15.12.1986
Neðri deild: 21. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

246. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðeins til að svara þessari spurningu hv. þm. af hverju liggi svona mikið á, þá má út af fyrir sig segja að að sjálfsögðu getur þessi skipan mála verið óbreytt um einhvern tíma. Það er ekki aðalatriði máls. En það má alveg eins spyrja ef menn eru sammála um það að gera þessa breytingu: Hvaða tilgangi þjónar það að fresta breytingunni? A að fresta breytingunni aðeins til að gera hana seinna?

Það er full samstaða um það meðal hagsmunaaðila að þessi breyting verði gerð og fyrst sú samstaða hefur náðst, þá held ég að það sé allra hluta vegna best að hún sé framkvæmd sem allra fyrst. Þar að auki er gert ráð fyrir því á fjárlögum ársins 1987 að þessi breyting eigi sér stað og dráttur á henni (Gripið fram í.) - já, á fjárlagafrv. að sjálfsögðu, en það fer nú að draga að því að það frv. verði að lögum - mun þá verða til þess að útgjöld af þessari stofnun verði meiri en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Þetta eru aðalástæðurnar fyrir því að ég tel rétt að þessi breyting verði gerð sem fyrst. Hagsmunaaðilar hafa sagt: Fyrst þarf að ganga frá þessari löggjöf svo að við getum farið að undirbúa aðra skipan mála af fullum krafti.

Að því er varðar aðrar breytingar á Ríkismati sjávarafurða, þá er sá undirbúningur hafinn. Fiskmatsstjóri hefur umsjón með því starfi og hefur fengið heimild til þess að leita eftir sérfræðilegri ráðgjöf í því sambandi. Hefur hann m.a. leitað aðstoðar hjá erlendu ráðgjafarfyrirtæki, sem hann þekkir frá fyrri tíð, til þess að ráðleggja við það starf. En þar verður aðeins um ráðgjöf að ræða. Það fyrirtæki hefur annast ráðgjöf á ýmsum stöðum í opinberum rekstri og stjórnsýslu.

Ég vænti þess að þetta svari spurningum hv. þm. Ég get ekki svarað því betur og ég vænti þess að það sé fullnægjandi.