15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1436)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 311 að flytja brtt. þess efnis að 27. gr. í þessu lánsfjárlagafrv., þessu ófullburða lánsfjárlagafrv. sem nú liggur fyrir til afgreiðslu til 3. umr., að sú grein falli niður. Ég hef áður í umræðum um þetta mál vikið að þessu. Þessi grein fjallar nánar tiltekið um það að svipta Ríkisútvarpið tekjum af aðflutningsgjöldum af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera stuttlega grein fyrir forsögu þessa máls í örfáum orðum.

Frv. til nýrra útvarpslaga var lagt fram hér á Alþingi haustið 1984. 16. gr. þess frv. gerði ráð fyrir að Ríkisútvarpið hefði þessar tekjur af aðflutningsgjöldum hljóðvarps- og sjónvarpstækja og í athugasemdunum um 16. gr. frv., þar sem fjallað er um fjármál Ríkisútvarpsins, segir, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið fékk frá upphafi starfsemi sjónvarps tollatekjur af sjónvarpstækjum og loftnetum til tækjakaupa og uppbyggingar dreifikerfis í byrjun og seinna til litvæðingar.

Tekjustofn þessi átti sér stoð í lögum um tollskrá.

Breyting á þeim lögum 11. febr. 1970 (3. gr. 39. tölul.) veikti þessa stoð með því að gera ákvæðið að heimild til fjmrn.

Heimildarákvæðinu var síðan fargað við endurskoðun tollalaga vorið 1976. Þáverandi menntamála- og fjármálaráðherrar náðu þó samkomulagi um skil á umræddum tolltekjum til Ríkisútvarpsins meðan báðir voru ráðherrar.

Á árunum 1976-1979 voru tekjur þessar skertar nokkuð og féllu að fullu niður árið 1980.

Í ljósi framanskráðs er í 2. mgr. lagt til að bætt verði við megintekjustofna Ríkisútvarpsins aðflutningsgjöldum af hljóðvarps- og sjónvarpstækjum og hlutum í þau.

Fyrirsjáanlegar eru mjög fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum og er Ríkisútvarpinu því nauðsynlegt að endurheimta umræddan tekjustofn.“

Þessar röksemdir voru settar fram þegar fulltrúar hæstv. núv. ríkisstjórnar lögðu fram frv. til útvarpslaga, menntmrh. nánar tiltekið, á haustdögum 1984. Þetta frv. varð svo að lögum með þessu ákvæði í byrjun sumars 1985 og tók gildi 1. jan. 1986. Það kom einnig fram í umræðunum, herra forseti, að fyrirsjáanlegt væri með tilkomu fleiri útvarpsstöðva og fleiri sjónvarpsstöðva að áreiðanlega mundu auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins minnka vegna þess að tilkoma fleiri útvarps- og sjónvarpsstöðva hefur ekki í för með sér að það fjármagn sem fyrirtækin verja til auglýsinga vaxi, heldur hefur þær afleiðingar svo sem gefur auga leið að stærð kökunnar er óbreytt en það koma minni sneiðar og færri í hvers hlut.

Það gerist svo á þessu hausti þegar lánsfjárlagafrv. er lagt fyrir Alþingi að þar er að finna ákvæði um að fella niður þennan tekjustofn Ríkisútvarpsins sem fulltrúar þessarar sömu ríkisstjórnar höfðu lagt til að yrði tekinn upp fyrir svo skömmu síðan. Og ekki bara það, heldur er þetta ákvæði í lánsfjárlögum núna látið vera afturvirkt sem er gagnstætt allri góðri venju í lagasmíð. Það er látið vera afturvirkt til upphafs þessa árs. Það var gert ráð fyrir því að þessar tekjur mundu nema um 50 millj. kr. á þessu ári. Í ljós kom hins vegar, þar sem innflutningur á þessum tækjum sveiflast verulega frá ári til árs, að allt útlit var fyrir að þessar tekjur mundu nema eitthvað í kringum 120 millj. kr. á þessu ári. Nú er það svo að Ríkisútvarpið stendur í, ýmsum framkvæmdum, m.a.umdeildri húsbyggingu sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni hér, en hitt er annað mál að fram undan er endurnýjun á langbylgjustöðinni á Vatnsenda sem væntanlega verður byggð annars staðar, ekki hér í svo miklum námunda við þéttbýlið, heldur væntanlega einhvers staðar fyrir austan fjall. Þessi framkvæmd kostar um 300 millj. kr. Hún er óhjákvæmileg og satt best að segja held ég að forráðamenn Ríkisútvarpsins og ábyrgðarmenn andi léttar í hvert skipti sem veður á borð við það, og jafnvel ekki svo slæmt, sem gekk yfir landið í gær og nótt, andi léttar þegar slíkt veður er gengið niður og möstrin á Vatnsenda enn þá uppi standandi. Það er satt að segja gegn öllum verkfræðilegum reglum að þessi möstur skuli í rauninni enn standa og ég leyfi mér að taka þannig til orða: Guð hjálpi okkur ef þau falla, hrynja áður en ný langbylgjustöð verður reist því þá verður satt að segja óviðunandi ófremdarástand í þessum efnum og til þess má raunar ekki hugsa.

Ég hef leyft mér að flytja brtt. um að Ríkisútvarpið haldi þessum tekjustofni. Það er alveg ljóst að af hálfu þeirra sem nú stjórna þessum málum virðist ekki vera hugsað sérstaklega hlýtt til Ríkisútvarpsins. Þvert á móti virðist það opinber stefna að gera kost þess rýrari en áður var, gera því erfiðara um að starfa á sama tíma og allt virðist gert bæði leynt og ljóst til að létta undir og hjálpa þeim einkaaðilum sem í fjárhagslegu gróðaskyni hafa lagt út í rekstur útvarpsstöðva og sjónvarpsstöðva. Nú er auðvitað allt gott að segja um það að slík starfsemi skuli hafin en hins vegar er ekki hægt að segja neitt gott um það þegar greinilega á að þrengja kosti Ríkisútvarpsins, sem er menningar- og öryggistæki í eigu alþjóðar, en það er gert leynt og ljóst. Þessi till. og flutningur hennar er raunar að mínu mati prófsteinn á það hver er afstaða stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar til Ríkisútvarpsins. Mér er fullkunnugt um það að einstakir þm. í stjórnarliðinu, einkum í Framsfl., hafa lýst því yfir, m.a. hv. 9. þm. Reykv. að hann sé andvígur þessari 27. gr. frv. til lánsfjárlaga eins og það liggur hér fyrir. Þegar þessi till. kemur til atkvæða þá skýrist þetta allt saman og kemur í ljós hvern hug menn bera til þessarar stofnunar.

Ég hef lagt þessa brtt. fram, herra forseti, en í góðu samkomulagi við formann fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar hef ég ákveðið að láta till. ekki koma til atkvæða við þessa umræðu og mun því við atkvæðagreiðslu nú við 2. umr. kalla till. til baka þannig að hún komi til umræðu og atkvæðagreiðslu þegar frv. verður afgreitt héðan úr þessari hv. deild.