15.12.1986
Neðri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1768 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

158. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er vitaskuld ljóst og hefur áður komið fram hér í umræðum að það er skoðun okkar Alþýðuflokksmanna að það sé löngu orðið tímabært að endurskoða tekjukerfi ríkisins frá grunni, þar á meðal og reyndar ekki síst að einfalda tekjuskatta hins opinbera í heild sinni og grisja frádráttarfrumskóginn, bæði að því er varðar framtöl einstaklinga og þá ekki síður að því er varðar framtöl fyrirtækja, og jafnframt að stefna að því að tekjuskattur ríkisins af venjulegum launatekjum verði afnuminn.

Ég hef áður gert grein fyrir hugmyndum okkar Alþýðuflokksmanna og reyndar tiltölulega nýverið í þessum efnum í grófum dráttum og mun ekki gera það hér eða nú. Hér liggur hins vegar fyrir frv. til I. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum og frekari brtt. við það frá meiri hl. nefndarinnar. Hér liggja líka fyrir eða hafa verið kynntir í nefnd þykkir og miklir útreikningar með litlum og sætum prósentutölum sem hv. fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa rýnt í af mikilli gaumgæfni upp á brot úr kommu. Mín skoðun er hins vegar sú að þegar skoðað er tekjuskattskerfi ríkisins og þau áform sem fram undan eru í því sé nauðsynlegt að hafa í huga aðra skatta sem eru lagðir á tekjur þannig að heildarmyndin fáist og í því sambandi koma til skoðunar skattar bæði til ríkisins og til sveitarfélaga. Þannig verður að líta ekki einungis á tekjuskattinn einan sér þegar frv. eins og þetta eða brtt. eins og þær sem hér eru til umræðu eru skoðaðar heldur verður að líta jafnframt á sjúkratryggingagjald og útsvar og reyndar einnig á sóknargjald sem er tekjutengt.

Eins og hv. deild er kunnugt leggjast útsvar, sjúkratryggingagjald og sóknargjald á svonefndar brúttótekjur, en tekjuskattur hins vegar á svonefndar nettótekjur. Ég held að það sé einfaldast og réttast, þegar verið er að skoða álagningu af þessu tagi, að nota sama mælikvarða í báðum tilvikum. Það sem skiptir máli fyrir launþega í landinu eru í rauninni útgreidd laun. Útgreidd laun eru hvorugt af því sem hér er tilgreint, það eru hvorki brúttótekjur né nettótekjur. Í langflestum tilvikum fást nettótekjur með því að framteljendur hagnýta sér svonefndan 10% frádrátt. Þess vegna mun ég líka nota þá viðmiðun hér og nota í því nál. sem ég hef skilað. En á hinn bóginn eru lífeyrissjóðsiðgjöld, sem nema yfirleitt um 4% af tekjum, ekki útgreidd laun.

Þegar tekið er tillit til þessa kemur sú einkennilega staðreynd fram að álagningarstofn fyrir útsvar og sjúkratryggingagjald er hærri en útgreidd laun, rúmlega 4% hærri, reyndar 4,2%. Þegar þetta er tekið með í myndina að því er varðar tekjuskattsstofn kemur líka í ljós að tekjuskattsstofninn er ekki 90% af útgreiddum launum heldur 93,75%. Ef menn ætla að skoða heildarskattmyndina verða menn að taka tillit til þessa og sjálfsagt að nota einn og sama mælikvarðann í báðum tilvikum. Sá mælikvarði sem liggur beinast við er auðvitað útgreidd laun, það er það sem menn hafa í höndunum.

Ég hef skoðað heildarskattmyndina miðað við fyrirliggjandi tillögur meiri hl. nefndarinnar og önnur áform eins og þau blasa við og reynt að gera mér grein fyrir því hvernig þessi skattamynd liti þá út og þá miðað við útgreidd laun. Í því dæmi hef ég reiknað með 10,5% útsvarsálagningu. Á seinasta ári var útsvarsálagning yfirleitt á bilinu 10-10,8%, ef ég man rétt, og vel má vera að meðalálagningin nái ekki 10,5% á því ári sem fram undan er, en varla trúi ég að þar víki frá nema mjög lítið. Hér hef ég enn fremur gert ráð fyrir að afsláttur vegna fjölskyldu yrði 4009 kr. í sambandi við útvarsálagningu og lægsta greidda útsvar yrði 1166 kr. Nú mun að vísu vera komin fram og reyndar samþykkt brtt. þar sem hér skeikar um 25 kr., held ég, í hvorugu tilviki fyrir sig, en það breytir varla heildarniðurstöðum í þessu dæmi.

Ég hef enn fremur gert ráð fyrir að sjúkratryggingagjald yrði 2% og legðist á tekjur eins og gert er ráð fyrir í frv, ríkisstjórnarinnar um það efni. Ég hef jafnframt gert ráð fyrir því að sóknargjaldið yrði 0,35% sem er sú prósenta sem a.m.k. gjaldendur í Hafnarfirði þurftu að þola á s.l. ári.

