15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ætli fjmrh. sé hér einhvers staðar nálægt þannig að hann heyri umræðurnar? Mér þykir eðlilegt að fjmrh. sé viðstaddur 2. umr. um lánsfjárlög. (Forseti: Hæstv. ráðherra er hér.)

Virðulegi forseti. Nú er lánsfjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar komið til 2. umr. í hv. Ed. þótt vitað sé að það plagg sem við höfum fyrir framan okkur og heitir frumvarp til lánsfjárlaga, ásamt með þeim brtt. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. sem komið hafa fram við þessa umræðu, komi vart til með að standast tímans tönn. Þar kemur margt til en þó fyrst og fremst stórfelldur hallarekstur ríkissjóðs sem enn er ekki útséð um hversu mikill muni verða á næsta ári. Þar í er einn stærsti óvissuþátturinn, áhrif nýgerðra kjarasamninga á fjármál ríkisins en þeir hafa enn ekki verið reiknaðir inn í fjármáladæmið þótt bæði fjárlög og lánsfjárlög séu komin til 2. umr. hér á Alþingi og fjárlög raunar þegar afgreidd til þeirrar þriðju.

Mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. hvenær við megum eiga von á því að fá þessa útreikninga til meðferðar hér á Alþingi og minni á það í leiðinni að ekki munu vera eftir nema fjórir eða fimm starfsdagar hér á hæstv. Alþingi áður en jólaleyfi þingmanna hefst. Það eina sem er ljóst á þessu stigi málsins er að halli ríkissjóðs mun ekki minnka vegna þessara kjarasamninga og að sú skuld, sem núv. ríkisstjórn skilar eftirkomendum sínum eftir fjögurra ára fjármálastjórn, verður ekki undir 6 milljörðum kr., líklega öllu meiri ef fram fer sem horfir. Ef einhver vill halda því fram að þetta sé góð fjármálastjórn hefur afstæðiskenningin eignast öflugri talsmenn hér á Alþingi en höfund hennar gat líklega grunað.

Það eru aðeins þrjár leiðir til að eiga við þennan gífurlega halla: Það er frekari niðurskurður á útgjöldum ríkisins, það er aukin skattheimta og það eru auknar lántökur innanlands eða utan. Þótt stærðirnar séu á reiki í fjárhagsdæmi ríkisins þessa stundina er alveg ljóst að þriðja leiðin, auknar lántökur, verður áfram notuð til að mæta rekstrarhallanum og því verða lántökur öllu meiri en fram kemur í þeim drögum að lánsfjárlögum sem hér hafa verið tekin til 2. umr.

Það hefur komið fram í meðferð þessa máls í fjh.og viðskn. að ríkisstjórnin hyggst seilast enn djarfar en orðið er í fé lífeyrissjóðanna og hyggur þar á stórauknar lántökur og það svo mjög að ástæða er til að ugga um hag lífeyrissjóðanna og reyndar einnig um hag ríkissjóðs því þegar farið er að reka ríkissjóð fyrir lífeyri fólksins í landinu er ástandið orðið slæmt.

Ekkert hefur enn frést af auknum erlendum lántökum enda ekki líklegt að slíkt sé hafr í hámæli af hæstv. ríkisstjórn sem hefur það að yfirlýstri stefnu sinni að auka ekki erlendar lántökur á kjörtímabili sínu. Rétt er þó að taka fram að engan veginn hefur dregið úr erlendum lántökum í tíð þessarar ríkisstjórnar. Samkvæmt hagtölum Seðlabankans jukust erlendar lántökur úr 52,2% í 54,9% af vergri landsframleiðslu, sem er nýja reikningsaðferðin sem fjmrh. og ríkisstjórn tóku upp fyrir um það bil ári síðan, á milli áranna 1984 og 1985. Og í júní á þessu ári voru löng erlend lán opinberra aðila og lánastofnana orðin rúmir 87 milljarðar kr. Þetta eru ógnvekjandi tölur og það er víst að nýir vendir verða ekki öfundsverðir af því að sópa þessum milljörðum auk þeirra sem safnast hafa á halla ríkissjóðs þangað sem þeir eiga heima, þ.e. að greiða þá.

Og það er ástæða til að spyrja sig í hvað er verið að setja þá fjármuni sem verið er að taka að láni. Það eru að vísu ýmis þjóðþrifamál eins og Byggingarsjóður ríkisins og Lánasjóður ísl. námsmanna en það eru líka mál sem engan veginn eru til þjóðþurftar, allra síst þegar mikið liggur við að draga úr þeim ógnvekjandi skuldum sem ríkisstjórnir síðustu ára hafa steypt íslenska þjóðarbúinu í.

Samkvæmt þeirri lánsfjáráætlun sem hér liggur fyrir er áætlað að taka hvorki meira né minna en 520 millj. kr. að láni til byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Óráðsía er eina orðið sem ég hef yfir þá lántöku. Og svo eru það virkjanamálin. Skuldastaða íslenska þjóðarbúsins er að stórum hluta til til komin vegna óhóflegra og rándýrra virkjanaframkvæmda allmörg undanfarin ár, framkvæmda sem hafa ekki skilað þeim arði í þjóðarbúið sem vonir stóðu til. Í stað þess að læra af fenginni reynslu skal enn haldið áfram á sömu braut.

