15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Helgi Seljan:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur gert grein fyrir afstöðu okkar Alþýðubandalagsmanna til þessa frv. í heild sinni en gat þess í leiðinni að ég mundi mæla fyrir eða skýra frá brtt. sem ég hef flutt ásamt honum og hv. þm. Skúla Alexanderssyni á þskj. 264, brtt. um það að 18. gr. frv., sem fjallar um skerðingu Framkvæmdasjóðs fatlaðra, falli brott. Ég tel nauðsynlegt að mæla fyrir þessari till. og segja um hana örfá orð þrátt fyrir orð hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. og mun að sjálfsögðu verða við þeim tilmælum hans að draga till. til baka til 3. umr. En ég vil skýra enn einu sinni ástæður þessarar brtt. þó ég hafi gert það að nokkru leyti við 2. umr. fjárlaga.

Hér er í raun og veru um tvö ákvæði að ræða, annars vegar er það skerðing á framlagi næsta árs. Frvgr. eins og hún er nú er upp á 100 millj. kr. framlag til Framkvæmdasjóðs á næsta ári. Við 2. umr. fjárlaga lýsti hæstv. fjmrh. því yfir að hann hygðist beita sér fyrir því að framlagið hækkaði um 30 millj. á næsta ári og ég reikna með því að það sé kannske það sem hv. frsm. meiri hl. er að tala um en vonandi er það þó hærri upphæð sem þar er um að ræða vegna þess að þrátt fyrir þessa hækkun er skerðingin enn þá 20 millj. skv. skýringu og skilgreiningu ráðuneytis og Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Ég álít hins vegar þá skilgreiningu marklausa og vitna þar til álits prófessors Sigurðar Líndals um þetta mál sem þm. hafa fengið í hendur í skýrslu frá Þroskahjálp. Þar er bent á það samkvæmt glöggu og vel rökstuddu áliti hans að skerðingin er til viðbótar 50 millj. og vantar þá 70 millj. enn upp á ríkisframlagið þrátt fyrir 30 millj. kr. hækkun þá sem hæstv. fjmrh. lýsti yfir við 2. umr. að hann mundi beita sér fyrir.

Nú kann að vera að menn geti greint á um það hvort prófessor Sigurður Líndal sé óskeikull í þessum efnum eða hvort skýring ráðuneytis og Fjárlaga og hagsýslustofnunar sé réttari. En ef menn skoða nú framlög til hliðstæðra sjóða, áður en Framkvæmdasjóður fatlaðra kom til, þá held ég að menn sjái það í hendi sér að skilgreining prófessors Sigurðar Líndals er rétt. Það er alveg augljóst. Einfaldlega vegna þess að raungildi framlagsins 1983, sem er síðasta árið sem Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra er við lýði, raungildisframlag þess árs er samkvæmt þessari skýrslu, sem ég vitnaði í áður frá Þroskahjálp, 155 millj. kr. og lækkar síðan, þ.e. til þessa sjóðs og Erfðafjársjóðs svo allt sé meðtalið. Síðan eru sett lög um málefni fatlaðra, komið á fót Framkvæmdasjóði fatlaðra með miklu veigameiri og fjölþættari verkefnum og raungildisframlag til hans, miðað við sömu forsendur og 1983, eru núna 94-100 millj. kr. Það sér auðvitað hver maður að þegar búið er að útvíkka svo verkefnasvið Framkvæmdasjóðsins frá því sem áður var þá hlýtur þessi skilgreining prófessors Sigurðar Líndals að vera rétt og sjóðurinn ætti þar af leiðandi að hafa núna til umráða um 200 millj. kr., ríkisframlagið þar af 152 millj. og 48 millj. af erfðafjárskatti. Ég held að ég biðji hv. fjh.- og viðskn. að athuga þetta vel, m.a. þetta álit prófessors Sigurðar Líndals sem liggur fyrir í skýrslu þeirri sem allir þm. hafa fengið í hendur frá Þroskahjálp og kemur glöggt fram þar hvernig hann rökstyður það að upphæðin eigi að vera þessi.

Seinni málsl. þessarar greinar fjallar um það sem oftekið var eða fór fram hjá Framkvæmdasjóði og beint í ríkissjóð af erfðafjárskatti á s.l. ári. Hæstv. fjmrh. hefur upplýst okkur glöggt um það hvað þar var um stóra upphæð að ræða eða 61 millj. kr. samtals í staðinn fyrir 21 millj. sem fjárlög og lánsfjárlög einnig gerðu ráð fyrir. Hæstv. ráðh. hefur einnig lýst því yflr, fyrst að hann mundi beita sér fyrir aukafjárveitingu upp á 10 millj. kr. af þessari ofteknu upphæð í ríkissjóð yfir til Framkvæmdasjóðs fatlaðra, og svo núna við 2. umr. fjárlaga 12 millj. kr. til viðbótar. Ég vil segja að það er mjög góðra gjalda vert að þetta skuli gert en vek athygli á því að enn er álíka upphæð eftir. Enn er álíka upphæð eftir sem hefur farið fram hjá Framkvæmdasjóði fatlaðra og beint í ríkissjóð en eins og lög kveða á um eiga tekjur af erfðafjárskatti, tekjur Erfðafjársjóðs að renna óskertar í Framkvæmdasjóð fatlaðra.

Aðeins svo til viðbótar vil ég benda á það að nú er gert ráð fyrir því skv. frv. til fjárlaga að erfðafjárskattur gefi á þessu ári yfir á næsta ár 48 millj. kr. Mér þykir það ekki trúleg tala í ljósi 61 millj. kr. frá árinu áður. Mér þykir það ekki trúleg tala því að venjan er sú að þessi skattur hefur hækkað verulega milli ára, þannig að alveg eins ætti að standa þarna jafnvel talan 68 eða a.m.k., svo maður gæti nú allrar sanngirni, a.m.k. álíka tala og var af erfðafjárskatti á s.l. ári eða 61 millj. kr. Þar munar 13 millj. kr. einnig þó menn fari nú í það lægsta í þessum efnum.

Ég lýsi því svo yfir að ég mun láta þessa till. koma til atkvæða við 3. umr. nema þeim mun meiri leiðrétting fáist, jafnvel þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. ráðh. um 30 millj. kr. hækkun til sjóðsins og það að hann skili aftur af ránsfengnum til ríkissjóðs 12 millj. enn til viðbótar, ég mun þá láta þessa till. koma til atkvæða og láta reyna á það þá. En ég mun láta það vera mína lokalotu í því efni og ekki flytja brtt. þá við 3. umr. fjárlaga um þetta mál því þá þykir mér fullreynt ef sú till. verður felld að ekki þýðir frekar að hreyfa við þessum sjóðum.