15.12.1986
Neðri deild: 20. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1459)

211. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. tjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti fjh.- og viðskn. um frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Nefndin hefur athugað frv. og kvatt á fund sinn Indriða Þorláksson og Lárus Ögmundsson frá fjmrn., Kristján Thorlacius frá BSRB, Elínu Ólafsdóttur frá BK og Björn Birgi Sigurjónsson frá BHMR.

Frv. þetta er samkomulagsmál fjmrn. og BSRB, BK og BHMR. Ekki var því tiltækilegt að breyta því mikið en málsaðilar óskuðu eftir því að viðbótarsamkomulag, sem þeir höfðu gert með sér, birtist í nál. þannig að um túlkun á ákveðnum atriðum í 14. og 17. gr. frv. yrði ekki ágreiningur. En minnismiði þessi er um verkfallsákvæði í 14. og 17. gr. frv. til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Og hljóðar hann þannig, með leyfi forseta:

„Í framhaldi af framlagningu frv. hafa fjmrn. og fulltrúar BSRB, BHMR og BK, sem að undirbúningi þess unnu, rætt um ákvæði 14. og 17. gr. með tilliti til samúðarverkfalla.

Í 14. gr. frv. er heimild til verkfalls miðuð við að verkfalli sé beitt til að stuðla að framgangi krafna félags í kjaradeilu. Í 17. gr. eru tilgreindar takmarkanir á beitingu verkfalls með sama hætti og í lögum nr. 80/1938.

Greinar þessar eru að mestu efnislega samhljóða 14. og 17. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Í þeim lögum eru engin sérstök ákvæði um samúðarverkföll en þau hafa engu að síður og þrátt fyrir orðalag 14. gr. þeirra laga verið talin heimil.

Við samningu frv. var rætt um það efni en svo virðist sem ekki hafi legið fyrir ótvíræður sameiginlegur skilningur aðila á heimild til slíkra verkfalla.

Aðilar hafa orðið sammála um að rétt sé að í þessu efni gildi sömu reglur og hjá öðrum stéttarfélögum, sbr. þó sérreglur frv. um boðun og framkvæmd verkfalls hjá opinberum starfsmönnum. Með hliðsjón af því leggja þeir einnig til að 14. og 17. gr. frv. verði óbreyttar frá því sem nú er og þar með efnislega hliðstæðar samsvarandi greinum í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.“

Lýkur hér að segja frá þessu viðbótarsamkomulagi sem málsaðilar gerðu.

Að beiðni sömu aðila, þ.e. fulltrúa fjmrn. og BSRB, BHMR og BK, flytur nefndin brtt. við 19. gr. á þskj. 274 og leggur til að frv. verði samþykkt svo breytt. Einnig flytur nefndin brtt. á þskj. 275. Brtt., sem samkomulag varð um, er við 19. gr. og hljóðar þannig:

„Síðari mgr. orðist svo:

„Fyrir 1. febrúar ár hvert skulu fjmrh. og sveitarfélög, að undangengnu samráði við viðkomandi stéttarfélög, birta skrár um störf sem falla undir ákvæði 3.-6. tölul. fyrri mgr. þessarar greinar. Ný skrá tekur gildi 15. febrúar næst eftir birtingu. Sé ný skrá ekki birt samkvæmt framangreindu framlengist síðast gildandi skrá um eitt ár. Andmæli gegn breytingum á skrám skulu borin fram fyrir 1. mars sama ár og skal ágreiningur um breytingar lagður fyrir Félagsdóm sem sker úr honum til fullnustu.“

Á þskj. 275 flytjum við brtt. sem er afleiðing af breytingu á frv. um Kjaradóm, sem nefndin hafði einnig til meðferðar, þar sem í því frv. höfðu ríkisskattanefndarmenn í fullu starfi verið teknir undan Kjaradómi. Við töldum eðlilegt að verða við óskum þeirra um að þeir verði áfram undir Kjaradómi og jafnframt töldum við eðlilegt að rektor Tækniskóla Íslands yrði undir Kjaradómi. Um þetta varð samkomulag í nefndinni.

Undir nál. rita nefndarmenn allir: Páll Pétursson, Kjartan Jóhannsson, Svavar Gestsson, Ólafur G. Einarsson, Halldór Blöndal, Guðmundur Bjarnason og Friðrik Sophusson.