15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held að það sé alltaf að skýrast betur og betur að hér er engan veginn einfalt mál á ferðinni. Hæstv. sjútvrh. sagði í sinni fyrri ræðu að það væri vani þm. að treysta á störf nefnda og einstakir þm. settu sig ekki svo ítarlega inn í hvert og eitt einasta þingmál. Vissulega er þetta rétt hjá ráðherranum. En má ég þá aðeins benda á það sem kom fram hér í ræðu Garðars Sigurðssonar, sem skrifar undir þetta nál. Árið 1984 fjallaði hin virðulega sjútvn. Nd. um frv. og lagði til að það væri samþykkt óbreytt. Hvað skeði svo? Síðan kom til sögunnar sjálfur 4. þm. Suðurl. og, ég held að ég fari rétt með, Gunnar G. Schram. Það var einhver til viðbótar við hv. þm. Garðar Sigurðsson. Þeir tóku nál., létu draga það til baka og gerðu á því tólf breytingar. Og hv. þm. Garðar Sigurðsson upplýsir að þrettánda breytingin, sem gerð var í Ed., hefði fallið niður í bókun. Ég hef enga ástæðu til að rengja Garðar Sigurðsson. En jafnframt því sem ég tek undir með hæstv. sjútvrh., að vissulega er venjan hér að þm. setja sig ekki nákvæmlega inn í hvert og eitt einasta mál, heldur leiti þá álits eða byggi nokkuð á umsögn nefnda, þá hefur það nú ekki aldeilis átt sér stað þarna að nefnd væri treystandi. Ef þeir vikju frá augnablik, Garðar Sigurðsson og Gunnar Schram, þá kokgleyptu þeir lagafrv. Kokgleyptu síðan tveim dögum seinna tólf brtt. Ég verð nú að biðja hæstv. sjútvrh. afsökunar á því að þó ég vilji gjarnan bera traust til nefnda Alþingis, og geri yfirleitt, þá óa mér svona vinnubrögð. Gjörsamlega óar að umturnað skuli frv., nál. Og hv. formaður nefndarinnar, hann deplaði ekki auga. Deplaði ekki auga. Ja, það er von að svona indælir þm. og „glöggir“ sækist eftir því að verða fyrstir á lista í sínu kjördæmi. Þetta er svona með átakanlegri vinnubrögðum sem ég hef séð til nefnda. Því miður.

Ég held að menn ættu aðeins að íhuga að hv. 3. þm. Austurl., Tryggvi Gunnarsson, sem er eini maðurinn hér inni sem hefur verulega reynslu af sjó og sjómennsku, er starfandi skipstjóri og hefur verið sjómaður frá barnæsku. Ég held að það sé alger óþarfi að vera með einhvern hroka þó hann lýsi því yfir að hann átti sig ekki fullkomlega á þessum lagabreytingum. Það sýnir nú bara aðeins næma tilfinningu hans vegna þess að í þessum breytingum felst mikið meira en menn vilja hér upp gefa. Ég vil aðeins benda á að þessi virðulegi þm. er að vísu pólitískur andstæðingur minn, en ég hlusta nokkuð grannt eftir hans umsögn, hvort sem ég væri henni sammála eða ekki, vegna þess að hann hefur svo yfirburða mesta reynslu í þessu starfi sjálfur. Ég held að þess vegna vegi hans umsögn þyngra.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson, minn kæri vinur, kvartaði undan því að menn væru hér hræddir við að breyta. Ekki veit ég við hverja hann átti. Ég hef talað hér hvað mest á móti þessu. Ég er ekki hræddur við að breyta í sjálfu sér. En ég er hræddur við dulbúnar breytingar. Breytingar sem ekki eru lagðar á borðið öðruvísi en á dulmáli. Felldar eru út þýðingarmiklar setningar. Ja, hvað hefur ein setning að segja, sagði sá ágæti og skýri þm., Garðar Sigurðsson. Ja, hvað hefur eitt orð að segja hvort það er já eða nei? Hvar enda menn ef þeir fara út í svona röksemdafærslu? Þetta er fjarri öllu lagi.

