21.10.1986
Sameinað þing: 5. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

37. mál, rannsóknarlektor í sagnfræði

Fyrirspyrjandi (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka menntmrh. enn knappt svar. Í þessu svari kom bókstaflega ekki nokkur skapaður hlutur fram um það hvers vegna dr. Hannesi Hólmsteini var veitt þessi staða. Hæstv. ráðh. svaraði á þann veg að hann hefði viljað endurreisa þessa stöðu, en það svarar engu um það hvers vegna dr. Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni var veitt þessi staða og hvaða forsendur lágu þar til grundvallar.

Samkvæmt lögum og reglugerðum um Háskóla Íslands ber að auglýsa allar stöður, sama hvort þær eru til þriggja mánaða eða ævilangt, þannig að það er ljóst að hæstv. ráðh. hefur þarna gengið á snið við þau lög sem þessi samkunda setur og ætlast er til að séu virt í landinu. Eftir stendur í rauninni að eina ferðina enn hefur hæstv. ráðh., ráðherrann með valdið eins og hann er títt nefndur af háskólamönnum, beitt valdi sínu þvert á vilja og sjálfstæði Háskóla Íslands og því hefur hann sem yfirmaður Háskóla Íslands enn á ný sýnt þessari æðstu menntastofnun þjóðarinnar vanvirðingu. Það er ekki í fyrsta sinn.

Ég vil ítreka að stjórnvald sem hundsar þann hornstein þekkingar og lýðræðis sem sjálfstæði háskólastofnana er í raun er stjórnvald sem er hættulegt bæði lýðræði og þekkingu. Og nú er mál að linni, hæstv. ráðherra.