15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson vitnaði í grg. sem prófessor Sigurður Líndal lét fara frá sér um þetta mál. Þó að Sigurður Líndal sé virtur háskólaprófessor er ekki þar sem sagt að allt sem frá honum kemur frekar en öðrum spekingum í lögum í landinu sé allt saman satt og rétt. Ég verð að segja það alveg eins og er að það hefði kannske verið ástæða til þess fyrir Sigurð Líndal á sínum tíma að eiga eins og eitt lítið samtal við þá aðila sem höfðu með túlkun þessara mála að gera í sjútvrn. En prófessorinn þurfti ekki á því að halda. Ég skal ekkert um það dæma. Hann getur sjálfsagt gefið út grg. án þess að leita eftir slíkum upplýsingum, en það gerði hann ekki í þessu tilviki. Hann tjáði mér á sínum tíma að hann hefði gert þetta fyrir kunningsskap við viðkomandi mann sem vildi fá grg. um málið, en aldrei verið sín ætlan að það yrði opinbert mál.

Það voru á sínum tíma tekin saman minnisatriði um þessa grg. prófessors Sigurðar Líndal og má segja að málið gengur í aðalatriðum út á hvernig túlka beri þá 10. gr. sem hér hefur orðið að umtalsefni, þ.e. matsmenn framkvæmi undir stjórn yfirmatsmanna eftirlit það og mat sem lög þessi og reglugerð er sett er samkvæmt þeim gera ráð fyrir. Nú er það svo að prófessor Sigurður Líndal gekk út frá því að hér væri átt við alla matsmenn, hvort sem þeir væru starfsmenn sölusamtaka eða fiskvinnslufyrirtækja. Það ber að viðurkenna að þetta hefði mátt orða skýrar í lögunum. Hins vegar er málið mjög ljóst ef grg. og umræður um það eru lesnar þannig að ég lít svo á, og það hefur verið litið svo á í sjútvrn., að túlkun prófessorsins að þessu leyti sé ekki mjög nákvæmlega unnin. En hins vegar ber að viðurkenna að hugtakið „matsmaður“ í lögunum er ekki eins skýrt og skyldi, ef orðið matsmaður er t.d. notað jafnt um starfsmenn Ríkismatsins er meta ferskan fisk eða afurðir, eins og ég gat um áðan, aðra en yfirmatsmenn sem og starfsmenn frystihúsa og sölusamtaka. Þessi óskýrleiki, ef svo má að orði komast, hefur orðið deiluefni og valdið misskilningi, að þar sem matsmenn eigi að lúta stjórn yfirmatsmanna sé óheimilt að fela öðrum aðilum eftirlit með vinnslu og mati á afurðum. Það var þó margítrekað, eins og ég sagði áðan, í grg. með frv. á sínum tíma að tilgangur laganna væri að auka til muna ábyrgð sölusamtaka og láta þau annast eftirlit og mat á afurðum sínum. Þess vegna ætti þetta ekki að hafa valdið þeim misskilningi sem það gerði á sínum tíma.

1. málsgr. 10. gr. á fyrst og fremst við um starfsmenn Ríkismatsins sjálfs er vinna að mati. Þessa grein má þó skilja svo, eins og ég gat um áðan, að starfsmenn frystihúsa eigi að lúta stjórn yfirmatsmanna, ef hún er lesin beint, en eins og ég sagði er þessi túlkun óeðlileg eins og kom skýrt fram í grg. á sínum tíma. Matsmenn frystihúsanna eiga ekki að vera beinlínis undir stjórn yfirmatsmanna Ríkismatsins og var það aldrei tilgangurinn. En með því að fella niður þessa málsgr. er komið í veg fyrir að misskilningur rísi um túlkunina á hugtakinu „matsmaður“. Eftir að ferskfiskmat hefur verið lagt niður verður enginn matsmaður undir stjórn yfirmatsmanna og þar af leiðandi nauðsynlegt að fella 1. málsgr. niður.