Ég vil vera sanngjarn í afstöðu minni. Karvel Pálmason talaði hér margt rétt og satt áðan í sambandi við fiskmatið. Og það kom líka fram hjá hæstv. sjútvrh. að fiskmatið - eiginlega orðið „mat“ skýrir það að alltaf verður deila, þetta er matsatriði er sagt, ja, það er nú mikið matsatriði. Orðið eiginlega býður upp á og skýrir innihaldið, það er að vega og meta. Sú gagnrýni sem Fiskmatið hefur orðið fyrir fyrr og síðar hefur oft og tíðum verið ákaflega harkaleg. Ég held að stundum hafi hún haft við býsna þung rök að styðjast, stundum ekki. Það kom t.d. fram hér í ræðu þm., sem ég man nú ekki hver var, að það hafi verið gerð athugasemd við saltfisk til Portúgals. Þetta var mikið blaðamál á sínum tíma. Það var alveg rétt. En hvað skeði? Það sem skeði var það að þá var dollarinn alltaf að stíga upp á þeim árum, það var áður en fallið byrjaði, og Portúgalar, sem eru fátæk þjóð þó þeir borgi undrahátt fiskverð, voru með býsna harðar athugasemdir og töldu sig hafa keypt mun dýrari vöru en þeir gerðu ráð fyrir. Þeir gerðu ekki athugasemdir eingöngu við íslenskan fisk, þeir gerðu athugasemdir við eina sendingu frá Íslandi, en á sama tíma gerðu þeir þrjár athugasemdir við norskan fisk vegna þess að þeir voru að pína verðið niður, vegna þess að dollarinn sté fast að því vikulega. Þetta var ekkert bundið við Ísland. Sjálfsagt hefur eitthvað verið athugavert við matið. En það hefur þá heldur betur verið líka í Noregi. Svona geta athugasemdir verið ósanngjarnar og ekki byggðar á þekkingu sem er til staðar.

Hv. þm. Karvel Pálmason minntist á að stofnunin væri of bundin við Reykjavík. Að vísu er það rétt hjá honum að það hefur fjölgað þarna á skrifstofum um nokkra menn en sennilega fækkað matsmönnum. En það er nú bara Parkinsons-lögmálið sem gildir þarna eins og annars staðar á skrifstofum. Hins vegar eru yfirmatsmenn í hverjum landsfjórðungi og reyndar víðar. En höfuðstöðvarnar eru hér. Viðkomandi yfirmatsmenn stjórna öðrum matsmönnum. Mikill meiri hluti matsmanna er staðsettur úti á landbyggðinni og kemur þá að þeirri breytingu sem ég skal taka fyrir hér á eftir. Mikill meiri hluti matsmanna er staðsettur úti á landsbyggðinni og er stjórnað af yfirmatsmönnum.

Það kom hér fram hjá hv. þm. Tryggva Gunnarssyni að ef t.d. væri sami eigandi að afla og vinnslu, við skulum segja eitthvert kaupfélag - og má taka eitthvað annað ef menn eru viðkvæmir fyrir orðinu kaupfélag - það á togarann, það á líka frystihúsið, það er seljandi og það er kaupandi. Hvað um sjómennina? Það var þetta sem Tryggvi Gunnarsson var að spyrja um. Hvað um sjómennina? Mér er nú sem ég sjái það í kringum allt land þegar kaupfélagið eða „stasjónistinn“ ætti bæði skip og frystihús og hann réði til sín matsmann. Ég býst við að það væri nokkuð misjafnt hvað menn þyrðu að rísa upp gegn kaupfélagsstjóranum, ef kaupfélagsstjórinn væri þá ekki matsmaðurinn sjálfur.

Hafa menn áttað sig á því hvað er að ske þarna? Það er talað um að að þessu sé mikill sparnaður. Ég lofaði hér einhverjum hv. þm. að útskýra það. Svo er ekki. Það má segja að það sé dregið úr ríkisumsvifum. Kostnaðurinn við fiskmatið er greiddur af tekjum sem eru 1 prómill af útflutningsverðmætum sjávarafurða, þannig að það er sjávarútvegurinn sem borgar fiskmatið, ekki ríkið. Ríkið innheimtir það og ríkið er þarna milligönguaðili. Þannig að um leið og Ríkismatið er lagt niður þá mundi náttúrlega þessi tala, 1 prómill, lækka. En hver yrði sparnaður kaupanda og seljanda? Eins og ég gat um hér áður yrði það ekki sjálfboðavinna hjá þeim matsmönnum sem við tækju. Vitanlega yrðu kaupendur og seljendur að borga þeim fiskmatsmanni kaup hvort sem hann kæmi frá Ríkismatinu eða ekki. Þarna er ekki um nokkurn sparnað að ræða nema að því leyti sem menn hafa mikla trú á sparnaði vegna þess að matið væri betur rekið hjá einstaklingum en ríkinu. Tekjurnar eru af sjávarútveginum, kostnaðurinn af þessari vinnu fyrir sjávarútveginn er greiddur af sjávarútveginum. Menn tala um að þetta sé ekki á fjárlögum. Ef þetta væri framlengt þá er lagaheimild til fyrir því að láta kaupendur og seljendur greiða matsmanni þó hann sé frá ríkinu. Það er gert í dag við stærðarmat. Það er ekki gert við gæðamat. Það er lagaheimild fyrir því. Af hverju eru menn að blekkja svona? Af hverju eru menn að tala um 25 millj. kr. sparnað? Þetta er 25 millj. kr. millifærsla. Ekkert annað.

