15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

88. mál, álagning tímabundinna skatta og gjalda 1987

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur þegar gert grein fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. á þessu máli, en láðist að taka það fram að minni hl. skipa auk hans hv. síðasti ræðumaður og svo sú sem hér stendur.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Álit okkar á því hefur þegar komið fram og það er gamall kunningi hér á jólaföstunni. Ég vil aðeins láta það koma fram að hvað varðar I. kafla frv. hef ég ekkert við hann að athuga annað en að ég tel gjaldið vera of lágt. Verslun hefur t.d. staðið með miklum blóma hér á landi í góðærinu undanfarið og ég tel að hún geti vel borið hærri álagningu á sínar tekjur en gert er ráð fyrir í frv.

Hvað varðar II. kaflann, um húsnæðisgjaldið, þá var það samkomulag sem um það var gert tímabundið, eins og hér hefur komið fram, og var gjaldið sett á á sínum tíma til að mæta þörfum þeirra sem lent höfðu í vandræðum með afborganir af lánum sínum vegna misgengis lánskjara og kauptaxta. Einnig er ljóst að þetta gjald hefur ekki runnið óskipt til þeirra aðila og svo mun áfram verða samkvæmt hljóðan frvgr. og því mun ég ekki taka þátt í að samþykkja þetta gjald aftur.

Hvað varðar síðasta kafla frv. er ég honum mjög samþykk og vil láta það koma fram að við Kvennalistakonur fluttum í upphafi till. um sérstakar verndunaraðgerðir til að vernda innlendan húsaiðnað.

Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa orð mín um þetta frv. öllu fleiri.