15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1501)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil gjarnan leita skýrari svara eða svara er nú kannske of mikið sagt því að naumast er hægt að tala um svör hjá hæstv. sjútvrh. - varðandi það atriði í fyrsta lagi hvað liggi svona á með þessa lagasetningu. Hvaða ástæður helstar eru fyrir því að það þurfi endilega að keyra þetta hér í gegn og með gildistökuákvæði hinn 1. jan. n.k.?

Það mátti reyndar skilja hæstv. ráðh. svo að ein aðalástæðan væri sú að draga úr opinberum umsvifum, rétt eins og það væri aðalatriði málsins. Naumast getur það nú verið rétt skilið því að það hlýtur að vera aðalatriði málsins að tryggja sem mest og best gæði íslensks sjávarafla. En hér á það að gerast, eins og margoft hefur komið fram í umræðunni, að það á að leggja niður ferskfiskmatið, skyldumatið, 1. jan. n.k.

Í öðru lagi liggur ekkert fyrir um það hvað við tekur. Hæstv. sjútvrh. sjálfur sagði að hagsmunaaðilar hefðu ekki enn komið sér saman um neitt í þeim efnum. Ég gat ekki skilið orð hans öðruvísi.

Í þriðja lagi kom það fram að síðan ætti, svona í fyllingu tímans, að athuga starfsemi Ríkismatsins, endurskipuleggja starfsemi Ríkismatsins og þá er óhjákvæmilegt að spyrja, herra forseti: Hvað á að koma á undan hverju? Hvað er hér orsök og afleiðing? Það á sem sagt að afnema ferskfiskmatið. Það á að sjá til hvað það hefur í för með sér, hvað upp úr því sprettur og síðan á að skoða starfsemi Ríkismatsins í framhaldi af því.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég kem þessari hringrás ekki alveg saman og þó er ég ekki varaþm. og hef haft býsna mikinn tíma til þess að fylgjast með svona málagangi hér á Alþingi. Þetta er ósköp einfaldlega það sem oft áður hefur skeð hjá hæstv. sjútvrh., án þess að ég sé að lasta hann eða Framsfl., að hann kemur með málin seint fram, rekur þau í gegn af alkunnum dugnaði. Hv. þm. hlýtur þá að leyfast að spyrja hann út úr, hafi hann svörin á reiðum höndum. Síðan er gjarnan óvissunni lokað með þeim hætti að hæstv. sjútvrh. bætir því við: Að sjálfsögðu mun sjútvrn. fylgjast með málinu og það lá í orðunum, það kom hér síðast í ræðu hæstv. ráðh. áðan, að það væri ekki svo mjög alvarlegt, hvernig þetta færi allt saman, því að sjútvrn. ætlaði sér að fylgjast með málinu. Það er auðvitað gott og blessað.

Ég ítreka að það er óhjákvæmilegt að hæstv. ráðh. rökstyðji betur hvers vegna þessa dagsetningu og hana eina. Ef ég hef skilið hann rétt þá var hann að segja hér áðan að allir hagsmunaaðilar nánast krefðust þess að lögin tækju gildi 1. jan. n.k. Það kemur reyndar hvergi fram í þessum plöggum og ég spyr: Var það eitthvert skilyrði fyrir stuðningi af hálfu hagsmunaaðila við þessar breytingar að þær færu fram strax 1. jan. n.k.? Hvaða tilgangi getur það þjónað í sjálfu sér? Ef hæstv. ráðh. finnst eitt ár til undirbúnings breytingunum of langur tími, hvað segir hann þá t.d. við því að þessar breytingar tækju gildi eftir vetrarvertíð með vorinu, þannig að menn hefðu þá a.m.k. vetrarvertíðina til að undirbúa breytingar? Þá gæti maður hugsað sér að 1. júní eða einhver annar dagur þar um bil yrði gildistökudagurinn.

Það er einnig mjög óljóst, herra forseti, hvert á að verða hið eiginlega verksvið Ríkismatsins hvað varðar eftirlit með gæðum ferskfisks ef þessar breytingar ná fram að ganga. Og í öðru lagi, hvernig á Ríkismatið að ná fram markmiðum sínum eins og þau eru skilgreind? Reyndar ekki í lögunum, því að það er algerlega opið, heldur í umsögnum um lagafrv., í grg. eða umsögnum um einstakar greinar, þar er verið að reyna að dytta í gloppurnar, og þar segir m.a. í umsögn um 1. gr. að hlutverk Ríkismatsins skuli vera það að starfa áfram að þeim meginmarkmiðum að bæta hráefnis- og vörugæði í íslenskum sjávarútvegi. Þessu hlutverki gegnir stofnunin með því að hafa almennt eftirlit með og yfirsýn yfir meðferð og afla frá því að hann kemur um borð í veiðiskip uns fullunnin vara er flutt út.

Ja, guð minn góður. Ég vildi ekki vera starfsmaður stofnunar, sem hefur sín markmið svona skilgreind, hafa svona almennt yfirlit og yfirsýn yfir hlutina. Hvernig á ein stofnun að ná fram einhverjum raunhæfum markmiðum í eftirliti með svo skilgreindu hlutverki? Og hvaða tæki á stofnunin að hafa í sínum höndum ef öllum eða flestöllum matsmönnum stofnunarinnar verður sagt upp? Hvaða tæki verða þá í höndum Ríkismatsins til að ná þessum markmiðum fram? Þetta er allt saman að mínu viti ákaflega óljóst, herra forseti, og hef ég þó reynt að fylgjast með þessari umræðu svona mestan partinn. Ég tel hæstv. sjútvrh. ekki með nokkru móti hafa rökstutt það hvernig þetta á að vera né nauðsyn þess að breytingin gangi svo hratt fram sem hann leggur til.

Ég held að það væri hyggilegt af sjútvrh., ef hann vill afla málinu stuðnings hér, sem út af fyrir sig er þó nokkur meðal þm., það eru margir sem telja rétt að breyta til, að reyna að svara þessum spurningum og rökstyðja þetta betur. Hugsanlega hefði það þá áhrif á afstöðu manna. Að öðrum kosti sé ég ekki betur en að hér sé farið fram með miklum glannaskap að ætla hagsmunaaðilunum ekki annað en hátíðisdagana til að ná samkomulagi um breytta tilhögun alls ferskfiskmats í íslenskum sjávarútvegi. Það verður þá ekki mikið jólahald hjá þeim aumingja mönnum, ég segi ekki meira en það.