15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

231. mál, almannatryggingar

Frsm. heilbr.- og trn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um þetta frv. til l. til breytinga á almannatryggingalögunum. Nefndin varð sammála um að mæla með samþykkt frv., en leggur til breytingu á því.

Nefndin leggur til að greinin orðist svo: „Tryggingaráði er heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til maka elli- og örorkulífeyrisþega, sbr. 52. gr., þegar bætur almannatrygginga falla niður vegna vistunar á stofnun, sbr. 51. gr., eða þegar 60. gr. á við um hagi bótaþega, sbr. og 3. mgr. 14. gr."

Hér er ekki um efnisbreytingar að ræða frá framlögðu frv. heldur er reynt að gera greinina skýrari og markvissari. Þannig er tekið fram að það sé tryggingaráðs að mæla fyrir um notkun heimildarinnar að greiða megi bæði mæðra- og feðralaun, ekki eingöngu mæðralaun, að stuðst skuli við skilgreiningar í 52. gr. á hjúskap, þ.e. að óvígð sambúð sem staðið hefur samfleytt í tvö ár, barn sé til staðar í sambúð eða kona þunguð gefi sama rétt og hefði verið um hjónaband að ræða.

Einnig er nákvæmara að taka fram að eingöngu megi nota heimildina þegar bætur falla niður, sbr. 51. gr., en í henni kemur fram hvenær lífeyrisgreiðslur falla niður við vistun á stofnun í stað þess að vísa til þess að bætur gangi að fullu til viðkomandi stofnunar. Því er ekki alltaf til að dreifa þar sem ýmist er um að ræða að vistmaður ávísi bótum sínum beint til greiðslu dvalarkostnaðar eða sjúkratryggingar greiði vistina að fullu.

Það sakar ekki að taka fram að samkvæmt upplýsingum sem nefndinni voru veittar má ætla að fjöldi þeirra sem gæti fallið undir þetta heimildarákvæði sé á bilinu 20-30, þar af eru tíu í fangavistun. Árlegur kostnaður sem hlýst af samþykkt þessa frv. yrði 3-4 millj.

Heilbr.- og trn. leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef kynnt og undir nál. rita nefndarmenn í heilbr.- og trn.