Í þeirri lánsfjáráætlun sem nú liggur fyrir okkur er Landsvirkjun heimilað að taka 400 millj. kr. að láni og samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun munu þessar 400 millj. kr. og gott betur til reyndar, í allt 508,7 millj. kr., verða notaðar til að halda áfram framkvæmdum við Blönduvirkjun og standa straum af fjármagnskostnaði vegna þessarar virkjunar. Hins vegar vitum við, og það vitum við held ég öll sem hér sitjum, að eins og nú stendur er engin þörf fyrir þessa virkjun og ekki heldur fyrirsjáanleg í nánustu framtíð. Viturlegast hefði því verið að leggja þessar framkvæmdir af þar til sýnt yrði að einhver not yrðu fyrir þær en slík fyrirhyggja á greinilega ekki upp á pallborðið hjá núv. stjórnendum ríkissjóðs sem hvergi hvika frá þeirri virkjunar- og stóriðjustefnu sem safnað hefur að okkur meiri hluta þeirra skulda sem nú hvíla á íslenska þjóðarbúinu. Áfram skal haldið og verður ekki betur séð en að hæstv. fjmrh. borgi með glöðu geði þær rúmar 162 millj. kr. sem í ár fara í vaxtakostnað einan vegna þeirra lána sem þegar hafa verið tekin vegna Blönduvirkjunar. Ég sé eftir þessum milljónum, hæstv. fjmrh. Ég hef nóg annað við þær að gera.

Samkvæmt venju er II. kafli lánsfjárlagafrumvarpsins helgaður skerðingum á lögbundnum framlögum til hinna ýmsu málefna og er eins og venjulega hin versta lesning. Ég ætla ekki að fjölyrða um þennan kafla nú, en ég tek fram að ég styð eindregið fram komnar brtt., annars vegar á þskj. 264, sem flutt er af hv. þm. Helga Seljan og fleirum, þess efnis að 18. gr., sem varðar skerðingar til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, falli niður. Það hefur komið fram bæði hjá frsm. meiri hl. og formanni fjh.- og viðskn. áðan og eins í 2. umr. um fjárlög að þessi mál eru í nánari athugun og fagna ég því og vona að myndarlega verði staðið að þessum málaflokki og þessi skerðingarákvæði með öllu felld niður.

Hins vegar styð ég einnig brtt. á þskj. 311, sem borin er fram af hv. þm. Eiði Guðnasyni, þess efnis að 27. gr. frv. falli niður. Þessi grein kveður á um að tekjur sem Ríkisútvarpið hefur samkvæmt gildandi útvarpslögum af aðflutningsgjöldum af hljóðvarpsog sjónvarpstækjum ásamt fylgihlutum renni ekki beint til Ríkisútvarpsins heldur í ríkissjóð. Það hafa þegar verið settar á langar ræður hér í hv. deild um þessa grein frv. og ég hef ekki í hyggju að bæta mjög miklu þar við nú. Það er alveg ljóst að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið saumað hressilega að Ríkisútvarpinu og ýmsum öðrum íslenskum menningarstofnunum en það sem er kannske athyglisverðast við þessa grein nú á þessari stundu, einkum og sér í lagi í ljósi þeirra umræðna sem að undanförnu hafa farið fram um málefni Borgarspítalans, er að með þessu er ríkisstjórnin að skerða sjálfstæði Ríkisútvarpsins og virðist þetta bera að sama brunni og það sem ríkisstjórnin hefur haft á orði með Borgarspítalann: Allt skal sett undir miðstýringarhatt ríkisins og sjálfstæði þeirra stofnana sem undir ríkið heyra eða sveitarfélög skert sem því nemur.

Ég vil einnig gera sérstaka athugasemd við 22. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að skerða allverulega framlög til Ferðamálasjóðs og sérstakra verkefna Ferðamálaráðs. Þetta er ótrúlegt fyrirhyggjuleysi í ljósi þess að hér er um mjög arðvænlega grein að ræða sem sést e.t.v. best af því að ferðaiðnaður hér á landi skilaði jafnmiklu á síðasta ári og öll loðnubræðslan í landinu. Jafnframt hefur Alþingi nýverið ályktað um þessi mál, það var í apríl s.l. ef ég man rétt, og þá einróma um að efla ferðaþjónustu hér á landi. Um það bil hálfu ári seinna fáum við svo lánsfjárfrumvarp með skerðingargrein, þar sem gert er ráð fyrir að skerða framlög til þessara málefna. Gæti maður haldið, ef ekki væri betur vitað, að hægri höndin vissi ekki hvað sú vinstri gerði í hv. stjórnarmeirihluta.

Virðulegi forseti. Ég hef þessi orð ekki lengri nú. Þetta frv. til lánsfjárlaga er ekki nema drög eins og það liggur fyrir hér við 2. umr. og það er því heldur tilgangslaust að eyða miklu meira púðri á það.

Eins og fram hefur komið hjá hv. 8. þm. Reykv. mun minni hl. fjh.- og viðskn. skila minnihlutaáliti um þetta mál við 3. umr. þess og ég vona að þá verði hér nothæft og umræðuhæft plagg á borðum hv. þingmanna.