Ef þetta er skoðað þá fæst svofelld niðurstaða:

1. Að þær tekjur sem ekki er greitt útsvar af, og er þá miðað við útgreiddar tekjur eins og ég hef skilgreint þær, eru 47 300 kr. á ári.

2. Það bil þar sem persónuafsláttur nýtist til þess að greiða útsvar að fullu, þannig að það er ríkið sem greiðir útsvarið til sveitarfélaganna í rauninni og gjaldandinn eða framteljandinn þarf ekki að standa undir því, þetta bil er þá frá 47 300 kr. og upp í 224 260 kr. samkvæmt þeim forsendum sem hér hefur verið getið.

3. Skattleysismörk tekjuskatts eru hins vegar við tekjurnar 345 900 kr. og hér er þá enn og aftur notaður sami mælikvarðinn, þ.e. útgreidd laun.

Það er ekki lengra en þetta sem umræðan venjulega nær hér um það hver séu áhrifin af þeim breytingum sem verið er að gera á skattstigunum, persónuafslætti og fleiru af því tagi. Síðan leggja menn út í margvíslega útreikninga þar sem tekin eru meðaltöl fyrir ýmsa hópa þjóðfélagsins og reiknaðar út breytingar á skattbyrði upp á brot úr prósentu miðandi þá gjarnan við eitthvað sem þeir gefa sér sem viðmiðunarkerfi.

Það er hins vegar athyglisvert að skoða jaðarprósentur þessara tekjutengdu skatta í heild sinni, skoða þær með hliðsjón af mánaðartekjum. Þá kemur í ljós að þegar tekjurnar eru allt að 18 700 kr. á mánuði er ekki um neinn tekjuskatt að ræða, engan tekjuskatt sem gjaldandi eða framteljandi þarf að standa undir, það útsvar sem álagt er allt upp að þessum tekjum er greitt með persónuafslætti.

Síðan kemur bil frá 18 700 kr. til 28 800 kr. þar sem persónuafslátturinn nýtist til að greiða hluta af útsvarinu, breytilegan og síminnkandi eftir því sem tekjurnar eru meiri þannig að jaðarprósentan er þá á bilinu 0-11,3% en þessi 11,3% fást náttúrlega út þegar tekið er tillit til þess að útsvarið sé 10,5%, að sóknargjaldið sé 0,35%, en álagningarstofninn sé 4,2% yfir 100%. Það gerir sem sagt samtals 11,3%.

Þar næsta bilið er þá frá 28 800 kr. til 36 600 kr. og er nú heldur þröngt eins og menn sjá, einungis 8000 kr. bil. Þar er jaðarskattprósentan 28,2%. Og enn kemur annað bil upp á 6000 kr. því sem næst, þ.e. frá 36 600 kr. til 42 200 kr., þar sem jaðarskatturinn er 30,3%. Síðan gerast menn stórstígari því að næsta bil er frá 42 200 kr. upp í 73 300 kr. og þar er jaðarskattprósentan komin upp í 40,2% af þessum tekjutengdu sköttum í heild sinni. Ef tekjurnar á mánuði fara yfir 73 300 kr. er jaðarskattprósentan komin í um 50% eða 49,5% af útgreiddum launum.

Í því nál. sem ég hef skilað hef ég dregið upp eilítið skematíska mynd af því sem hér um ræðir. Það sem er einkennandi fyrir þessa mynd er vitaskuld hversu bratt skattstiginn rís frá því menn borga engan skatt og upp í það að jaðarskatturinn er orðinn 40,2%. Þetta þýðir það að ef mánaðartekjur fara yfir 42 200 kr. á mánuði borga menn 40 kr. rúmar af hverjum 100 sem þeir vinna sér inn umfram þessi mörk í tekjutengda skatta á mánuði hverjum og það svo lengi sem tekjur þeirra eru innan við 73 300 kr. á mánuði, en þegar tekjur eru komnar umfram 73 300 kr. á mánuði borga menn nær helming af hverri krónu sem þeir vinna sér inn aftur til ríkisins í þessa tekjutengdu skatta.

Í sambandi við umfjöllun um þetta mál leitaði ég upplýsinga hjá fjmrn. um hver hefðu verið meðallaun opinberra starfsmanna í októbermánuði s.l. Samkvæmt upplýsingum þaðan voru meðallaun hjá opinberum starfsmönnum, útgreidd laun fyrir októbermánuð, með yfirvinnu- og álagsgreiðslum, til þeirra sem eru í BSRB 52 000 kr. og til þeirra sem eru í BHM um 74 000 kr. á mánuði.

