15.12.1986
Efri deild: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

229. mál, frádráttur vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur verið rætt í hv. fjh.- og viðskn. Það er tiltölulega einfalt í sniðum.

Það kemur fram í grg. að fjárhæðir skv. l. nr. 9/1984 eiga að breytast samkvæmt skattvísitölu eftir lögunum, en skattvísitala er ekki reiknuð út núna eins og mönnum er kunnugt og því nauðsynlegt af tæknilegum ástæðum að breyta þeim fjárhæðum með sérstökum lögum. Hliðstæðar breytingar eru gerðar á öðrum lögum, svo sem tekju- og eignarskattslögum, lögum um tekjustofna sveitarfélaga og málefni aldraðra.

Frv. gerir ráð fyrir því að hámarksfjárhæð þess frádráttar frá tekjum, sem heimiluð er vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, hækki í samræmi við tekjubreytingar á milli ára. Í því er gert ráð fyrir að þessi frádráttur hækki um 31%, en síðar hafa komið upplýsingar um það að tekjubreytingar milli ára hafi orðið meiri, eða um 35%, og þess vegna er flutt brtt. um að sú verði upphæðin í væntanlegum lögum.

Undir nál. meiri hl. rita Ey. Kon. Jónsson, Ragnar Arnalds, Valdimar Indriðason, Egill Jónsson, Jón Kristjánsson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Þau hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og Ragnar Arnalds telja sig ekki mótfallin frv. þessu né brtt. þar sem það sé flutt fyrst og fremst af tækniástæðum. Hins vegar eru þau efnislega á móti frádráttarheimildum af þessu tagi og taka af þeim sökum ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Stefán Benediktsson skilar hins vegar séráliti og gerir vafalaust grein fyrir því og brtt. við fjárlagafrv. sem hann boðar í sínu nál.

Sá ágreiningur sem hér er um að ræða er um frádrátt manna frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri. Af minni hálfu er það alveg ljóst, það hefur verið mín skoðun í áratugi og fyrir því hef ég barist, að valdsvið ríkisins þrengdist, fólkið í landinu fengi að nota sína peninga til þess að efla atvinnulíf landsins og fjárhag sinn og fjölskyldna sinna. Þetta er auðvitað náskylt því að ég tel ekkert athugavert við það að ríkið taki hluta af fjármagni því sem það þarf til síns rekstrar og framkvæmda að láni hjá borgurunum í staðinn fyrir að kasta eignarhaldi á peningana og firra fólk því öryggi og réttlæti sem í því er fólgið að það megi eiga talsverðar ávísanir á ríkisauðinn, hinn gífurlega ríkisauð.

Þarna greinir menn á. Þetta er sú stefna sem ég hef kallað auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans. Aðrir eru ósammála því að það sé rétt stefna. Það er eins og vera ber í lýðræðisríki að þar ræða menn málefnalega og öfgalaust, en ég ætla ekki að upphefja þá umræðu hér núna nema að gefnu tilefni. Ef við hefðum nógan tíma þá gætum við gert það. En meiri hl. leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt.