15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1744 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er vissulega vandasamt þegar breyta á ákveðinni stofnun og draga úr umsvifum hennar hvernig að því skuli staðið. En eitt er víst að það er afar óheppilegt að það taki allt of langan tíma. Eins og ég sagði áðan, þá hefur verið unnið að þessum málum með þeim hætti að það hefur verið rætt mjög ítarlega við þá sem við þessa hluti eiga að búa. Ég er einn af þeim sem hafa viljað fara fremur varlega í breytingum á Ríkismati sjávarafurða. Það kom mjög skýrt fram á fundi, sem var haldinn í október um þetta mál þar sem allir hagsmunaaðilar voru á mjög góðum fundi sem var vel undirbúinn af hálfu allra þessara samtaka, að það vildu allir gera þessa breytingu. En Landssamband ísl. útvegsmanna vildi þó ganga miklu lengra, þ.e. að leggja stofnunina niður með öllu.

Ég efast um að það séu margar opinberar stofnanir landinu sem búa við eins mikla umræðu og gagnrýni í gegnum tíðina og Ríkismat sjávarafurða. Og væri nú betur að einhverjar aðrar stofnanir fengju nokkuð af þeirri umfjöllun, ýmsar aðrar eftirlitsstofnanir. Mér sýnist t.d. Vinnueftirlit ríkisins vaxa óþarflega hratt. En það er ávallt sagt ef einhver gagnrýnir þá ágætu stofnun að þetta sé allt á vegum aðila vinnumarkaðarins. Þeir borgi þetta og það sé allt í góðu lagi þar.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé oft afar óþægilegt fyrir sjávarútveginn hversu margar eftirlitsstofnanir eru að vasast í högum hans, eftirlitsmenn hver á eftir öðrum farandi um landið og gera kröfur sitt á hvað um hitt og þetta og ekkert tekið tillit til þess hvað allt þetta á nú að kosta. Auðvitað er erfitt að byggja upp arðsama atvinnugrein með allt þetta eftirlitslið á bakinu þó að margt af því sé nauðsynlegt og ágætt.

Varðandi þá till., sem hér er fram komin, að lög þessi öðlist ekki gildi fyrr en í ársbyrjun 1988, er það að segja að með því er Alþingi að samþykkja ákvörðun sem er andstæð vilja allra hagsmunaaðila. Hefði ég talið mikilvægt fyrir Alþingi að vita vilja þeirra. Að því er varðar sparnað í þessu sambandi, þá er gert ráð fyrir því að sparnaðurinn verði af hálfu ríkisins 25 millj. kr. á árinu 1987 og meiri síðar.

Vegna orða hv. þm. Karvels Pálmasonar um stöður við stofnunina vil ég upplýsa að 1. des. s.l. voru á aðalskrifstofu á upplýsingasviði 9,25 stöðugildi, í afurðadeild 12 stöðugildi, ferskfiskmatsmenn 43,6 stöðugildi, yfirmatsmenn svæða 10, sem eru út um land, og á rekstrarsviði og í ferskfiskdeild 4, eða samtals 79,65 stöðugildi. Auðvitað er rétt að taka það fram að breyting þessi mun vissulega taka einhvern tíma vegna þess að það þarf að sjálfsögðu að segja ferskfiskmatsmönnunum upp og þeir eiga sinn uppsagnarfrest. Síðan þarf að koma á nýrri skipan mála og á ég von á því að flestir þessara manna haldi áfram störfum á þessu sviði í þjónustu annarra aðila.

Ég vil benda á það að með frv. er skyldan afnumin en það er ekki á nokkurn hátt komið í veg fyrir það að svipuð skipan mála geti orðið í nokkurn tíma eftir áramót, og getur sjálfsagt orðið, því að hagsmunaaðilar hafa ekki enn gengið frá því með hvaða hætti endurskipulagningin á að eiga sér stað. Að sjálfsögðu mun sjútvrn. fylgjast vel með þeim málum en við viljum hins vegar leggja á það áherslu að hagsmunaaðilar hafa viljað fá þessi mál til sín og þeir verða að sjálfsögðu að skilja það að með því taka þeir jafnframt á sig ábyrgð og verða þá að sinna málinu og hafa um það frumkvæði.

Ég vildi, herra forseti, upplýsa þessi atriði vegna þess sem hér hefur komið fram. Aðalatriðið er það að hér er verið að draga úr opinberum umsvifum í sjávarútveginum eins og hefur verið að eiga sér stað að undanförnu. Um það er samstaða innan sjávarútvegsins og ég vænti þess að hv. Alþingi geti fallist á þær skoðanir.