúkrunaraðstöðu einmitt fyrir erfiða hjúkrunarsjúklinga þannig að þarna er hin ákjósanlegasta aðstaða fyrir mjög sjúk gamalmenni.

Þá var það eitt atriði enn, sem hv. 3. þm. Reykv. nefndi, sem ég vil gjarnan leiðrétta. Það er í sambandi við stöðuheimildirnar á Kópavogshæli. Það er rétt að í útreikningi hagsýslunnar í sambandi við þetta hefur orðið viss misskilningur sem ég veit að verður leiðréttur fyrir 3. umr. fjárlaga. Misskilningurinn er fólginn í því að þess var ekki gætt þegar það lá fyrir að það mundi breytast kostnaður vegna matargerðar í spítalanum. Þannig var að matarkostnaðurinn hafði verið greiddur á launalið spítalans eða Kópavogshælis og þegar ákveðið var bjóða matinn út og hann var keyptur að töldu menn, þeir sem unnu hér tæknilega að, að þá væri óhætt að fella út sem svaraði þeim stöðuheimildum er kostnaðurinn á launalið hefði getað greitt, en að sjálfsögðu var ekki unnt að gera það nema kostnaðurinn kæmi annars staðar inn í staðinn. Þetta verður leiðrétt þannig að kostnaðurinn kemur inn á rekstrarlið í staðinn. Þetta vildi ég láta koma fram og enn fremur að bætt hefur verið við gæslumönnum á hælinu einmitt vegna þess að sérstaklega gæslan í húsunum tveimur, næturvarsla, þarf að vera meiri en var á s.l. ári. Þar hefur verið bætt við fólki. Það er mikill misskilningur að það felist í þessu að þarna eigi með nokkrum einasta hætti að sverfa að þessari ágætu stofnun. Því fer fjarri.

Herra forseti. Ég vildi rétt aðeins gefa þessar skýringar á spurningum sem bornar hafa verið fram. Ég held að ég hirði ekki um að elta ólar við ýmiss konar furðulegar staðhæfingar sem fram hafa komið í máli manna og upplestur úr ýmsum fornum gögnum. Upplestur úr þeim gögnum breytir engu. Þegar Landakotsspítali og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri voru flutt á föst fjárlög var enginn fyrirvari um það. Menn vissu það rétt af tilviljun sama daginn. Það uppgötvaðist allt í einu og var hringt í ofboði norður á Akureyri að skýra frá þessu. Landakotsspítali vissi um þetta tveimur klukkustundum áður en það skeði. Þetta er ekki neinn gamall skætingur. Þetta eru fornar og nýjar staðreyndir.

Ég þakka, herra forseti, fyrir þá þolinmæði sem sýnd er með því að leyfa okkur að vera hérna svo lengi í kvöld og ég hlýt að þakka hv. þingdeildarmönnum að sýna þá þolinmæði að sitja hérna.