Ég vil einnig víkja að gagnrýni á 4. gr. frv., að hún stangist á við 22. gr. Í 22. gr. laganna er kveðið á um að rísi ágreiningur um mat eða eftirlit skuli yfirmatsmenn úrskurða í samráði við fiskmatsstjóra og fiskmatsráð. Grein þessi á við um allan ágreining er upp kann að rísa og lögin taka til. Hins vegar er með 4. gr. frv. veitt heimild til að leita til Ríkismatsins um úrskurð um mat á ferskum fiski. Í þessu tilviki má leita til Ríkismatsins og eru það yfirmatsmenn sem úrskurða í því tilviki og gegn gjaldi. 4. gr. frv. á því einungis við í því tilviki að ágreiningur rísi milli fiskkaupanda og seljanda, sbr. sömu grein, og leitað hafi verið sérstaklega eftir úrskurði Ríkismatsins.

Ég vil að öðru leyti segja um frv. að ávallt hefur verið um það talað og tilgangurinn með því er eingöngu að leggja ferskfiskmatið niður. Reynt var að hafa það eins einfalt í sniðum og nokkur kostur var. Hitt er svo annað mál að það verður haldið áfram að endurskipuleggja Ríkismat sjávarafurða. Hins vegar, eins og kom fram hjá hv. þm. Garðari Sigurðssyni, er tekið fyrsta skref, og þó ekki fyrsta skref því að það hefur staðið yfir alllengi, en hér er stigið nýtt skref en ekki það síðasta.

Ég held að það ætti að vera þm. nokkur ánægjuauki ef hægt er að komast hjá því að nota opinberar stofnanir í ýmsum tilvikum. Það hefur lengi verið talað um að það væri nauðsynlegt að endurskipuleggja margt í opinberum rekstri. Hér er eitt dæmi um það að verið er að endurskipuleggja margt í opinberum rekstri. Því er ekki að neita að Ríkismatið hefur verið visst vandamál, t.d. að því er varðar fjárhag á undanförnum árum, og þar hefur þurft að fara fram breyting á fjármálalegri stjórnun. Það hefur tekist vel. Sem dæmi má nefna að Ríkismat sjávarafurða virðist ekki munu nota að öllu leyti heimildir skv. fjárlögum 1986 og hygg ég að það sé nokkuð óvenjulegt um ríkisstofnanir.

Það hefur verið gagnrýnt hér að frv. þetta sé seint fram komið og má alltaf um það deila hvenær frv. eigi að koma fram. Þetta frv. hefur verið rætt á mjög mörgum fundum hagsmunaaðila í haust og það þótti nauðsynlegt áður en það var flutt inn á Alþingi að búið væri að undirbúa málið sem best hjá þessum aðilum. Um það má vissulega deila, en ég býst við að það hafi flýtt fyrir störfum nefndarinnar að þeir aðilar sem til voru kallaðir voru mjög vel inni í málinu og höfðu rætt það á fjölmörgum fundum og gert upp hug sinn að því er málið varðar. Það eru nú einu sinni hagsmunaaðilar í sjávarútvegi sem eiga að búa við framkvæmd þessara laga og búa við matið og það hlýtur að vera mikilvægast með hvaða hætti þeir líta á það og hvernig þeir telja að gæði íslenskra fiskafurða verði fyrst og fremst tryggð.

Ég tel að þessi vinna að undirbúningi málsins ætti að koma til góða við umfjöllun málsins á Alþingi og jafnvel þótt lengri tími gæfist fyrir þm. til að kanna það. Að sjálfsögðu verður þingið að taka nauðsynlegan tíma í að líta á mál. En þá er ekki þar með sagt að það mundi breyta miklu.

Ég veit ekki betur en það sé venja hér í þinginu að treysta á störf nefndanna. Það er alveg nýtt fyrir mér ef þm. hver og einn geta sett sig inn í hvert einasta mál. (SJS: Það er æskilegt.) Það er að sjálfsögðu æskilegt, en ég held að það sé rétt að vera alveg hreinskilinn hér. Ég hef a.m.k. ekki gert það í öllum málum sem ég hef tekið þátt í að afgreiða hér í þinginu. En það má vel vera að ýmsum samviskusamari þm. en mér hafi gefist tækifæri til að gera það. En auðvitað hljóta menn ávallt að treysta á félaga sína að því er varðar afgreiðslu hinna ýmsu mála.

Ég vildi rifja þessi atriði hér upp, sem fram hafa komið í umræðunni, og vænti þess að ég hafi með því svarað þeim athugasemdum sem hér hafa fram komið.