15.12.1986
Neðri deild: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

Afgreiðsla frumvarps um Ríkismat sjávarafurða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hvað á þetta nú að þýða með þetta mál, þetta Ríkismat sjávarafurða? Hvaða voðaleg læti eru þetta? Ég vil benda á það að það er ekkert samkomulag um þinghaldið þessa dagana. Ég veit ekki til þess. Það hefur ekki komið fram að ríkisstjórnin leggi neitt ofurkapp á það að ljúka þessu endilega þannig að ég vil beina því til hæstv. forseta, Ingvars Gíslasonar, að hann sýni þingheimi svo sem hann jafnan gerir þá tillitssemi að gefa mönnum kost á því að fara senn að ljúka þessum vinnudegi. Það er langur dagur fram undan á morgun, alveg sérstaklega fyrir framsóknarmenn eins og kunnugt er. Ég veit að hv. þm. Páll Pétursson mundi meta það mikils og hæstv. sjútvrh. ef forsetinn sýndi Framsfl. þá tillitssemi að leyfa mönnum að ganga hvíldir til þeirrar gleði sem bíður þeirra í skauti morgundagsins.

Ég kann ekki við þetta offors, herra forseti. Ég skil ekki þessi ógnarlæti út af þessu máli. Ég sé ekki að það breyti öllu hvort þetta mál er tekið fyrir núna eða eftir fáeina sólarhringa. Ég hef enga trú á að þetta mál fari í gegnum þingið núna fyrir jól. Ekki nokkra trú á því og það er mikið skynsamlegra að semja sig í gegnum þinghaldið á morgun í rólegheitum heldur en vera að þræla þessu máli hér í gegn með þeim hætti sem nú á að fara að gera. Þannig að ég bið forseta að hinkra með þetta og spyr þá líka: Hvað með frv. um stjórnlagabreytingar sem hér hafa verið á dagskrá í allan dag og hafa ekki fengist rædd? Eru þau ekki þrjú hér á dagskrá um stjórnlagabreytingar? Er það ekki hv. 4. landsk. þm. sem flytur þau frv.? Fær hann ekki að tala fyrir þeim málum og koma þeim til nefndar þannig að þau geti verið þar til rækilegrar meðferðar í stjórnlaganefndum þingsins, sem starfa eins og kunnugt er vel, halda gjarnan eina 4-5 fundi á ári og skila helst ekki nefndarálitum ef nokkur kostur er að komast hjá því. Ég held að það væri ágætt að stjórnlaganefndin tæki sig nú til og ræddi þessi frv. hv. 4. landsk. þm. núna um hátíðarnar. Það mætti halda fund um það efni t.d. á Höllustöðum til þess að formaður stjórnlaganefndarinnar gæti sinnt þeim hugðarefnum sem honum eru kærust ella í jólahléi þm., þannig að hann gæti brugðið sér í fjárhúsin þegar mikið liggur við hjá rollunum.

Herra forseti. Ég vildi mælast til þess í fullri alvöru að fundinum lyki núna þannig að menn séu ekki að þessu hangsi hér fram á rauðanótt yfir máli sem ekkert liggur á.