Enn á ný: Af hverju kemur þetta frv. svona seint fram? Gott og vel að þetta sé rætt hjá hagsmunaaðilum. Vissulega er það til bóta. Ég skýrði hér frá því áður að þessu frv. var dreift hér í hv. deild 9. des., og ef tími hefði unnist til þá hefði það farið til 1. umr. 10. des. því þann dag var það á dagskrá. Hins vegar urðu þá svo miklar umræður um virðisaukaskatt að það var ekki hægt. Ég held að þó það sé ákaflega gott að ræða við aðila og fá þeirra umsögn, þá beri að hafa það í huga að hér er verið að fjalla um, eins og ég hef margtekið fram, 70% af gjaldeyristekjum landsmanna. Þess vegna er eðlilegt að allir átti sig á því hvað raunverulega er að gerast. Það er vitnað hér í hagsmunaaðila, hvað þeir hafi sagt. Þar ber að vísu ekki öllum saman, en ég heyrði frétt í útvarpinu í dag og fékk afrit af henni og, með leyfi forseta, vildi ég lesa þá frétt. Hún er svona:

Benedikt Sveinsson, framkvæmdastjóri Iceland Seafood, dótturfyrirtækis Sambandsins í Hull, segist óttast að lélegur gámafiskur, sem af og til berist á markað í Bretlandi og einkum á meginlandinu, kunni að spilla fyrir áliti á íslenskum freðfiski sem gæðavöru. Benedikt segir þetta í viðtali í nýjasta hefti tímaritsins Fishing News International og bætir við, að þegar fari orð af misjöfnum gæðum á íslenskum ferskfiski. Geysilegum fjármunum, tíma og vinnu hafi verið varið til þess að skapa freðfiskinum gæðamat um allan heim með góðum árangri og það megi alls ekki eyðileggja með útflutningi á lélegum gámafiski því að hann sé að sjálfsögðu íslenskur fiskur eins og frystifiskur.

Benedikt tilgreinir ekki dæmi um að lélegur gámafiskur hafi spillt fyrir sölu á frystum fiski, en svo segir þessi umboðsmaður SÍS orðrétt að Ríkismat sjávarafurða verði að koma til skjalanna við gámaútflutning líkt og það hafi strangt eftirlit með útflutningi á frystum fiski.

Ja, þarna kveður nú við annan tón hjá umboðsmanni Sambandsins. Ég les þessa frétt aðeins til að benda á nokkuð gagnstæðar skoðanir sem þarna koma fram. Úr því að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson er hér staddur er rétt að geta þess að frumkvöðull að freðfiskmarkaði okkar í Bandaríkjunum, Jón Gunnarsson, maður ótrúlega framsýnn og ótrúlega djarfur, braust inn á þennan dýrasta fiskmarkað í veröldinni og hafði þar erindi sem erfiði því að ég hygg að það sé óumdeilt að fram undir þetta höfum verið best metnir af fiskveiðiþjóðum á Bandaríkjamarkaði. Það er haft eftir Jóni Gunnarssyni að án þess að Ríkismat sjávarafurða hefði komið til hefði verið vonlaust að byggja upp hin öflugu fyrirtæki í Bandaríkjunum. Að vísu eru ár og dagar síðan en þetta er þó sá maðurinn sem sennilega hefur unnið stærst afrek í markaðsbaráttu og markaðssigrum fyrir íslenskan sjávarútveg.

Ég hef reynt að hlusta grannt hvort hrakinn væri eitthvað skilningur minn á 10. gr. Má ég lesa í þriðja skipti, með leyfi hæstv. forseta, 1. mgr. 10. gr.:

„Matsmenn framkvæma undir stjórn yfirmatsmanna eftirlit það og mat sem lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim gera ráð fyrir.“

Hvar er sagt hér að þetta nái bara til ferskfiskmatsins? Hvergi. Ég hef leitað umsagnar, og hefði gjarnan viljað getað leitað til fleiri, tveggja valinkunnra lögfræðinga. Til þess hafði ég að vísu mjög takmarkaðan tíma. Þeir sögðu að þetta væri furðuleg lagasmíð. Það væri örlítið reynt að lappa upp á þetta í grg. En 1. mgr. í 10. gr. sviptir yfirmatsmenn stjórn og eftirliti, ekki á ferskfiskmati eingöngu, heldur öllu afurðamati. Það var það sem ég var að segja í sambandi við ummæli Karvels Pálmasonar að það væru yfirfiskmatsmenn í hverjum landsfjórðungi og það væru yfirfiskmatsmenn reyndar víðar. Valdið er svo gífurlegt hjá þessum mönnum. Þeir eru sviptir þessu valdi. Eftir stendur að Ríkismatið er vanað. Valdið er tekið af þeim sem eiga að sjá um og stjórna og gefa fyrirskipanir. Það er ekki sagt hér: Matsmenn ferskfiskeftirlitsins framkvæma undir stjórn, eða reynt að setja einhvers staðar inn í þessa grein að þetta nái eingöngu yfir ferskfiskeftirlitið. Það er hvergi í lögunum. Það er bara afnumið vald yfir þeim. Valdið sem yfirmatsmenn hafa. Þetta kalla ég að vana eina stofnun. Má sjálfsagt nota eitthvert annað orð. Það er þetta sem ég fyrst og fremst hef við þetta að athuga, að það er tekið vald af þeim aðilum sem eiga að stjórna matinu og hafa eftirlit með því og stjórna matsmönnum. Það er ekkert bundið við ferskfiskmatið.