Ég held að það sé einsýnt að fullfrískt, vinnandi fólk á Íslandi lendir nær allt í hæstu tveimur skattþrepunum. Upplýsingar fjmrn. um þetta efni staðfesta þá skoðun. Það er skoðun mín að hér sé of langt gengið í skattlagningu á jaðartekjum og þess vegna legg ég til að þær verði lækkaðar nokkuð. Ég held reyndar að þetta sé hærra hlutfall en alþm. hafi yfirleitt gert sér grein fyrir. Þess vegna flyt ég sérstaka brtt. um lækkun á skatthlutfallinu í þessum tveimur þrepum, sem eru aðalþrepin og þar sem obbinn af fullfrísku vinnandi launafólki er, till. um að þessar jaðarprósentur lækki um 4%. Ég legg til að þar sem stendur 28,5% í till. meiri hl. nefndarinnar standi þá 24,5% og þar sem stendur 38,5% í till. meiri hl. nefndarinnar, og reyndar í frv. ríkisstjórnarinnar líka að því er hvort tveggja þetta varðar, standi 34,5%. Samkvæmt upplýsingum fjmrn. mundu tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga þá lækka um 420 millj. kr.

Það er hins vegar ljóst og hefur margoft komið fram hér í umræðunni að tekjuskattar fyrirtækja eru ótrúlega lágir á Íslandi og reyndar óheyrilega lágir. Það er upplýst að einungis 2800 fyrirtæki af 10 600 sem telja fram greiddu tekjuskatta á líðandi ári. Og tekjuskattsálagningin í heild sinni er einungis áætluð um 1,3 milljarðar kr.

Nýlega er lokið í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið, mikil grisjun og einföldun á skattareglum og frádráttarreglum að því er varðar skattlagningu fyrirtækja. Ég tel að það sé meira en mál til komið að við Íslendingar tökum til hendinni í þessu efni ekkert síður en Bandaríkjamenn og grisjum þennan frumskóg og einföldum hann, drögum sem sagt úr heimildum til frádráttar vegna reiknaðra framlaga en ekki raunverulegra útgjalda, vegna reiknaðra framlaga í varasjóði og vegna framlaga í fjárfestingarsjóði og heimildir til fyrningarfrádrátta af ýmsu tagi verði jafnframt lækkaðar.

Það er upplýst að einungis framlög í varasjóði og fjárfestingarsjóði samkvæmt framtölum fyrirtækja hafi á yfirstandandi ári numið um 900 millj. kr. eða tæpum milljarði kr. Það er upplýst af hálfu fjmrn. Með því að takmarka þetta eða hugsanlega helminga það væri þarna komin veruleg bót og möguleiki til aukinna tekna ríkissjóðs af tekjum fyrirtækjanna, hækkun á tekjuskattsstofni þeirra. Sama gildir vitaskuld um fyrningarfrádrátt og ýmsa aðra frádráttarliði sem í gildi eru varðandi skattlagningu fyrirtækjanna. Svo illa vill hins vegar til að fjmrn. og reyndar allt hið opinbera kerfi er ákaflega fátækt af upplýsingum um þetta efni, þ.e. hversu þungt hinir ýmsu frádráttarliðir vega, sem fyrirtækjunum er heimilt að nýta sér. Þess vegna hef ég ekki farið lengra í því að útfæra tillögur um þetta efni en raun ber vitni, en ætla að ekki eigi að vera ofraun að hækka álagðan tekjuskatt á fyrirtækin um 650 millj. kr. Færi þetta eftir mundi tekjuskattur á einstaklinga lækka um 420 millj., en tekjuskattur á fyrirtækin hækka um 650 millj. Þarna yrði því afgangur upp á 230 millj. kr. sem ætti ekki að veita af til að bæta stöðu ríkissjóðs, en eins og kunnugt er á ríkissjóður orðið fáa vini og vil ég með þessu sýna honum eilítinn vináttuvott.

Þær brtt. sem ég hef hér lýst koma fram á þskj. 332. Þær eru einfaldar. Þær miða að því að létta skattbyrðina á venjulegu vinnandi fólki, á venjulegum launþegum sem búa við það að allar þeirra tekjur eru taldar fram til skatts. Ég held að þær mundu líka verða til þess að draga úr skattsvikum vegna þess að það er augljóst mál að sú óheyrilega háa jaðarprósenta sem lögð er á venjulegar tekjur stuðlar að því að menn laðist til undandráttar undan skatti. Þó ekki væri nema af þeirri ástæðu væri æskilegt að miða við lægri jaðarprósentur en lagt er til í frv. ríkisstjórnarinnar og jafnframt þeim tillögum sem meiri hl. nefndarinnar mælir með.

En aðalástæðan er þó sú að 40-50% jaðarskattur á tekjur venjulegs vinnandi fólks, kvenna sem vinna t.d. í bónus í frystihúsunum, kennara, hjúkrunarkvenna og þar fram eftir götunum, sem sagt obbans af opinberum starfsmönnum, því að það voru meðaltöl ein sem ég nefndi áðan, er allt of hár. Hér er allt of lagt gengið, það er of mikið á þetta fólk lagt.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál, herra forseti. Ég vænti þess að nál. tali sínu máli, tali skýru máli bæði í tölum og myndum og segi mönnum meira um hvers konar skattkerfi menn eru að samþykkja en þeir doðrantar sem út eru reiknaðir á Reiknistofnun með mörgum aukastöfum upp á brot úr prósenti eða prómill af ýmsu tagi.