21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (148)

36. mál, rannsóknarlektor í sagnfræði

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau voru í knappara lagi svo að ekki sé meira sagt. Það er hins vegar fróðlegt fyrir kennara og nemendur í sagnfræði við Háskóla Íslands að nú er vitað að rannsóknarlektorinn á að starfa að sagnfræðirannsóknum þótt hann hafi ekki sérmenntun til þess og ekki er enn ljóst hvernig hann á að skila einhverju verki á 3 1/2 mánuði í þessari stöðu.

Allir vita hversu litlu fé er veitt til Háskólans og til rannsókna hér á landi yfirleitt og hversu brýn þörfin er fyrir rannsóknarstöður í öllum þeim fræðigreinum sem kenndar eru við Háskóla Íslands. Og fyrir háskólamenn almennt er fróðlegt að fá það hér upplýst að þessi stöðuveiting er einsdæmi, að ekki stendur til að stofna slíkar stöður við aðrar deildir Háskólans.

Fyrir stjórnmálamenn og almenning er það kannske helst fróðlegt við þetta knappa svar að þessi ráðherra Sjálfstfl., hæstv. menntmrh., hefur varla látið hagsmuni sagnfræðikennslu við Háskóla Íslands ráða við þessa stöðuveitingu.