Hæstv. sjútvrh. var að kvarta hér undan prófessor Sigurði Líndal og ekki voru það nú miklar ávirðingar. Sagði þó að að bæri að viðurkenna að þetta hefði mátt orða skýrar. Hann hefði betur sagt þetta 1984. Hann kvartaði undan því að Sigurður Líndal hefði ekki komið þessu til stjórnarliðsins. Ég held að ég viti sögu þessarar umsagnar Sigurðar Líndals og af því að hún er svo rammíslensk og skemmtileg, þá held ég að sé rétt að ég skýri frá henni hér.

Einn hæfasti fiskmatsmaður í landinu, óumdeilanlega með hæfustu fiskmatsmönnum í landinu leitaði til gamals skipsfélaga síns, Sigurðar Líndals prófessors og bað hann um umsögn á þessari reglugerð. Sigurður tók þessum gamla skipsfélaga sínum ákaflega ljúfmannlega og sagði: Það er ekki hægt að semja nein lög nema með faglegri ráðgjöf. Nú verður þú að segja mér hvernig fiskmati er háttað o.s.frv., ég get ekki samið nein lög öðruvísi en vita nákvæmlega hver sé tilgangurinn með þeim og um hvað þau eigi að fjalla. Ég held að þeir hafi setið saman dagstund eða svo og kvatt fleiri matsmenn til. Eftir að Sigurður hafði spurt óteljandi spurninga samdi hann þessa umsögn. Þegar fiskmatsmaðurinn kom til hans og spurði: Á ég ekki að borga þér eitthvað fyrir þetta, Sigurður? Borga mér, sagði Sigurður, ekki bauð ég þér borgun þegar þú varst með mér í tvö sumur á kaupskipi og kenndir mér öll almenn sjómannastörf upp á hvern dag. Það er það minnsta að ég launi það með einhverri lögfræðilegri ráðgjöf. Þetta sýnir ákaflega skemmtileg tengsl, sem því miður fer fækkandi, þegar menntamenn voru úti í atvinnulífinu. Matsmaðurinn og fyrrv. sjómaður og lagaprófessor eru gamlir skipsfélagar og vinir og prófessorinn er að launa sínum gamla kennara og gefur þessa umsögn.

Vitanlega hefði hæstv. sjútvrh. verið í lófa lagið að leita til einhvers lagaprófessors þar að lútandi. En ég fullyrði það að við lögin 1984 kom enginn lögfræðingur nærri. Það hefur hins vegar skeð hér. Þessi lög og þessi greinargerð, sem alls ekki er illa samin, er greinilega samin af lögfræðingi. Tilgangurinn er hins vegar meira en sá að afnema ferskfiskmatið. Tilgangurinn er sá að taka valdið af öllum yfirfiskmatsmönnum í hvaða grein sem er.

Ég sagði í upphafi að ég væri út af fyrir sig ekki á móti breytingum en ég væri á móti dulbúnum breytingum. Sá lagasmiður sem um þetta hefur fjallað er, að ég hef heyrt ef mér er rétt sagt frá höfundi, prýðilega hæfur maður. Hann er líka prýðilega hæfur í að dulbúa, prýðilega hæfur í því, sýnir að þetta er alhliða lögfræðingur.

Ég skal ljúka máli mínu hvað úr hverju. En ég boða það að enn þá á ég geysilega mikið ósagt í máli þessu og það mun ég gera við 3. umr. jafnvel þó liðið verði á nótt, þó að ég lofi hins vegar ekki að halda jafnlanga og ítarlega ræðu og hv. 6. þm. Reykv., Ellert Schram, þegar hann afstýrði hér lagasetningu ekki fyrir löngu síðan með held ég sex klukkustunda ræðu. Og held ég að nú sé viðurkennt að þessi sex klukkustunda ræða hafi orðið öllum aðilum til góðs. Ég boða ekki sex klukkustunda ræðu en ég boða allítarlega ræðu með nýjum upplýsingum í 3. umferð.